04.06.1941
Neðri deild: 70. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í C-deild Alþingistíðinda. (3224)

104. mál, hæstiréttur

*Frsm. meiri hl. (Jóhann G. Möller) :

Það er ástæðulaust að fara mörgum orðum um þetta mál, því að það var talsvert rætt við 1. umr.

Allshn. gat ekki orðið sammála um frv. Ekki hefur verið gefið út nema eitt nál. Einn nm. var á móti frv., en hefur ekki skilað áliti. Hinn hluti n. var sammála um verulega hluta málsins. Meiri hl. n. mælir með frv. til samþykktar. Tveir af þessum sama meiri hl., hv. þm. Barð. (BJ) og hv.. þm. N.-Ísf. (VJ), hafa óbundnar hendur og hafa síðan gefið út sérstaka brtt. um þetta, þar sem þeir leggja til, að prófskilyrðum sé haldið eins og þau eru nú í l. Meiri hl. u. leggur til brtt. við 7. lið 1. gr. frv., þar sem segir: „hefur gegnt lögfræðistörfum í 5 ár samtals að afloknu lagaprófi,“ komi inni orðin „að aðalatvinnu.“ Er það gert til þess að hindra, að þeir, sem hafa náð lögfræðiprófi, geti öðlazt þessi réttindi á þann hátt að hafa lögfræðistörf með höndum aðeins á yfirborðinu, en stunda þau ekki sem neina aðalgrein. Virtist n. fyllilega rétt að girða fyrir þetta með því að skjóta inn þessu orði. Ég harma mjög, að n. var ekki sammála um að leggja til, að þetta skilyrði yrði fellt niður algerlega, sérstaklega vegna þess að ég hygg, að grundvöllur hafi verið fyrir því í n., eða a. m. k. að leggja til, að prófskilyrðum yrði talsvert breytt, að menn ættu hægari aðgang að ganga undir þetta próf en nú á sér stað, og jafnvel hvenær sem þeir að öðru leyti hafa öðlazt réttindi til þess. Ég býst við, að flm. brtt. á þskj. 592 hafi ekki séð sér fært að flytja brtt. um prófskilyrði frá þessu sjónarmiði, vegna þess að svo áliðið er þings og að þeir telji; að slíkt hefði þurft að undirbúa meir en nú er kostur á þessu þingi. En vitanlega gera þeir grein fyrir sinni skoðun í þessu efni. Ég tel þó rétt að láta það koma fram í minni ræðu, að enda þótt frá þessum þm. komi fram till. um að halda prófskilyrðum óbreyttum, hygg ég, að ekki beri að skoða slíkt á þá lund, að þeir séu alls kostar ánægðir með fyrirkomulag prófanna og með prófskilyrðið eins og það er nú í l., heldur að þeir vildu gjarnan breyta því.

Ég sé ekki ástæðu að fjölyrða frekar um þetta mál, ef ekki gefst sérstakt tilefni. Í mínum augum er það ekkert annað en réttlætismál, sem frv. fer fram á. Því að eins og hæstv. forsrh. sagði hér við 1. umr. þessa máls, eru ákvæðin, sem hér er farið fram á að breyta, að verulegu leyti úrelt. Og ég vil þess vegna vænta þess fastlega, að hv. þd. sjái sér fært að ganga inn á frv. og afgr. það á þessu þingi.