16.05.1941
Neðri deild: 61. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í C-deild Alþingistíðinda. (3192)

72. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Frsm. 2. minni hl. (Finnur Jónsson) :

Ég heyri, að hv. flm. hafa nú allt í einu fengið málið við 3. umr. frv. Sérstaklega lagði ég eyrun við þeim ummælum hv. 3. landsk. (StStj.) að ég hefði átt að kalla hann og aðra sveitamenn hér í d. „flóafífl“. En þetta er ekki rétt hermt. Hins vegar sagði ég, að flutningur þessa máls hér inn í þingið bæri vott um, að hv. flm. væru mjög fáfróðir í þessum efnum. Annars er fáfræði þeirra og fáræði í fleiru fólgið en því. — Það ber t. d. greinilega vott um fáræði þeirra að lesa hér í d. aðeins parta úr skjölum þeim, sem þinginu berast, aðeins þá parta, sem þeir hyggja, að styðji málstað sinn, en sleppa svo því, sem í sama skjali stendur, ef það styður málstað andstæðingsins. Það er ekki trútt um, að hv. 3. landsk. hafi gert sig sekan um þetta áðan. Hann las mikið skjal frá útgerðarmönnum við Eyjafjörð. Hann las allan kaflann, sem mælir á móti því, að dragnótaveiðar séu stundaðar. Ef ekki er lesið meira, þá skyldi maður halda, að allt skjalið væri á þessa lund og algerlega mótmælt þar hvers konar dragnótaveiði. En þessu er þveröfugt farið. — Þessir útgerðarmenn leggja ekki til, að dragnótaveiði sé með öllu bönnuð, heldur að hún sé bönnuð bátum yfir 5 smálestir. Þeir vilja sem sé njóta dragnótaveiðanna sjálfir, en taka svona til orða, af því að þeir eiga ekki stærri báta sjálfir. Slíkur málflutningur stappar mjög nærri því að vera fölsun.

Ég ætla nú að lesa, með leyfi hæstv. forseta, það, sem hv. 3. landsk. sleppti úr skjalinu: „Til þess að við óhindraðir getum stundað atvinnu okkar svo sem verið hefur, þá teljum við, að löggjafinn verði að banna og takmarka dragnótaveiðar á Eyjafirði sem hér segir:

1. Banna skal alla dragnótaveiði á Eyjafirði allan ársins hring öllum skipum og bátum, sem stærri eru en 5 smálestir brúttó. Eyjafjörður skal teljast innan línu, sem dregin sé úr Landsenda vestan fjarðarins í Gjögurtá austan hans.

2. Bátum 5 smálesta eða minni skal heimil veiði innan nefndrar línu, enda noti þeir eigi lengri dráttartaugar en 300 faðma.“

Þetta ávarp endar á áskorun til hv. þm. um að leiða þetta mál til farsælla lykta.

Svo heldur hv. 3. landsk. langa ræðu um skaðsemi dragnótaveiða í landhelgi. Hann segist svo sem ekki vera að þessu fyrir sjálfan sig, heldur hvorki meira né minna en 300 útvegsmenn við Eyjafjörð. En eins og það, sem ég las úr erindi þeirra, ber með sér, vilja þeir ekki láta banna dragnótaveiðar, heldur sitja að allri veiði sjálfir. — Hv. 3. landsk. hefur því ekki farið alveg rétt með efni bréfsins. Með öðrum orðum : Þetta mál hefur verið flutt hér inn í þingið sem hreppapólitík fyrir þá útvegsmenn, sem ekki eiga stærri báta en 5 smálestir. Ég veit ekki, hvað skilningur þessa hv. þm. nær langt, en mér finnst hann ná mun skemmra en búast mætti við hjá alþm. — En hitt er alveg víst, að sannsöglin nær skammt.