23.05.1941
Neðri deild: 65. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í C-deild Alþingistíðinda. (3298)

132. mál, tekjuskattur og eignarskattur af vaxtafé verðbréf og skuldabréfa

*Garðar Þorsteinsson:

. Það var aðeins út af einu atriði, sem mig langaði til að segja nokkur orð, og jafnframt biðja hæstv. fjmrh. þá sérstaklega að skýra hv. d. frá, hvort hann hefði athugað það atriði sérstaklega að því er snertir afstöðu ríkissjóðs til þess atriðis.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að sá maður, sem ber að greiða vexti af skuld, sem er annaðhvort opinbert verðbréf, bankavaxtabréf, ríkisskuldabréf o. s. frv., eða skuldabréf, sem er tryggt með veði í fasteign, hann eigi aðeins að greiða 3/4 af þessari vaxtagreiðslu, en halda eftir sjálfur 1/4 af vöxtunum, sem hann síðar innan eins mánaðar á að skila til viðkomandi skattheimtumanns. Mig langar til þess að vita, hvort hæstv. fjmrh. hefur athugað, hverja þýðingu þessi aðferð um vaxtagreiðsluna hefur fyrir ríkissjóð, þegar þess er gætt, að tollstjóra, sem þar kemur fram fyrir ríkissjóðs hönd, ber að standa skil á þessum 25%, sem hann á að taka við, jafnvel endurgreiða þau til vaxtagreiðanda, hvort sem skattstjóri hefur fengið þessa upphæð greidda frá viðkomandi vaxtagreiðanda eða ekki.

Til þess að gera málið skýrt, vil ég taka dæmi um tvo menn, sem við nefnum A og B. A skuldar B 10 þús. kr. og hefur gefið veðrétt í húseign sinni fyrir skuldinni. Hann á að borga 600 kr. í vexti. Nú fer kröfuhafi B til A og A greiðir honum —, ekki 600 kr., heldur 450 kr. og heldur sjálfur eftir 150 kr. Nú skrifar B kvittun inn á veðskuldabréfið, og það er ekki lengur veð í fasteigninni fyrir þessum vöxtum. Nú stendur þannig á fyrir A, að hann hefur kannske ekki mikla peninga, og hann fer ekki með þessa vaxtagreiðslu til tollstjóra og greiðir alls ekki þessar 150 kr., og tollstjóri hefur ekki hugmynd um það fyrr en eftir marga mánuði, að þessi maður hefur átt að inna af hendi þessa greiðslu til tollstjóra, en A skilar alls ekki af sér þessari fjárhæð. Nú líður, þangað til B telur fram til skatts og sendir skattstjóra yfirlýsingu A um það, að hann (A) hafi haldið eftir þessum 150 kr., og þessar 150 kr. eiga samkv. 1. að dragast frá tekjuskatti B eða endurgreiðast honum, ef upphæðin er hærri en það, sem honum ber að greiða í tekjuskatt.

Hvernig horfir málið nú við frá ríkissjóðs hlið, ef tollstjóri hefur ekki fengið þessa vexti, sem hann átti að fá í skatt, greidda? Þessar krónur eru ekki tryggðar með veði í neinni fasteign. Og A er ekki svo fjáður, að ríkissjóður geti innheimt þessa upphæð hjá honum. Ég held, að hv. flm. hafi ekki athugað þetta. Og kannske hæstv. fjmrh. ekki heldur, ég veit það ekki. En með þessu móti er víst, að það koma hér fram, a. m. k: í Reykjavík, þúsundir og aftur þúsundir af mönnum, sem gefa slíkar yfirlýsingar um það að hafa haldið eftir ¼ skattsins sem vaxtaskatti, sem þeir aldrei skila af sér til ríkissjóðs, og ríkissjóður verður svo að borga til þessara manna, hvort sem ríkissjóður hefur fengið hluta af þessu eða ekki neitt. Ég hygg, ef það væri athugað, hve mörg hundruð þús. og jafnvel millj. kr. eru borgaðar í vexti af lánum, sem tryggð eru í fasteignum, þá mundi sú upphæð nema miklu, sem skuldararnir sjálfir geyma fyrir ríkissjóð og mega geyma allt að 4 vikum, en sem þeir aldrei mundu skila af sér; eða a. m. k. yrði ríkissjóður aðinnheimta það með lögtaki, og maður veit, hvernig það gengur oft, og þannig mundu það ekki verða litlar fjárhæðir, sem ríkissjóður annaðhvort tapaði eða yrði með kostnaði að innheimta. Mér er sagt, að einn maður hér í bænum eigi 39 hús, og munu þau ekki vera undir 100 þús. kr. virði að jafnaði. Hann skuldar sjálfsagt svo eða svo mikið fyrir þessi hús: Mér er nú sem ég sjái, að slíkir menn, sem gera má kannske ráð fyrir, að hafi stundum ekki of mikið fé undir höndum, noti sér ekki þennan greiðslufrest, sem þeim er gefinn á vöxtunum, með því, hvernig ákvæði þessa frv. eru, ef að l. verða. Mig furðar það þeim mun meira, að þessi ákvæði, sem þannig mætti nota sér, skuli vera sett inn í frv., af þeirri ástæðu, að það er ákaflega auðvelt fyrir skattstjóra og síðan fyrir ríkissjóð að fá að vita, hverjir séu eigendur þessara veðskuldabréfa, af því að hver einasti maður, sem telur tekjur fram til skatts, skýrir frá því, hve mikla vexti hann hefur borgað af veðskuldabréfum, tryggðum í hans fasteign. Ef maður hefur borgað 600 kr. í vexti, kemur það til frádráttar, og hann gefur þetta upp vegna sjálfs sín. Nú má ætla, að hann borgi þetta einhverjum málaflm., án þess að vita, hver á bréfið. En skattstofan fær að vita, hverjum hann hefur borgað vextina. Ef viðtakandi, í þessu tilfelli málaflm., vill ekki segja, hver á bréfið, má skattstofan leggja á þann mann tekjuskatt vegna þessara vaxta. Hún getur sagt: Ég trúi ekki, að þú eigir ekki skuldabréfið. Ef einhver stofnun hefur fyrir atvinnu að innheimta vexti af bréfum, þá snýr skattstofan sér til þeirrar innheimtustofnunar um það, hver eigi hvert slíkt bréf. Þessi stofnun þyrfti að segja, hver ætti bréfið, því að annars yrði viðkomandi innheimtustofnun að borga tekjuskattinn. Ég innheimti á síðasta ári vexti og afborganir af 8 bréfum. Í sumum tilfellum vissi skattstofan, hver átti bréfin, en í öðrum tilfellum komu starfsmenn hennar til mín og spurðu um það. Ég gaf það upp, því að annars hefði ég orðið að greiða sjálfur tekjuskatt af þessum bréfum. Það er þannig hægt að rekja slóðina til þess að vita, hverjir eigi skuldabréfin, ég vil segja í 100% tilfellum, eða a. m. k. allt að því, og ríkissjóður gæti því á þann eðlilega hátt fengið lögákveðnar tekjur af þessum eignum og vöxtum. Og mér finnst, þegar þingheimi er málið ljóst, og það má spyrja skattstjórann í Reykjavík um þetta, ef mér er ekki trúað, að þetta er áhættuminna fyrir ríkissjóð heldur en sú leið, sem lögð er til í þessu frv., að farin verði, þá eigi ekki að fara þessa leið, sem hér er lagt til, að allir þeir menn, sem eru í skuld samkvæmt skuldabréfi, eru orðnir innheimtumenn fyrir ríkissjóð, og gera má ráð fyrir, að þeir geri það á þann veg, að ríkissjóður verði að svara út miklum upphæðum í vangreiddum vöxtum, ef viðkomandi skuldarar ekki skila vaxtaskattinum. Ég er sannfærður um það, að það verða ekki litlar upphæðir, sem ríkissjóður, a. m. k. í bili, yrði að greiða, hve mikið sem honum tækist svo að innheimta af því síðar, — og hvað mundi það þá kosta?

Það skiptir ekki neinu máli, hvort bréfin, sem tryggð eru með veði í fasteign, eru til handhafa eða ekki í þessu sambandi.

Það er svo sök sér með hitt, að því er snertir ríkisskuldabréf og veðdeildarbréf, af þeirri einföldu ástæðu, að það má segja, að það sé ókleift verk fyrir Landsbankann eða ríkisféhirði að vita, hverjum eru greiddir vextir. Það má segja, að það sé rétt hugsun í frv. að því er þessa hlið málsins snertir.

Ég vil skjóta því fram, hvort hv. flm. vildu ekki fallast á þennan rökstuðning minn, eða hvort hæstv. fjmrh. sem forsvarsmaður ríkissjóðs teldi ekki rétt, að frv. væri kippt í það horf, að þessi innheimta, sem á að tryggja ríkissjóði auknar tekjur, yrði ekki til þess að baka honum aukin ný gjöld eða a. m. k. stórkostlega áhættu.