21.04.1941
Neðri deild: 41. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í C-deild Alþingistíðinda. (3243)

111. mál, Ísafjarðardjúpsbátur

Frsm. (Vilmundur Jónsson) :

Eins og kunnugt er, fara allar samgöngur milli byggða á Vestfjörðum fram á sjó. Landsamgöngur koma þar lítið til greina eða jafnvel alls ekki, og má búast við, að svo verði enn um langa framtíð.

Undanfarin ár hafa samgöngur þessar verið í höndum hlutafélags, með lítils háttar styrk frá ríkinu. Styrkur þessi hefur alltaf verið ónógur. Nú er svo, að félagið á engan bát, og hafa leigu- bátar verið notaðir til þessara ferða. Þessir bátar eru margir mjög óheppilegir, og vegna örðugs fjárhags og ýmiss konar óhappa, er rekstur þessara samgangna nú orðinn alveg óviðunandi. Mönnum fyrir vestan þykir því í allmikið óefni komið, og hafa nefndarmenn þar nýlega haldið fund til að ræða þetta mál. Á fundi þessum voru sýslunefndarmenn, oddvitar, hreppstjórar og hreppsnefndarmenn, auk fulltrúa frá bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar. — Á fundinum var kosin nefnd, og eiga eftirtaldir menn sæti í henni:

Einar Guðfinnsson, kaupm., Bolungavík. Aðalsteinn Eiríksson, skólastj., Reykjarnesi. Páll Pálsson, hreppstj., Þúfum. Bjarni Sigurðsson, hreppstj., Vigur. Hannibal Valdimarsson, skólastj., Ísafirði. Ketill Guðmundsson, kaupfélagsstj., Ísafirði, og séra Jónm. Halldórsson, Stað. Þessir menn hafa komið hreyfingu á málið og leitað fyrir sér um fjársöfnun heima í héraði. Enn fremur hafa þeir leitað til Alþ. um hjálp til að kaupa hentugan bát til ferða um Djúpið.

Í greinargerð fyrir þeim tilmælum segir: „Vegna mjög örðugs fjárhags og óhappa, er rekstur þessa báts (þ. e. Djúpbátsins) orðinn með þeim hætti, að alls óviðunandi er. T. d. er nú í ár notaður stór og mjög óhentugur gufubátur, sem er svo dýr í rekstri, að honum er haldið út til Reykjavíkurferða, en í Djúpferðirnar eru hafðir smábátar, sem tæplega komast leiðar sinnar, ef nokkuð er að veðri. Það er ekki óalgengt, að menn úr dölum og innfjörðum bíði heila daga og jafnvel nætur á viðkomustöðum — með afurðir sínar — eftir væntanlegum farkosti.

Okkur héraðsmönnum er ljóst, að samgöngur þessar eru með þeim hætti nú, að af þeim stafar ómetanlegt tjón fyrir einstaklingana, að sáralitlar líkur eru til, að úr þeim verði bætt með áframhaldandi leigubátum, þar sem jafnvel er óvíst, að nokkur bátur fáist. Okkur er einnig ljóst, að vegna örðugra aðstæðna og óhappa, getur félagið „H/f Vestfjarðabáturinn“, stjórn þess og forstjóri, ekki leyst þetta mál, né sem slíkir unnið að lausn þess.“ — Síðan segja þeir frá fundinum og bæta við : „Framleiðsluhættir, einkum við Ísafjarðardjúp, hafa á undanförnum árum breytzt í það horf, að þörf er á tíðum samgöngum við Ísafjarðarkaupstað. Héruð þau, sem hafa sambærilega framleiðslu og samgönguþörf við markaðsstað sinn, hafa nú flest eða. öll fengið sínar samgöngur kostaðar og viðhaldið af ríkinu. Má þar til nefna Eyjafjarðarbyggðir, Skagafjörð, Borgarfjarðarundirlendi, byggðirnar vestan heiða, og Suðurlandsundirlendið. Þar sem það er útilokað, að samgöngumál Ísafjarðarbyggða verði leyst með landvegum, virðist eigi að síður sanngjarnt, að ríkið láti þessi samgöngumál til sín taka, hliðstætt og í öðrum héruðum. Í stað vegalagninga þurfum við hæfilega stóran, hraðskreiðan og þar til gerðan bát, í stað viðhalds vega nokkurn árlegan styrk til rekstursins.

Við höfum leitað álits hr. forstj. Pálma Loftssonar. Hefur hann mál þetta til athugunar. Stærð báts þessa þyrfti að vera 45–55 smálestir. Verð hans yrði, að álíti fróðra manna, varla innan við 200 þús. kr.

Við væntum þess fastlega, að hv. Alþ. leysi mál þetta skörulega. — Þetta er sameiginlegt hagsmunamál framleiðenda við Djúpið og neytenda í Ísafjarðarkaupstað. Það er að okkar dómi óumdeilanlegt réttlætismál, sem þolir enga bið“.

Þannig farast Ísfirðingum orð um þetta mál. Út frá þessu sjónarmiði er farið fram á, að ríkið leggi fram til að koma upp bát allt að 200 þús. kr. í tvennu lagi. Varla mundi það þó nægja fyrir bát, en það er búizt við, að eitthvað fé safnist í héraði. Í raun og veru er þó ekki hægt að búast við miklum fjárframlögum, því að þær byggðir, er mest þurfa samgangnanna við, eru afskekktastar og eiga minnst undir sér. Hinar fjölmennari sveitir eiga hægara með að bjarga sér. Erindi þetta lá fyrir fjvn., sem gerði ekkert í málinu, en vísaði því til samgmn. beggja deildanna.

Samkomulag hefur náðst í samgmn. beggja deilda um að brýn nauðsyn sé á, að ríkið styrki þetta málefni eftir föngum, og kom n. saman um að flytja málið í því formi, sem það er á þskj. 196. Í rauninni er það í sama formi og löggjöfin um Borgarfjarðarbátinn hér á árunum. Skoðun mín er, að nái frv. þetta fram að ganga, mundi það endast til þess, að eitthvað verulegt yrði hægt að gera í málinu.

Ég hef rætt við form. Djúpbátsn., og hann telur að vísu, að ekki megi tæpara standa um fjárhaginn að fenginni slíkri aðstoð ríkisins, en hyggur þó, að nokkurs megi vænta af samskotum í héraði á móti framlagi ríkissjóðs. Ég vil svo að lokum mega vænta þess af hv. d., að hún taki á málinu með þeirri velvild og sanngirni, sem það verðskuldar.