16.05.1941
Neðri deild: 61. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í C-deild Alþingistíðinda. (3190)

72. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Steingrímur Steinþórsson:

Ég hefði ekki kvatt mér hljóðs, ef ég hefði séð, að hv. 1. flm. er kominn hér í d.

Ég er að vísu einn af þessum sveitafáráðlingum, sem hv. þm. Ísaf. minntist á og hv. þm. virtist álíta, að engan rétt hefðu til þess að láta skoðanir sínar í ljós um þetta mál. En ég get sagt hv. þm. það, að nær allir útgerðarmenn á Sauðárkróki, Hofsósi og þar í grennd hafa eindregið óskað eftir takmörkun á leyfi til dragnótaveiða. Það er ekki til neins að halda því fram, að hér sé um einhverja vitleysu að ræða og eiginhagsmunasjónarmið. Ég vil fullyrða, að dragnótaveiðarnar eru sá vargur í véum, að þær eyðileggja möguleika smáútvegsmanna til lífsafkomu. Hvað sem frystihúsin og fiskifræðingarnir segja, þá er þetta svo. Ég er að vísu enginn sérfræðingur í sjávarútvegsmálum, en ég hef hlustað á það, sem skynsamir menn segja um þetta mál, og út frá þeirra sjónarmiðum hef ég reynt að skapa mér skoðun á því. Ég hefði getað hugsað mér enn aðra lausn, sem sé að nokkur hluti af fjörðunum væri alfriðaður. Nú er heimilt að friða takmörkuð svæði. T. d. hefur það verið gert á Sauðárkróki, þar sem svæðið innan við línu dregna úr hafnargarðinum og í Hegranestá er friðað fyrir allri dragnótaveiði. Hefur þessi friðun verið til mikilla bóta. Mér finnst okkur skylt að verja gæði lands og sjávar, svo að þau megi koma íbúum landsins að notum.

Um brtt. hv. þm. Ak. á þskj. 372 vil ég geta þess, að ég vil ganga til samkomulags við hann og samþ. hana.