21.04.1941
Neðri deild: 41. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í C-deild Alþingistíðinda. (3232)

107. mál, iðnlánasjóðsgjald

Skúli Guðmundsson:

Ég hafði gert ráð fyrir, að það yrði eitthvað um þetta mál talað þegar við 1. umr. — og þá líka um frv. um iðnlánasjóð, sem var næst á undan þessu á dagskránni, — af hálfu n., sem flytur þessi mál, því að hér er hreint ekki um smámál að ræða. Í því frv., sem hér liggur fyrir, er bent á leiðir til að afla iðnlánasjóði tekna, bæði með því að leggja gjald á innfluttar vörur og sömuleiðis á þann hátt að leggja ákveðið gjald á ári á iðnaðar- og iðjufyrirtæki í landinu, sem miðað sé við þá launaupphæð, sem fyrirtæki greiða starfsliði sínu. Segir í frv., að gjaldið skuli nema ¼% af öllum greiddum launum við fyrirtækið.

Hér er um nýmæli að ræða, og vil ég því vekja athygli á þessu ákvæði. Mætti vænta, að iðnn. gerði grein fyrir, á hverju hún byggir þessa till.

Í grg. frv. næsta á undan þessu á dagskránni, frv. um iðnlánasjóð, er skýrsla um það, til hvaða iðngreina iðnlánasjóður hafi veitt lán síðan árið 1936, að hann tók til starfa. Hann hefur samtals veitt lán, er nema h. u. b. 138 þús. kr. Þar af eru um 2/3 hlutar til fyrirtækja í Reykjavík, kr. 20300 til fyrirtækja á Akureyri, og smærri upphæðir til nokkurra annarra staða.

Ég hef sérstaklega veitt því eftirtekt, að sumar þær iðngreinir, sem teljast mega einna þýðingarmestar fyrir þjóðfélagið, þ. e. a. s. þar sem unnið er nær eingöngu úr íslenzkum hráefnum, hafa ekki notið lána úr sjóðnum. T. d. hefur ekkert verið veitt til ullariðnaðar. Hins vegar er gert ráð fyrir því í frv. um iðnlánasjóðsgjald, að öll iðnaðar- og iðjufyrirtæki skuli greiða ákveðið gjald til sjóðsins.

Ég vil sér staklega beina því til iðnn., ef hún athugar mál þetta betur fyrir 2. umr., hvort ekki er ástæða til að undanþiggja þau iðnfyrirtæki gjaldinu, sem vinna eingöngu úr íslenzkum hráefnum og hafa ekki notið stuðnings úr sjóðnum. Það er sjálfsagt að gera allt, sem hægt er, til þess að styrkja iðnaðinn. Margt af honum er gott og gagnlegt. En einkum ber að efla þann iðnað, sem byggður er á notkun innlendra hráefna.