28.03.1941
Efri deild: 26. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (321)

56. mál, verðlagsuppót á laun embættis- og starfsmanna ríkisins

*Frsm. (Magnús Jónsson) :

Ég vil aðeins segja hér örfá orð að þessu sinni. Mér fannst ég geta ráðið það af ræðu, hv. þm. Vestm., að ég væri mótfallinn orðinn hv. 1. landsk. — En það er ég alls ekki, heldur þvert á móti. Ég er í fyllsta máta samþykkur, að öllum starfsmönnum ríkisins, jafnt lausum sem föstum, verði greidd full uppbót. — Ég dró aðeins fram þá örðugleika, sem eru á því, að finna hér mörkin. Og vil ég hér nefna nokkur dæmi þess. Frá því að vera ráðinn til að fylgja gestum austur í sveitir eða þýða skjal og allt upp í að vera ráðinn til viku eða mánaðar, finnst mér engin ákveðin mörk vera. Það mun vera erfitt að ákveða, hvort slíkir menn geti talizt undir l. um verðlagsuppbótina.

En mér finnst bæði sjálfsagt og eðlilegt, að þessum mönnum verði greitt á sama hátt og öllum öðrum, er nú vinna verk hér á þessu landi. Og ég vona, að menn sjái sóma sinn í að greiða verðlagsuppbót, hvort það heyrir undir l. eða ekki.