28.05.1941
Neðri deild: 69. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í C-deild Alþingistíðinda. (3228)

104. mál, hæstiréttur

*Garðar Þorsteinsson:

Ég ætla mér ekki að fara að karpa um þetta mál, en ég verð að segja, að það er í fullu samræmi við grg. frv., þegar slíkur málflutningur á sér stað sem hv. frsm. meiri hl. viðhafði.

Hv. þm. véfengir, að lagadeild háskólans sé á móti þessu frv. Hvers vegna beitti hv. þm. sér þá gegn því, að málið yrði sent lagadeildinni til umsagnar? Ég er sannfærður um, að álít lagadeildar yrði það sama og áður. Ég fæ ekki séð, að það sé neitt við það að athuga, þótt hæstiréttur dæmi sjálfur um prófin. Það er t. d. siður í Danmörku, að hæstiréttur ákveður prófmál. Hér er það svo fyrir undirrétti, að það er dómarinn sjálfur, sem dæmir um prófin. Gegnir ekki sama máli að því er hæstarétt snertir?

Hv. þm. sagði, að það væri öryggisleysi, ef takmarkaður væri aðgangur málflm. að hæstarétti, og segir, að hér sé verið að halda sjálfsögðum rétti, sem aðrir eigi. Þetta er ekki rétt. Réttur inn stendur hverjum manni opinn, ef hann hefur sýnt þá kunnáttu við próf og flutning mála, að hann geti talizt hæfur til þess að hafa málflutning fyrir hæstarétti á hendi.

Þá talaði hv. þm. um málflutningsmannastéttina sem klíku. Þessi klíka er nú ekki verri en svo, að hv. þm. innritaðist eitt sinn í lagadeild og hefur þannig ætlað sér að komast í þá klíku.

Málum almennings tel ég vel borgið í höndum manna eins og Jóns Ásbjörnssonar og Péturs Magnússonar, eða álítur hv. þm., að réttarörygginu sé stefnt í voða, þótt almenningur þyrfti að leita til þessara tveggja manna um málflutning? Ég nenni ekki að ræða um það við hv. þm., hvort ekki sé meiri trygging fyrir almenning að fá þeim mönnum mál í hendur, sem hafa lokið góðu lagaprófi, hafa gott málflutningsmannapróf og mikla reynslu, eða manni, sem hefur lélegt lagapróf, ekkert próf fyrir hæstarétti og enga reynslu. Og mundi ekki hv. þm. heldur kjósa reyndan málflm. en ungan mann og óreyndan, ef honum stæði á miklu um úrslit máls?

Ég er ekki í vafa um, að hann mundi yfirleitt gera það. Ég er ekki með þessu að segja, að ekki séu líka efnilegir menn meðal hinna yngri lögfræðinga.

Hv. þm. virtist hneykslaður á því, að ég sagði, að með afnámi þessara skilyrða væri stefnt að því að gera lögfræðingastéttina að próletörum. Hann veit þó, að þetta er satt. — Ungir menn álíta, að það að ná prófi fyrir hæstarétti sé einhver gullnáma, en þeir gæta þess ekki, að leiðin er nokkuð löng og erfið, og þegar að hæstarétti væri kominn fjöldi manna, yrðu tekjurnar litlar. Þess eru dæmi, að menn hafa sagt við skjólstæðinga sína: Farðu bara í mál, — þótt fyrir fram væri vitað, að það væri tapað. Þannig fær lögfræðingurinn atvinnu á meðan, en þetta er ekki heiðarlegur málflutningur. Þegar öllum væri opin leið að hæstarétti og hér væri stór hópur lögfræðinga, sem enga von hefðu til þess að geta lifað á atvinnu sinni, væri hætta á, að menn leiddust til slíks málflutnings.

Hv. þm. sagði, að sér þætti vænt um að heyra, að ég vildi vísa þessu máli til háskólans, alveg eins og ég hafi eitthvað á móti honum. Það er síður en svo, að ég sé á móti háskólanum, þótt ég sé á móti ýmsu, sem þar er gert. En þar sem hv. þm. vitnaði í ummæli mín viðvíkjandi viðskiptaháskólanum, vil ég benda á, að ég sagði aðeins, að ég teldi ekki absolut skilyrði, að þeir menn hefðu stúdentspróf, sem innrituðust í viðskiptaháskólann, ef þeir hefðu þá þekkingu og þann þroska til að bera, sem nauðsynlegur væri til þess að geta stundað þar nám.