21.04.1941
Neðri deild: 41. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í C-deild Alþingistíðinda. (3245)

111. mál, Ísafjarðardjúpsbátur

*Bjarni Ásgeirsson:

Ég vil aðeins nota tækifærið til þess að mæla með þessu máli. Þó að ég sé ekki kunnugur á Vestfjörðum, þá er ég samt kunnugur þeim samgöngum, sem þarna eru til staðar. Ég tel rétt að undirstrika það, sem tekið hefur verið fram af hv. frsm. og hv. 5. þm. Reykv., að það verður að taka þetta mál með alveg sérstökum skilningi, vegna þess, eins og þeir hafa sagt, að samgöngum er þannig háttað víða á Vestfjörðum, að þær verða að fara allar fram á sjó. Nú eru búskaparhættir þannig í kringum Djúpið, að á síðari árum hafa menn mjög stundað mjólkurframleiðslu, sem útheimtir ábyggilegar og öruggar samgöngur milli fjarða í Djúpinu, og þar má enginn dagur úr falla. Nú hefur félag það, sem annast þessar samgöngur, orðið að fá leigðan fiskibát á ýmsum tímum árs. Það hefur gengið sæmilega, en þó hefur ekki verið sá myndarskapur á þessum farkosti, sem þurft hefði að vera. En þar sem nú er arðvænlegra en áður hefur verið, og verður það vonandi áfram, að reka fiskibáta, þá er nú örðugra en áður að fá sæmilegan farkost til flutninga. Getur því verið, að menn verði að sætta sig við allsendis ónógan farkost.

Aðalástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var það, sem hv. 5. þm. Reykv. kom síðast inn á. Ég er hræddur um, eins og hann, að í þessu frv. sé heldur smátt af stað farið með stærð bátsins. Það verður að athuga, að þetta skip á að vera í förum allan ársins hring. Það á að halda uppi samgöngum, ekki aðeins um Djúpið, heldur einnig norður fyrir Vestfirði og norður á Hornstrandir, og eins og allir vita, er oft úfinn sjór á þessum leiðum og ekki hættandi út í það mjög smáum skipum. Líkur benda til þess, að ekki verði langt þangað til komið er vegasamband allt frá Reykjavík og vestur að Ísafjarðardjúpi. Að því er stefnt nú og kemst líklega í framkvæmd áður en langt um liður. Má þá búast við, að stórum aukist ferðir um Djúpið af ferðamönnum, og verður þá að sjá þeim fyrir farkosti, þegar að leiðarenda kemur við Djúpið. Mér er sagt, að „Fagranes“ sé um 70 smálestir, og ég get ekki hugsað mér, að leggjandi sé upp með öllu veigaminna skip en „Fagranesið“ er. Og þar sem hér er um skip að ræða, sem vonandi verður til frambúðar, þá er ég hræddur um, að hér sé of smátt af stað farið. Það myndarlega og dugmikla fólk, sem býr á þessum leiðum, á líka sannarlega skilið að fá farkost við sitt hæfi.

Ég legg því áherzlu á, að hv. samgmn. kynni sér betur fyrir síðari umr., hvort ekki verður hægt að auka stærðina upp í 70–80 smálestir.