20.05.1941
Neðri deild: 63. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í C-deild Alþingistíðinda. (3294)

132. mál, tekjuskattur og eignarskattur af vaxtafé verðbréf og skuldabréfa

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson) :

Hv. þm. A.-Húnv. byrjaði ræðu sína á því að tala um, að sumir menn vildu ekki taka rök til greina. Ég tek það alls ekki til mín, enda hefur hann engin rök fært fram í nál. sínu eða ræðum, sem breyti skoðun minni á þessu máli.

Um það má deila, af því að ekki eru til um það skýrslur, hvað mikið hafi verið dregið undan skatti á undanförnum árum af verðbréfum, en ég vil benda hv. þm. A.-Húnv. á, að úr því fæst einmitt skorið með því að gera frv. að l., hvað hér er um stóra fjárhæð að ræða í verðbréfum, sem hafa ekki komið til framtals að undanförnu, og þá getum við látið allar deilur niður falla að svo komnu.

Hv. þm. talaði um, að hér væri eingöngu vanrækslu skattayfirvaldanna um að kenna, en ég er ekki í vafa um, þó að hann sé skeleggur maður, að ef hann væri í skattan. í Reykjavík, þá mundi vef jast fyrir honum að finna eigendur allra veðdeildarbréfa . og ríkisskuldabréfa og allra verðbréfa, sem gefin eru út til handhafa. Ég efast um, að hann með öllum sínum dugnaði gæti komið því í framkvæmd, án þess að fá einhver lagafyrirmæli, víðtækari en nú eru til, nema hann vilji setja 1., sem bönnuðu að gefa út handhafaskuldabréf, en ég er sannfærður um, að þorri þeirra, sem hér eiga hlut að máli, mundi vilja miklu síður, að bannað væri að gefa út handhafaskuldabréf, heldur en þótt skattur væri tekinn af þeim eins og gert er ráð fyrir í þessu frv.

Hann sagði, að hér væri ekki um nema smáar upphæðir að ræða, en það er vitað, að það eru mjög háar upphæðir í veðskuldabréfum í Rvík, sem hvíla á 2. og 3. veðrétti í húsum. Það er algengt, að þeir, sem byggja hús, fá veðdeildarlán gegn l. veðrétti, og svo fá þeir lán til viðbótar með því að gefa út handhafaskuldabréf, tryggð með 2. og 3. veðrétti. Og meðan ekki eru sett l., sem banna að gefa út slíka pappíra, er ómögulegt að vita, í hverra eigu þessi bréf eru, því að þau ganga kaupum og sölum.

Það er rétt hjá hv. þm. A.-Húnv., eins og ég gat um áðan, að bankarnir hafa lýst sig þessu mótfallna, en hann heldur því fram, að enginn sparisjóðsgjaldkeri mundi vilja taka að sér það, sem á að leggja sparisjóðunum á herðar með þessu frv., og segist furða sig á þeim miklu fjarstæðum, sem ég hafi haldið fram í því sambandi. Í fyrsta lagi veit hann ekkert um þetta, því að hann hefur ekki talað við allar sparisjóðsstjórnir; og er furða, að hann skuli ekki hafa aflað sér þeirra upplýsinga. Í öðru lagi sagði ég aldrei, að það mundi ekki kosta sparisjóðina neina fyrirhöfn, þó að hv. þm. geri allt of. mikið úr henni. Það er alveg vitað, hvernig þessu er hagað hjá sparisjóðunum. Þeir kaupa verðbréfin og lána mönnum út á fasteignir sínar. En eins og menn vita, eru sparisjóðirnir skattfrjálsir, og því yrði ekki borgaður vaxtaskattur af þeim bréfum, sem þeir eiga. Þeir halda áfram að taka vexti og afborganir af þeim veðskuldabréfum, sem þeir eiga, en ef þeir eiga verðbréf, þá þurfa þeir aðeins að gefa skattayfirvöldunum það upp einu sinni á ári, hvað mikið þeir eigi, en þá uppgerð þurfa þeir að láta fara fram hvort sem er, því að annars gætu þeir ekki gert upp sínu eiginn fjárhag. Þetta er því engin aukafyrirhöfn, svo að allt fjas þessa hv. þm. um stóraukinn kostnað og aukafyrirhöfn á hendur sparisjóðunum er firra ein.

Hv. þm. endaði ræðu sína á því að lýsa yfir, að hann gæti ekki fallizt á það, sem ég gat um, að hér væri aðeins um tvennt að ræða, annaðhvort yrði að gera ráðstafanir til þess, að þeir borguðu skattinn, sem ættu að borga hann, eða að undanþiggja þessar eignir skatti, svo að ekki væri verið að níðast á þeim, sem teldu heiðarlega fram, en láta þá sleppa, sem vildu draga undan. Mér er sama, hverju hv. þm. heldur fram um þetta. Ég get aldrei gengið inn á, að það sé rétt, að þeir samvizkusömu framteljendur verði að borga skattinn, en hinir, sem draga undan, fái að sleppa við réttlátan skatt, og ég vil segja, að þessi stefna hv. þm. og þeirra, sem fylgja honum að málum, er ekki til þess fallin að gera menn samvizkusama í þessum efnum.