28.05.1941
Neðri deild: 69. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í C-deild Alþingistíðinda. (3226)

104. mál, hæstiréttur

*Garðar Þorsteinsson:

Ég vil aðeins upplýsa virðulega deild um það, að þetta mál hefur verið sent — að vísu ekki nú í þetta sinn, af því að því fékkst ekki framgengt í allshn. — til umsagnar þeirra aðila, sem ættu a. m. k. að vita eins vel og kannske betur heldur en þm. almennt um það, hvað væri heppilegast og bezt fyrir þjóðina í heild til þess að fá sem réttlátust endalok sinna mála fyrir hæstarétti. Þessir aðilar eru hæstiréttur og lagadeild háskólans. Þessi umsögn hefur verið prentuð sem þskj., þegar málið lá fyrir í svipuðu formi. Hæstiréttur og lagadeildin leggja ákveðið á móti því, að fellt sé niður ákvæðið um fyrstu einkunn, og einnig, að slakað sé á prófskilyrðum fyrir réttinum. Ég sé ekki, hvers vegna ætti að væna þessa aðila um það að gefa ekki rétt álit um þetta. Þeir hafa báðir reynsluna, hvor á sínu sviði. Að því er snertir fyrstu einkunn skal ég játa, að það er ekki aðalatriði upp á það, að hæfir menn kunna að finnast til málflutnings; þótt ekki hafi náð þeirri einkunn. En almennt er litið svo á af löggjafarvaldinu og öðrum, að þeir, sem hafa náð góðri einkunn, eigi að ganga fyrir hinum. Ég veit ekki betur en að það sé föst regla að veita að öðru jöfnu þeim embætti, sem hafa fyrstu einkunn. Ég vil benda á reglugerð, sem sett er 1936 um framhaldsnám kandídata í læknisfræði. Til þess að geta öðlazt ótakmarkað lækningaleyfi og mega kalla sig sérfræðing í einhverri grein er sett að skilyrði, að viðkomandi læknir hafi fengið fyrstu einkunn í faginu, með þeirri undantekningu, að hann hafi skrifað doktorsritgerð, sem þarfnast sérstakrar þekkingar á þessu fagi. Alveg sama er í hæstaréttarl. Ef lögfræðingur með aðra einkunn hefur með ritgerð sýnt fram á, að hann sé í sinni grein mjög fær maður, þá getur hann fengið með leyfi lagadeildar rétt til að verða hrm., — eins og leyfi læknadeildar þarf, ef kandídatinn hefur ekki fyrstu einkunn í læknisfræði. Það sem sé gengur eins og rauður þráður gegnum löggjöfina og „praksis“, að þeir, sem hafa náð góðri einkunn, gangi yfirleitt fyrir til slíkra réttinda. Að því alveg slepptu, þá vita allir, að það er aðhald fyrir ungan mann í lagadeild að þurfa að fá fyrstu einkunn til þess að ná þessum réttindum. Því að ég hygg, að enginn hér inni, ekki heldur frsm. meiri hl., vilji véfengja, að æskilegast sé, að allir kandídatar hafi lesið sem bezt og hafi sem bezta þekkingu í sinni grein. Og hvers vegna þá að draga úr því, að þessir menn fái það mörg stig, að þeir nái fyrstu einkunn? Ég hygg það sé engin vorkunn meðalgreindum manni að ná fyrstu einkunn, ef hann stundar nám sitt sæmilega. Ef greindur maður fær ekki fyrstu einkunn í lagadeild, þá er það vegna þess, að hann stundar ekki sitt nám. Hvers vegna á hann, sem er hyskinn og latur, að fá skilyrðislaust sömu réttindi og hinir? Hvers vegna? Það eru ekki settar neinar sanngjarnar kröfur gegn þessum unga manni. Það er sagt: Þú hefur akademiskt frelsi, en ef þú ekki stundar nám þitt, þá færð þú ekki þessi réttindi. — Og það er sannarlega þjóðfélaginu í heild fyrir beztu og einstaklingunum, sem verða síðar að leggja mál sitt í hendur þessara manna, að þeir hafi stundað nám sitt vel. Ég sé enga skynsamlega ástæðu til þess að fella burt þetta skilyrði, þó að ég neiti ekki, að það er ekki neinn „absolut“ mælikvarði á hæfni manna, — það kunna að vera fáar undantekningar. En það verður ekkert séð, sem réttlæti það að fella þetta burt skilyrðislaust.

Það er dálítið einkennilegt, að á sama tíma sem liggur fyrir frv. um háskólann, þar sem háskólaráði er leyft að neita um inntöku vegna þrengsla, þá á að fella niður skilyrðið um það, að menn útskrifist með sæmilegri einkunn. Það á að takmarka inntökuna, t. d. í lagadeild, en ef menn eru innritaðir á annað borð, þá má moka þeim inn í hæstarétt, hvaða einkunn sem þeir hafa fengið. Þetta er reginhugsanavilla. Hitt er miklu betra, að leyfa stúdentum alveg frjálsan aðgang að öllum deildum háskólans, en að stúdentar viti fyrirfram, að þeir þurfi að leggja að sér, og ef þeir ekki geri það, fái þeir ekki þessi réttindi. Ég veit, að innan háskólans er álitið, að læknisfræði sé mun erfiðari grein en lögfræði, og það eru a. m. k. fleiri dæmi þess, að stúdentar hafa fallið við læknispróf en lagapróf. En samt sem áður eru þau ákvæði sett að því er lækna snertir, að þeir megi ekki teljast sérfræðingar í sinni fræðigrein nema þeir hafi fengið fyrstu einkunn. Og þó er vitað, að þessir sömu menn þurfa að hafa siglt til erlendra háskóla og stundað sitt sérfræðinám svo og svo lengi. En jafnvel próf eða vottorð erlendis frá er ekki nóg, heldur er upphaflega prófkrafan látin gilda aftur fyrir sig, — þeir verða að sanna, að þeir hafi fengið fyrstu einkunn héðan úr háskólanum. Ef núverandi skilyrði eru hörð gagnvart lögfræðingum, þá eru þau það engu síður gagnvart læknum, og enginn virðist þó kveinka sér.

Mér er kunnugt, að prófessor Einar Arnórsson hefur ekki dregið neina dul á, að „standarður“ fyrir málflm. fyrir hæstarétti mundi lækka, ef dyrnar eru opnaðar á þennan hátt. En hv. frsm. sagði, að ákvæði þetta væri úrelt. Er það almennt talið úrelt að heimta einhverja sérstaka þekkingu til þess að ná einhverjum sér stökum réttindum? Ég verð að segja: Er nokkur ástæða til að heimta svo og svo mikið nám í svo og svo mörgum bókum við lagadeild, ef það skiptir engu máli, hvort stúdentar kunna nokkurn skapaðan hlut í sinni grein eða ekki? Einu sinni hneyksluðust nokkrir hér við mín ummæli, að ég þekkti ekki svo lítið gefinn stúdent, að hann gæti ekki náð lagaprófi. Ég þekki marga svo lítið gefna menn, að þeir geta hvorki náð stúdentsprófi né lagaprófi. En ég staðhæfi enn, að sá, sem hefur náð stúdentsprófi, getur náð lagaprófi og þá fyrstu einkunn, ef hann er sæmilega greindur.

Að því er hitt atriðið snertir, að menn verði að sýna með flutningi fjögurra mála, að þeir séu hæfir til starfsins, þá legg ég miklu meira upp úr því, og mun ég því að sjálfsögðu greiða till. hv. þm. Barð. og hv. þm. N.-Ísf. atkv. mitt. Og ég skal játa, að ég hreint og beint skil ekki hugsanagang þeirra manna, sem vilja sleppa kandídötum frá prófborðinu með hvað lélega einkunn sem er og til hæstaréttar, án þess að taka próf. Þessir menn hugsa ekki mikið fram í tímann.

Ég get gjarnan bætt því við, að það er ein lítil saga í þessar í grg. frv. um málflutningsmenn, en sú saga er ósönn og eintóm blekking. Og ég verð að segja, að ég mundi hika við að telja þá menn hæfa til að koma nærri hæstarétti, sem þannig skýra frá staðreyndum.

Að endingu vil ég benda hv. þm. á að athuga, hvað hefur átt sér stað annars staðar, þó að lítil brögð hafi enn að verið hér, þar sem allt of margir menn hafa fengizt við málfærslu. Þeim er öllum trúað fyrir háum fjárhæðum af almannafé, tugum og hundruðum þúsunda. Ef þessir menn hafa lítið að gera, en kannske mikið á framfæri sínu, þá mun sú reynsla verða hér sem í öðrum löndum: þeim hættir til að grípa til þess fjár, sem þeir ekki eiga, af því að atvinnugreinin veitir ekki þá afkomu, sem þeir þurfa. Ef fjöldi manna úr lagadeild fer út í það að stunda lögfræðistörf í Reykjavík og öðrum kaupstöðum í þeirri von að geta eftir 5 ár fengið málflutning í hæstarétti, þá mun það sýna sig, að innan skamms munu ýmsir ungir menn hafa farið aðra leið en upp á efri hæðina á Skólavörðustíg 9, — þeir lenda í kjallaranum! Eins og það hefur komið fyrir fjölda manna erlendis að taka annarra manna fé óleyfilega á þennan hátt, þá mun það sýna sig, að menn eru líka breyzkir hér, í þeirri veiku von, að þeir geti bjargað sér úr þessu eftir 5 ár. Af öllum þeim ástæðum, sem ég hef fært fram, legg ég til, að frv. verði fellt, en mun að sjálfsögðu greiða atkv. með till. hv. þm. Barð. og hv. þm. N.-Ísf.