16.05.1941
Neðri deild: 61. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í C-deild Alþingistíðinda. (3200)

72. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Frsm. 2. minni hl. (Finnur Jónsson) :

Það hefur nú brugðið svo undarlega við, að hv. flm. þessa frv., sem þögðu mikið til við 1. og 2. umr. þessa máls, hafa nú hafið mikið málskraf við 3. umr. málsins út af aths. frá mér, sem gaf ekki tilefni til sérstakra ræðuhalda, þar sem ég upplýsti, að aðeins 3 af 37 frystihúsaeigendum hefðu lagt með frv. Annað tilefni gaf ég ekki til þeirra ræðuhalda, sem fram hafa farið hér í deildinni.

Ég vil út af því, sem hv. þm. Barð. sagði, að ekki hefði græðzt mikið á þessum umr., ekki láta hjá líða að benda á, að það hefur þó eitt græðzt á umr., en það er í sambandi við upplestur hv. 3. landsk. á áskorun frá Eyjafirði. Það hefur upplýstst, en ekki af honum sjálfum, Því að hann hélt því vandlega leyndu, að ástæður hv. flm. fyrir þessu frv. eru tvær. Sumir hv. flm. fluttu frv. af því, að þeir vildu hafa þessi svæði handa dragnótabátum vissra manna, en aðrir vildu alveg banna viss svæði fyrir dragnótaveiðar, eins og báðir hv. þm. Skagf.

Hv. l. þm. Skagf. segir, að flestir aflamenn sýni meiri hlífð við sín eigin veiðisvið. Ég þekki aflamenn meira að því, að þeir vilja fá að nota veiðarfæri sín á þá leið, sem þeir eru vanir um margra ára skeið. Einmitt áskorunin frá Eyjafirði sýnir þetta. Menn vilja fá að nota sín veiðarfæri og vilja fá að hafa sín fiskimið fyrir sjálfa sig. Þeir biðja ekki um, að Eyjafjörður verði friðaður fyrir dragnót, heldur að þeir fái að stunda þar dragnótaveiðar án samkeppni við aðra.

Hv. 3. landsk. láði mér, að ég skyldi ekki lesa skjöl, sem kæmu í þingið viðvíkjandi sjávarútvegsmálum. Ég hef ekki talið skyldu mína að lesa öll skjöl, sem þinginu berast. Ég veit, að það er ákaflega létt að safna undirskriftum hjá mönnum með þessu máli, en ég er þess viss, að hefði verið farið að safna undirskriftum á móti þessu frv., þá hefði verið mjög auðvelt að safna miklu fleiri á móti því en með. Það hefur alltaf verið svo með dragnótina, að þeir, sem hafa ekki verið búnir að afla sér hennar, hafa verið á móti henni. Skagfirðingar hafa aldrei lært að nota dragnót, og þeir eru á móti henni. Eyfirðingar hafa aftur á móti notað hana með góðum hagnaði, og þeir geta ekki heldur hugsað sér að banna hana þar. Þeir eru búnir að sjá, hvaða gagn má af henni hafa. Það er ákaflega algengt um fiskimenn, að þeir séu íhaldssamir og trúi ekki fyrr en þeir taki á. Reynslan hefur líka verið sú við Faxaflóa, að í heilum verstöðvum, eins og í Keflavík, voru áður allir á móti dragnót. Svo fengu 1 eða 2 menn sér hana, og þegar þeir þekktu þetta veiðarfæri og höfðu kynnt sér fiskimiðin, sem hægt var að nota það á, þá vildu þeir ekki hætta við hana meir, og nú er svo komið, að í Keflavík, þar sem allir voru á móti dragnót fyrir 4 árum, þar nota nú allir dragnót. Sama mundi verða á Skagafirði, ef trillubátaeigendur þar fengju sér dragnót, eins og trillubátaeigendur við Eyjafjörð hafa gert.

Hv. 3. landsk. sagði, að ég væri að vinna á móti smælingjunum, fyrst ég væri á móti þessu frv. Ég veit ekki betur en að dragnótaveiðin hér á landi sé stunduð eingöngu af smærri útgerðinni, af trillubátaeigendum og smærri mótor; bátaeigendum. Ég hef ekki talið rétt að láta báta þeirrar útgerðar, sem ég veiti forstöðu, fara á dragnótaveiðar. Ég tel, að skipin séu til þess of dýr, þó að þau séu ekki nema 40 smálestir. Ég veit, að trillubátar og mótorbátar upp í 20 smálestir stunda dragnótaveiðar með ákaflega góðum hagnaði. Ég hef hingað til ekki orðið var við, að skip af þessari stærð væru kölluð stórútgerð eða hásetar á þeim skipum væru kallaðir stórlaxar. Annars getur hv. 3. landsk. leiðrétt það, ef það er ekki rétt.

Ég talaði um fáránlegar tillögur frá fulltrúum sveitakjördæmanna, en ég talaði ekki um, að sveitamenn, sem hefðu sent þessa fulltrúa á þing, væru neitt fáránlegir. Hv. 3. landsk. fer því þarna með rangt mál. Ég held, að þótt hann sé fastur í sessi nú um einhvern vissan tíma, þá geti hann varla sagt, að hann sé sama og Eyjafjörður.

Þá var annað, sem hann hafði ekki heldur rétt eftir mér. Hann sagði, að ég hefði sagt, að þetta frv. væri flutt til að afla verkafólks í sveitum. Þetta sagði ég aldrei. Ég sagði, að það væri líkast því, að þetta frv. miðaði að því að gera fólk atvinnulaust að hausti til, og þá gæti það ekki verið flutt til þess að afla verkafólks í sveitum, svo að þessi hv. þm. hefur viljandi eða óviljandi snúið við því, sem ég sagði um tilgang þessa frv. En af því að ég gat ekki séð, að þetta gæti létt undir með sveitunum, en aðeins spillt fyrir sjávarútvegsmönnum, þá skildi ég ekki, hvernig þessir hv. þm. gætu flutt það. Og ég get nú ítrekað það, að ég er alveg sannfærður um, að ef þessir hv. þm. hefðu kynnt sér þetta mál nógu rækilega, áður en þeir fluttu það á þingi, frá öllum hliðum eins vel og ég hef gert og hæstv. viðskmrh. hefur gert, þá hefðu þeir aldrei ætlað sér þá dul að fá það samþ. hér á þingi, eftir að Alþingi hefur gert allt, sem það hefur gert, til að fá menn til að kaupa veiðarfæri, leggja fé í frystihús og stunda þessar veiðar sem stóran lið í atvinnu manna á þessum tíma.