18.04.1941
Neðri deild: 38. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í C-deild Alþingistíðinda. (3214)

104. mál, hæstiréttur

*Garðar Þorsteinsson:

Máli svipuðu þessu hefur skotið upp hér á undanförnum þingum, og eins og vænta mátti, hefur það ekki náð samþykki.

Hv. fyrsti flm. byrjaði ræðu sína á því að segja, að hér væri um lítils háttar breyt. að ræða. Þetta er alger misskilningur. Ég álít, að hér sé um mjög mikla breyt. á l. að ræða. Það er meira að segja grundvallarbreyt. frá því, sem nú er talið bezt eða hefur verið talið bezt til að byggja hér upp það réttaröryggi, sem sérstaklega á að fást með úrslitum mála fyrir hæstarétti, og það er sem sé að gera strangari kröfur til þeirra, sem flytja mál fyrir rétti.

Ég veit það, að þessi hv. þm. og aðrir hv. þdm. muna eftir því, að á seinni árum hafa oft og tíðum verið gerðar allharðar árásir á dómstólana og stundum þá ekki síður á hæstarétt. Það hefur verið talað um öryggisleysi fyrir þá menn, sem eiga að fá lausn sinna mála endanlega dæmda af hæstarétti. Þær ádeilur hafa venjulega stöðvazt á dómnum sjálfum. Ég hygg, að þeir menn, sem þekkja til þess, hvernig úrslit mála eru fengin fyrir hæstarétti, geri sér það vel ljóst, að það eru málflutningsmenn, sem flytja málin frá báðum hliðum, sem eiga ekki hvað minnstan þátt í því, hvernig úrslit mála verða. Ég veit ekki, hvort þessi hv. þm. veit það, að ef málflytjendur fyrir hæstarétti verða sammála um eitthvert atriði, jafnvel skilning á atriði, þá tekur hæstaréttardómarinn það til greina og skoðar það bindandi fyrir báða aðila. Einnig get ég bent hv. þm. og dm. á það, að það er ekki ósjaldan, að málflytjendur hafi komið sér saman um málsatriði, sem sýndi sig síðar, að ekki voru rétt, og hefði verið hægt að upplýsa.

Og það er ekki dómaranna sök, þótt svo vilji til, heldur málflytjendanna sjálfra. Það er ekki lítilsvert atriði að gera allstrangar kröfur til hæfni þeirra manna, sem flytja eiga mál fyrir hæstarétti.

Hv. þm. talaði um það réttilega, að það væru tvær breyt., sem átti hér að gera á l. Önnur er sú, að ekki skuli krefjast 1. einkunnar við lagapróf, en hin er sú, að lögfræðingar geti öðlazt réttindi til þess að flytja mál fyrir hæstarétti án þess að flytja prófmál.

Nú er það vitanlega nokkurt matsatriði, hvaða einkunn eigi að skera úr um það, hvort ætla megi, að maðurinn sé hæfur eða ekki að flytja mál fyrir hæstarétti, eða hvort eigi að krefjast skilyrðislaust 1. einkunnar, þótt undantekning geti verið frá því, að 1. einkunnar menn séu hæfari en þeir, sem hafa hana ekki. En reglan mun vera sú, að þeir menn, sem koma með 1. einkunn frá lagaprófi, séu yfirleitt hæfari til málflutnings heldur en hinir. Þó má það vel vera, að 2. einkunnar maður geti verið eins hæfur að flytja mál í ýmsum tilfellum. En það er annað mál, þegar menn eiga að fara að gera það að ævistarfi sínu að flytja mál og þekkja þau júridisku og teóretisku atriði, sem hafa áhrif á úrskurð dóma. Menn verða að kynna sér ýmislegt um dóma erlendis í slíkum málum. Og ég hygg, að sá, sem hefur tekið gott próf, hafi betri aðstöðu til þess að greina á milli hinna teóretisku atriða og gera þau að lifandi rökum í sínum málflutningi. Auk þess er það aðhald fyrir unga menn, sem koma í háskólann, að þurfa að taka 1. einkunn til þess að fá vissar stöður. Ég þekki ákaflega marga unga menn, sem spursmálslaust mundu ná lagaprófi frá lagadeildinni án þess að leggja að sér við lesturinn, en sem hins vegar leggja mikið að sér, beinlínis með það fyrir augum að fá 1. einkunn. Og ég hygg, að það sé frá ýmsum hliðum skoðað miklu heppilegra, að hjá ungum mönnum vaki einhver sá áhugi, sem kemur þeim að liði síðar í lífinu og heldur þeim frá ýmsu öðru, sem er ekki eins gott. Það þarf ekki að segja hv. þm. það, að 17 til 19 ára gamlir menn séu orðnir það þroskaðir, að þeir endilega stunduðu námið vel, ef þeir ekki telja það beinlínis nauðsynlegt.

Það hefur oft heyrzt, að það skipti ekki svo miklu máli, hvort menn nái háu eða lágu stúdentsprófi, —. þeir eigi allir að fá sömu réttindi. Það er ákaflega mannlegt að vilja komast sem léttast út af hlutunum. Frá þessu sjónarmiði séð álít ég, að löggjafarvaldið eigi ekki að leysa hina ungu menn frá þeirri sjálfsögðu Skyldu gagnvart sjálfum sér að stunda nám sitt vel. Hinu ber svo ekki að neita, að það sker ekki skilyrðislaust úr, að menn hafi 1. einkunn, þar getur annað komið til greina. En einhverjar reglur verðum við að hafa í þessu efni, og önnur lína liggur ekki nær, að dregin sé í þessu efni. Ég vil benda hv. þm. á það, að þeir menn, sem um þetta mál hafa verið spurðir og eiga að hafa á þessu nokkurt vit, sem sé hæstaréttardómararnir og prófessorar við lagadeild háskólans, hafa ákveðið mælt á móti því, að stúdentar væru leystir undan þessu ákvæði til þess að öðlast réttindi til málflutnings fyrir hæstarétti. En það er í háskólal. heimild til að falla frá þessu atriði, ef lagadeild háskólans mælir með því, að lögfræðingur, sem ekki hefur 1. einkunn, fái að taka próf með flutningi mála fyrir hæstarétti. En hann þarf að hafa sýnt einhverja sérstaka lagaþekkingu, t. d. að hafa skrifað einhverja fræðiritgerð.

Og ég er sannfærður um það, að réttarfarsöryggi almennings er miklu betur borgið, ef gerðar eru miklar kröfur til málflm.

Að því er snertir dómara, er það vitað mál, að í þau störf eru ekki settir nema sérstaklega hæfir lögfræðingar, menn með gott próf eða menn, sem sýnt hafa einhverja sérstaka lagakunnáttu. Um hitt atriðið, að menn þurfi ekki að taka próf til þess að öðlast þennan rétt, þá er mér ómögulegt að sjá, hvaða rök eru fyrir því, sem hv. þm. sagði í öðru orðinu, að reynslan hefði sýnt, að 2. einkunnar maður geti verið jafngóður málflm., og svo segir hann í hinu orðinu, að þessir menn þurfi ekki að taka próf fyrir hæstarétti. En hvers vegna má hann þá ekki sýna með flutningi fjögurra mála, að hann sé til þess hæfur?

Ég held, að fyrir 2–3 árum hafi þessi sami hv. þm. samþ. hér í hv. þd. ákvæði um það, að enginn lögfræðingur mætti flytja mál sjálfstætt fyrir undirrétti án þess að taka próf. Það er ekki hægt að flytja mál fyrir héraðsdómi, nema fjögur mál hafi verið flutt af þeim manni og þau dæmd. Hvaða ástæða er til þess að krefjast þess af héraðsdómsmálaflm., en ekki hæstaréttarmálaflm.?

Þá fæ ég ekki séð, að nein ástæða sé til þess að vera að gera þær kröfur, að þessir kandidatar eigi að komast sem allra léttast út af þessu, að þeir hvorki þurfi að leggja á sig við námið né heldur taka próf í starfinu. Það er ekki hægt að verða múrari, mublusmiður eða trésmiður án þess að hafa tekið próf og sýnt smíði á einhverjum grip.

Þessi hv. þm. veit vel, að það getur verið sitt hvað, það teóretiska. eftir því sem fræðimenn skrifa niður á pappírinn, skilningur á einhverjum paragraph. eða breyta þessum greinum þannig, að þeir geti flutt mál og sýnt fram á, eftir hvaða greinum eigi að dæma o. s. frv.

Einn iðnnemi getur verið í 5 ár við sína iðn, en þarf samt sem áður að taka próf til þess að öðlast réttindi.

Ég held a. m. k., að þeir menn, sem telja nú heldur óheppilegt, að það sé ekki réttaröryggi til í landinu, eigi þá fyrst og fremst að gera kröfu um það, að málflytjendur og dómarar séu virkilega hæfir menn í sínu fagi. Undantekningarnar sanna ekki neitt í þessu efni. Það verður að draga einhverjar þær línur, sem hægt er að fara eftir, og ég held, að ekki sé hægt að fara eftir öðru frekar heldur en þessu tvennu. Maður, sem hefur sýnt við nám, að hann hafi stundað það vel, mun síðar, þegar út í lífið er komið, kunna að nota þá bóklegu þekkingu.