13.05.1941
Neðri deild: 58. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í C-deild Alþingistíðinda. (3270)

114. mál, ábúðarlög

Pétur Ottesen:

Ég hef, ásamt hv. þm. A.Húnv., borið fram brtt. við 1. gr. frv. og vil strax taka það fram og skjóta til hv. forseta, að í brtt. er prentvilla, að í staðinn fyrir orðin: „og til enda málsliðarins falla burt“ á að vera: og til enda málsgreinarinnar falli burt. — Ég vil biðja hæstv. forseta að taka þetta til athugunar við atkvgr.

Það, sem við viljum fella burt, eru ákvæði, sem sett eru í frv. og eru ný í ábúðarl. og eru um, að eigi megi leigja jörð hærra en sem svari 4% af fasteignamatsverði og önnur ákvæði í samræmi við þetta.

Eins og kunnugt er, þá eru ákvæði í ábúðarl., sem segja, að hver maður, sem eigi jörð, sem hann ekki nytjar, skuli skyldur til að leigja hana ábúanda gegn hóflegu eftirgjaldi, að dómi úttektarmanna. Með öðrum orðum, að réttur jarðeiganda er lagður í hendur óvilhöllum mönnum, sem bera skyn á, hvers virði jörðin sé og hvað sanngjarnt sé að meta eftirgjaldið.

Mér virðist, að með þess, um ákvæðum séu lagðar þær hömlur á það, að jarðarafgjöld séu spennt upp framar því, sem hóflegt geti talizt, og að við þetta megi hlíta. Auk þess er kunnugt, að jarðir eru byggðar samkvæmt aldagamalli venju, sem sé þeirri, að landskuld er greidd í fríðu, en kúgildaleigur í smjöri, og þegar greiðsla þessi er ekki afhent með ám, sauðum eða gemlingum og leigur í smjöri, þá er það algild regla, að verðlagsskrárverð þessara vara sé lagt til grundvallar fyrir greiðslunni. Það verður að telja, að slíkur eftirgjaldsmáti sé eðlilegri og sanngjarnari heldur en að miða við það að greiða eftirgjaldið í peningum. Við flm. þessarar tillögu hefðum því óskað þess, að slík ákvæði yrðu ekki sett í ábúðarl., sem mundu útiloka þennan gamla og góða leigumáta, sem ég tel langsamlega eðlilegastan, þar sem hann er háður gangverði höfuðframleiðsluvara landbúnaðarins. Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta atriði, það er atkvgr., sem hér sker úr um það, hvað ofan á verður.

Hér í 3. gr. frv. þessa eru ákvæði, sem stuðla eiga að því, að jarðir leggist ekki í eyði, eins og nokkuð hefur bólað á í seinni tíð. Á síðasta þingi var samþ. breyt. á ábúðarl., sem ég átti hlut að, í þessa átt, og ég er í vafa um, að þessi breyt. hér sé nokkuð til batnaðar.

Í l. frá 1940 var svo ákveðið, að ef jarðareigandi byggði ekki jörð fyrir 15. marz, þá væri honum skylt, að viðlagðri allt að 3000 kr. sekt til ríkissjóðs, að bjóða sveitarstjórn að ráðstafa ábúð á jörðinni gegn hæfilegu eftirgjaldi, og ef ágreiningur yrði um eftirgjaldið, þá skyldu úttektarmenn meta hæð eftirgjaldsins. En að hver aðili geti þó krafizt yfirmats samkvæmt 53. gr. laganna o. s. frv. Hins vegar ef ákvæðin hér í frv. ná tilgangi sínum, þá er ekkert við þessu að segja. Hér í frv. er aðeins bætt við l. frá 1940 þessu: „Takist ekki að byggja jörðina þannig í tvö ár samfleytt, hefur sveitarstjórn kauparétt á jörðinni, og er heimilt að taka hana eignarnámi, ef samningar nást ekki um kaupin. Vilji sveitarstjórn ekki nota kauparétt sinn og enginn hefur not jarðarinnar, er landsdrottni ekki skylt að greiða af henni opinbera skatta, en önnur lögskil af henni verður farin að inna af höndum.“ Ég ætla mér ekki að gera neina tilraun til þess að setja fótinn fyrir þetta ákvæði, þótt ég hins vegar hafi ekki mikla trú á því, að þau bæti verulega úr skák. Breytingartillaga okkar fer ekkert inn á það svið, heldur snertir hún eingöngu hámarksákvörðun. jarðarafgjaldsins.