28.03.1941
Efri deild: 26. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

56. mál, verðlagsuppót á laun embættis- og starfsmanna ríkisins

Jóhann Jósefsson:

Ég tók eftir í ræðu hv. 11. landsk., að hann talaði þar um það, sem frsm. fjhn. ræddi um, en það var svar hans til hv. 1. landsk. viðvíkjandi því, hvernig fara skuli með þá menn, sem eigi eru ráðnir fastir starfsmenn hjá ríkisstofnunum, heldur til mánaðar eða ef til vill skemmri tíma í senn.

Öll sanngirni mælir með því, að þeir njóti algerlega sömu réttinda og aðrir starfsmenn ríkisins, sem ráðnir eru fastir til ársins. — Það mun vera orðið algengt á vissum tímum, að ýmsar stofnanir þurfi að auka starfslið sitt, eins og t. d. sú stofnun, er hv. 1. landsk. tók til dæmis. Ég get því ekki séð nokkur vandkvæði á því að láta sömu reglu gilda fyrir þá menn, sem ráðnir eru til styttri tíma en árs, og hina föstu starfsmenn ríkisins. Það er augljóst mál, ef menn íhuga það nokkuð, að fyrir þá menn, sem hér eiga hlut að máli, skiptir þetta ekki alllitlu. Nú þegar þingið er á annað borð að gera þessa bragarbót, þá ætti að gera það, sem frekast er unnt fyrir alla starfsmenn ríkisins og reyna að gera öllum aðilum jafnhátt undir höfði, hvort sem þeir eru fastir eða ráðnir til skamms tíma. En aðila kalla ég þá, sem vinna fyrir ríkið og verja til þess hvað litlu sem er af tíma sínum. Vitanlegt er, að í einkarekstri eins og t. d. verzlunum eru vissir mánuðir, sem ærið er að starfa, t. d. við afgreiðslu. Þá er aukafólk tekið fyrir alllangan tíma ár hvert. Hér finnst mér horfa líkt við eins og t. d. við afgreiðslu pósts, og fleira mætti telja í því sambandi. — Að lokum vil ég svo endurtaka það, að mér finnst fólk, sem ráðið er til skamms tíma, eiga að njóta sömu réttinda o:; fastir starfsmenn.