16.05.1941
Neðri deild: 61. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í C-deild Alþingistíðinda. (3189)

72. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Stefán Stefánsson:

Herra forseti! Við 2. umr. þessa máls talaði hv. þm. Ísaf. mikið mál og lét Þess getið, að hann vissi ekki, að hvers ósk málið væri flutt. Ég vil benda á, að ég fyrir mitt leyti flyt málið samkv. ósk á þriðja hundrað útgerðarmanna við Eyjafjörð. Ég vil lesa upp nokkuð úr erindi þeirra, þar sem ég hygg, að hv. þm. lesi yfirleitt ekki það, sem lagt er fram í lestrarsalinn:

„Skip, sem fiska með dragnót hér í firðinum, sækja hin sömu fiskimið, er sótt hafa verið og sótt eru af hinum smærri útvegi. Nú er svo komið vegna fjölda þessara skipa, að bæði hefur tekið fyrir afla á lóðir, og einnig eru lóðirnar hvergi óhultar fyrir yfirgangi dragnótaskipanna, enda veiðarfæraspjöll og algert veiðarfæratjón ört vaxandi.

Virðist eigi annað vera fyrir hendi fyrir okkur smáútvegsmenn en að leggja með öllu árar í bát og láta skip okkar standa í naustum þá mánuði, sem dragnótaveiðin er heimil.

Þá bornir eru saman aflamöguleikar þeirra skipa, er veiði stunda með dragnót hér í firðinum, og okkar smáútvegsmanna, er ólíku saman að jafna. Skipin geta breytt um veiðiaðferðir eftir því, sem arðsamast þykir í það og það skiptið, og stundað veiðar hvar sem er í kringum landið, en smábátarnir eru staðbundnir við innfjarðaveiði.

Af þeirri reynslu, er fengizt hefur af dragnótaveiðum stærri báta og skipa, á þessu hausti og einnig á síðastl. hausti, þá er okkur það ljóst, að löggjafinn verður að ráða fram úr, hvort hagkvæmara muni einstaklingum og þjóðinni að leyfa dragnótaveiðar stærri báta og skipa á Eyjafirði og þá jafnframt leggja smábátaútveginn í rústir eða banna eða takmarka þessa veiði og stuðla þannig að því, að smáútvegsmenn við Eyjafjörð geti stundað óhindraðir veiði með lóðir, svo sem þeir hafa gert undanfarin ár og áratugi.

Annars vegar eru hagsmunir fárra einstaklinga, en hins vegar hagsmunir alls fjöldans.“ Þetta er álit sjómanna við Eyjafjörð. Ég vil vænta, að hv. d. sjái sér fært að samþ. þetta mál. Það liggur fyrir brtt. frá hv. þm. Ak. um að miða þetta við 5 smál. báta, og ég mun fylgja henni.

Hv. þm. Ísaf. fór mörgum óvirðingarorðum um okkur flm. og beint og óbeint um íslenzku sveitirnar. Hann nefndi fáránlega fulltrúa sveitakjördæma. Það læt ég mér í léttu rúmi liggja og sé ekki ástæðu til að fara hér um fleiri orðum. Það, sem ég las upp, lýsir bezt sjónarmiði flm. og sjómanna fyrir Norðurlandi, Vestfjörðum og víðar.