20.05.1941
Neðri deild: 63. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í C-deild Alþingistíðinda. (3295)

132. mál, tekjuskattur og eignarskattur af vaxtafé verðbréf og skuldabréfa

*Frsm. minni hl. (Jón Pálmason) :

Það skal vera örstutt, því að það hefur ekkert nýtt komið fram hjá hv: frsm. meiri hl., en það, sem virtist helzt vera af rökum af því, sem hann sagði, var það, að ekki væri hægt að ná til framtals ýmsum handhafaskuldabréfum, sem gefin væru út og væri veð fyrir: En það er einmitt aðferðin, sem gildir, að ef maður getur ekki gefið upp, hverjir séu eigendur að þeim skuldum, sem hann skuldar, þá borgar hann skattinn sjálfur. (SkG: Nei). Þá er það alveg brot á því „prinsipi“, sem ég þekki, að þeir, sem telja fram skuld, en tilgreina ekki lánardrottin, borga skatt af skuldinni. (SkG: Margir þeirra komast ekki í skatt). Þá er það eini grundvöllurinn, sem fyrir þessu liggur hjá þessum hv. þm., að hann vill teygja sig lengra niður á við, svo að þeir, sem nú borga ekki skatt af því, hvað litlar tekjur og eignir þeir eiga, komi til með að borga skatt. (SkG: Þeir eiga ekki að borga). Ef frv. er samþ., þá getur það þó orðið þannig, því að mikið af þessum skatti, sem ætti að innheimta á þennan hátt, fellur á þá, sem eru ekki skattskyldir ella. Margt þessara manna er ýmist börn eða gamalmenni, sem eru að safna aurum í sparisjóð og ber ekki að greiða skatt. (SkG: Þetta snertir ekki innistæður). En það getur vel verið, að þessi verðbréf séu í eigu fólks, sem er ekki skattskylt ella. Og þó að eitthvað kunni að sleppa undan skatti, sem annars er skattskylt, þá tel ég ekki rétt að setja upp svona umfangsmikið og fyrirhafnar samt kerfi eins og frv. gerir ráð fyrir, því að það borgar sig alls ekki. Það verður að vera stefnan að herða betur á skattinnheimtu skattayfirvaldanna, svo að hægt sé að ná til framtals öllu, sem hægt er að ná. Og ég held, að alls ekki sé um svo mikið að ræða, sem menn hafa dregið undan skatti af verðbréfum, að rétt sé að dreifa því út af jafnmikilli ófyrirleitni og gert hefur verið, að hér sé stórfé dregið undan skatti, því að það er alls, ekki rétt, eins og ég hef sýnt fram á.