10.03.1941
Efri deild: 14. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í C-deild Alþingistíðinda. (3348)

43. mál, veiting prestakalla

*Flm:

(Magnús Jónsson) : Hæstv. ráðh. var ekki inni, þegar ég rakti aðdragandann að þessum l., og þess vegna gætti hjá honum misskilnings. Það var búið að samþ. þmfrv. einu sinni áður en l. voru sett, en var synjað um staðfestingu. Hitt er satt, að þessi l. hafa ekki uppfyllt þær vonir, sem menn gerðu sér um þau. En það er m. a. ein ástæða til, þess að kjósa presta, sú, að þeir hafa verið kosnir um langt skeið. Það er töluvert mikið atriði, ef á að taka frá fólki þennan rétt, að kjósa sér prest. Starf prestsins er alveg sérstakt, og gildir allt annað um sýslumenn og lækna. Starf þeirra getur lukkazt vel, þó að ekkert innilegt samband sé með þeim og fólkinu. En starf prestsins lukkast aldrei, nema hann sé í nánu sambandi við sinn söfnuð.

Ræður okkar hæstv. ráðh. sýna, hvernig líta má á mál þetta frá tveim hliðum. Hann segir, að úr því að réttur safnaðanna hefur ekki reynzt vel, sé fásinna af mér að vilja auka þann rétt. En ég hef sýnt fram á, að sú breyting, sem ég vil gera, eykur ekki ókostina við fyrirkomulagið. Það verður alveg eins farið að, en það verður bara einu óánægjuatriðinu færra, því, að veitingarvaldið geti komið með enn einn ásteytingarstein. Það vil ég afnema.

Hæstv. ráðh. segir, að ef ekki sé svo mikill áhugi fyrir kosningunni, að helmingur sóknarbarna mæti á kjörstað, og ekki svo mikill samhugur, að einn prestur fái yfir helming greiddra atkvæða, þá sé ekki ástæða til að virða þann vilja, sem komi fram í kosningunni. — Einn prestur var kosinn þannig, að ekki var lögmæt kosning, af því að ekki mættu nógu margir. Hann var eini umsækjandinn, svo að álitið var, að hann hlyti að verða kosinn. Hann var sjálfur enginn undirróðrarmaður og vann ekki að kosningunni á þann hátt. En honum var veitt embættið: Út af því, að samhugur sé ekki nógu mikill, skal ég nefna dæmið úr Nesprestakalli, sem um sóttu 9 prýðilegir menn. Það er ekki skortur á samhug, þó að einn fái þar ekki fleiri atkv. en allir hinir til samans.

Hæstv. ráðh. spurði, hvers konar lýðræði það væri, ef fáeinir menn ættu að ráða kosningu. Nú, hvernig höfum við skipað okkar lýðræði við sjálfar alþingiskosningarnar, þegar kjósa á til þeirrar falvöldu stofnunar, Alþingis? Það er einmitt á þennan sama hátt, sem þm. er kosinn, ef löglega er farið að öllu, sá, sem flest fær atkv. Jón Sigurðsson var kosinn með — að mig minnir — 7 atkv. eitt sinn á Ísafirði. Af hverju má ekki fara að dæmi þeirra kosninga, sem mest er vandað til, alþingiskosninganna? Þetta er ekki það, sem hæstv. ráðh. svo nefndi, að „fletja út lýðræðið“, heldur einmitt að kasta af því öllum böndum. Þetta er lýðræði.

Ég sagði, að ég væri ekki svo barnalegur að halda, að komið yrði í veg fyrir allan undirróður með þeirri breyt., sem ég vil gera. En fyrirkomulagið er þar með lagað að öðru leyti.

Hæstv. ráðh. varð ekki skotaskuld úr því að draga upp skrípamynd af því, hvernig kosningarnar færu fram og mundu fara fram. En ég er sannfærður um, og það eru margir, sem eru þessum málum kunnugastir, að minna yrði úr rifrildinu og undirróðrinum. Það er þessi langi tími, sem hefur hleypt eitrinu í prestskosningarnar.

Að einn veiti embætti og annar setji af embætti er víst ekkert einsdæmi. Bæjarstjórn hefur ráðið lögregluþjóna, sem bæjarfógeti hefur sett af. Auk þess er ég ekki svo hræddur um, að kjörmennirnir gerðu sig að þeim fíflum, að þeir kysu hvað eftir annað misindismann í embættið.

Hér er um að ræða þrjár leiðir, sem stungið hefur verið upp á. Hæstv. ráðh. sér ekki nema tvær leiðir: að láta l. standa eins og þau eru, eða lögleiða almenna kosningu. Ég er ekki í vafa um, að fyrri leiðin yrði ofan á. En ég bendi á þriðju leiðina, að reyna að verja svo litlum tíma, eftir að embætti losnar, til að kalla prest í embættið. Ég hef dvalið um tíma í Ameríku, en þar var þetta eina aðferðin, sem tíðkaðist. Ég held, að ekki hafi yfirleitt orðið mikið rifrildi um þetta. Þeir skrifuðu síðast til ákveðins prests, meðal annars einu sinni, til mín, og var mér veitt prestsembætti á þennan hátt. Ég er sannfærður um, að hér yrði það oft, að þegar söfnuður og sóknarn: eru búin að koma sér saman um ákveðinn prest, þá mundu ekki aðrir reyna.

Ég skil andstöðu þeirra manna gegn frv., sem eru ánægðir með ástandið eins og það er, en ekki annarra. Og hvorugur okkar er ánægður með þetta ástand.

Ég vona svo, að hv. d. lofi málinu að fara til n., svo að hægt sé að athuga það sem bezt, því að við hæstv. ráðh. erum sammála um, að æskilegt væri, að nokkur breyting fengist á ríkjandi fyrirkomulagi.