16.05.1941
Neðri deild: 61. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í C-deild Alþingistíðinda. (3193)

72. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Pálmi Hannesson:

Ég ætla ekki að taka mikinn þátt í deilum um þetta mál og allra sízt að fara að svara hv. þm. Ísaf. En um ræður hans í þessu máli á bezt við að hafa þau orð, er séra Jón Steingrímsson viðhafði einu sinni: „Þar var margt sagt og flest óþarft.“

Aðalrök hv. þm., ef rök skyldi kalla, voru þau, að miklu fé hefði verið varið til að reisa frystihús, á áttundu millj. króna. Ef þetta frv. gengi fram, yrðu frystihúsin gagnslaus og ónýt, öllu þessu mikla fé á glæ kastað, og þær 1700 sálir, sem nú hafa vinnu við frystihúsin, yrðu atvinnulausar. Ég vil nú alveg snúa þessu við og er sannfærður um, að hv. þdm. eru þeim gáfum gæddir að skilja, að þessi rökfærsla er blátt áfram út í hött. Afkoma frystihúsanna getur ekki oltið á því, hvort dragnótaveiði er stunduð 2 mánuðum lengur eða skemur. Þau hafa sem betur fer annað hlutverk að rækja en að frysta flatfisk eingöngu, svo hann skiptir því sannarlega ekki öllu máli. Ég hef t. d. átt tal við forstöðumenn frystihúsanna á Sauðárkróki og Hofsósi. Þeir segja: Okkar hagsmunir eru bezt tryggðir með því, að hófs sé gætt í veiðunum og ekki sé gengið of nærri stofninum, svo að fiskur gefist nægur til frystingar, ekki aðeins 2–3 ár, heldur um alla framtíð.

Og ég vil minna hv. þm. Ísaf. á það, að þeir, sem stunda lóðaveiðar á smábátum, eru margir, og það er mikið fé, sem bundið er í þeim atvinnuvegi, og margt fólk, sem á lífsafkomu sína undir því, að hann geti þrifizt. Og það ekki síður, þótt einhverjum þyki þessi atvinnuvegur of smávægilegur til þess að safna um hann ýtarlegum skýrslum.

Í sambandi við þetta ætla ég, með leyfi hæstv. forseta, að lesa bréf, sem Alþingi hefur borizt úr Skagafirði um þetta efni. Hv. þm. Ísaf. hafði eins konar „upplestrarfrí“ hér í d. við 2. umr., svo ég má væntanlega lesa hér það, sem útgerðarmenn og sjómenn í Skagafirði samþykktu og sendu Alþingi.

Þetta bréf er þannig:

„Mörg undanfarandi ár hefur dragnótaveiði á Skagafirði verið plága fyrir smáútgerð Skagfirðinga. Fram að síðasta ári voru það helzt danskir dragnótabátar, sem eyðilögðu ýsugöngurnar, sem á hverju hausti koma inn á fjörðinn, og hefur kveðið svo rammt að þessu, að skagfirzkir bátar hafa ekki haft frið með lóðir sínar nema á hraunum, þar sem ekki er hægt að veiða með dragnót. Oft hefur það og komið fyrir, að bátar hafa misst lóðir sínar af völdum dragnóta, og jafnvel hafa dragnótabátar togað í lóðhelgi og ekki svarað nema illu einu, þó að hafi verið fundið, einnig hafa umkvartanir og kærur til yfirvalda ekki náð tilætluðum árangri.

Síðast liðið ár hefur alveg keyrt um þverbak hvað dragnótaveiði snertir hér á Skagafirði, og eru þá Íslendingar einir um veiðina. Má fullyrða, að síðastliðið haust gerðu dragnótabátar Skagfirðingum ómetanlegt tjón með löglegum og ólöglegum veiðum, fjöldamargir bátar voru á hverjum einasta degi að dragnótaveiðum á beztu fiskimiðum okkar og vitað er, af sögn þeirra sjálfra og sterkum líkum, að margar nætur var togað með ólöglegum veiðarfærum, þ. e. trolli, með geipiafla. En því miður komst enginn í færi til að kæra slíkt: Af þessum ástæðum, eins og oft áður, þurrkuðust beztu fiskimiðin, og var það aðeins hinu háa fiskverði að þakka, að skagfirzkir sjómenn fengu sæmilegan hausthlut að þessu sinni.

Þess má og geta, að í skjóli hafnarbóta bæði á Sauðárkróki og Hofsósi hefur risið upp allmikill smábátaútvegur, þar sem hraðfrystihús eru á báðum fyrrtöldum stöðum, sem er eina atvinnutæki sjómanna hér. Það er því sýnilegt, að ef þessari rányrkju heldur áfram, er smáútvegi þessum dauði búinn og þá um leið efnahag og afkomu sjómanna.

Nú eru allir Skagfirðingar, og þá sérstaklega sjómennirnir, einhuga um að berjast fyrir rétti sinum, þ. e. krefjast þess, að dragnótaveiðar á Skagafirði verði takmarkaðar meir en nú er.

Við, sem undirritum meðfylgjandi áskoranir, og fjöldamargir aðrir, sem ekki hefur náðst til að skrifa nöfn sín, viljum fara fram á, að háttvirtir þingmenn Skagfirðinga geri sitt ýtrasta til þess, að á næsta Alþingi veiði sett lög, sem banni veiðar með hvers konar dragnótum innan línu, sem dregin sé frá innri enda Málmeyjar í Selnes á Skaga frá 1. ágúst ár hvert. Þó séu undanskildar ádráttarnætur, sem dregnar eru frá landi.

Fleira teljum við ekki þörf að taka fram málinu viðkomandi, en væntum góðra málaloka.“ Þetta er álit skagfirzku sjómannanna. Ég get sjálfur borið um, að hér er rétt skýrt frá, því ég hef gengið úr skugga um það af eigin raun, hversu nú háttar til þar nyrðra.

Ég skal hiklaust játa það, að á undanförnum árum hef ég verið vægari í dómum um dragnótaveiðina en margir í d. En þegar ég hef séð með eigin augum, hvert stefnir, þá er mér ómögulegt, vilji ég teljast heiðarlegur maður, að mæla bót því ástandi, sem nú ríkir.

Hv. þm. Ísaf. segir, að þetta sé hreppapólitík og hagsmunastreita. Það er alveg rétt. Hér er um að ræða tvenns konar hagsmuni. Annars vegar eru hagsmunir þeirra héraðsbúa, sem eiga afkomu sína undir því að geta notað hin næstliggjandi fiskimið, sem hægt er að sækja á litlum fleytum og fáliðuðum. Hins vegar eru svo hagsmunir hinna stóru „heimilislausu“ aðkomubáta, sem hafa nægan vélastyrk og veiðitæki til að sigla út af kortinu, ef svo má segja, og snúa á aðrar fiskileitir. Og þá eru þeir þar framandi,, sýna enga hlífð við fiskistofninn, en „draga helzt meira en drottinn gefur“, láta sig litlu skipta, þótt upp komi stundum í drættinum veiðarfæri heimamanna.

Hv. þm. Ísaf. er þýðingarlaust að neita því, að dragnótin felur í sér mikla hættu fyrir vöxt og viðgang fiskistofnsins. Þar gegnir alveg sama máli og um botnvörpuna. En hins vegar hefur löggjafinn sett skorður við því, að veitt væri með því stórvirka veiðitæki innan landhelginnar. En dragnótin fær óáreitt að taka afla og veiðivon frá fátækum sjómönnum.

Ég treysti svo á réttsýni þessarar hv. d., að hún láti mál þetta ná fram að ganga.