10.03.1941
Efri deild: 14. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í C-deild Alþingistíðinda. (3349)

43. mál, veiting prestakalla

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Þessar umr. eru um misjafnt sjónarmið á því, hvernig þessar aðferðir mundu reynast. Með frv. er í rauninni gengið inn á það svið að gera íslenzku kirkjuna að fríkirkju, því að ef það næði samþykki, væri ekkert eftir af valdi ríkisins yfir íslenzku þjóðkirkjunni, eins og væntanlega yrði haldið áfram að kalla hana, en það, að ráðh. skrifaði undir veitingarbréfið, auk þess, að ríkinu væri skylt að launa prestunum. En væri þá ekki eðlilegra, að skrefið væri stigið til fulls og kirkjan gerð formlega að fríkirkju, því að með þessu væri skrefið stigið að hálfu leyti?

Þá vil ég minnast á annað atriði, en það er sú leið, sem er vel hugsanleg og athugandi, að sleppt væri úr frv. öllu öðru en því, að prófustur í umdæminu kallaði saman safnaðarfundi og reyndi að fá samkomulag, og ef prestur fengi 2/3 hluta atkv., þá teldist hann kosinn, en lengra yrði ekki gengið. Ef ekki væri hægt að fá 2/3 atkv., þá færi eftir venjulegum reglum veitingarvaldsins. Við erum raunar sammála um, að kosning sé óheppileg. Mér finnst það hins vegar allt annað en æskilegt, að hafðir séu fundir, þar sem prestarnir séu skammaðir og hafðir að skotspæni, og ef ekki næst meiri hl., þá komi lítill hluti safnaðarins á fund og ákveði manninn, en 9/10 hlutar safnaðarins fái ef til vill ekki að ráða neinu.

Þegar ófriður er kominn inn í kosningar, þá gengur minni hl., sem er reyndar stundum meiri hl., er orðið hefur undir, oft miklu verr að beygja sig fyrir þeim aðilanum,. sem sigraði í kosningunum, en ákvörðunum veitingarvaldsins. Því hefur veitingarvaldið stundum grípið inn í, er kosning hefur verið orðin heit, og leyst málið þannig, að hvorugur sigraði. Það er því athugandi, að ef safnaðarfundir fallast á till. prófasts með 2/3 hlutum atkv., þá sé ekki lengra gengið og kosning ekki látin fara fram.

Þá er það atriði, að það gildi við alþingiskosningar, að sá sé kosinn, sem fær flest atkv., þó að það sé minni hl. atkv., þetta sé lýðræði, og væri ekki meira, þó að það gilti við prestskosningar en kosningar til Alþ., — um það er í fyrsta lagi það að segja, að um það hefur mikið verið deilt, og hafa verið lögleidd uppbótarþingsæti til þess að koma á meiri jöfnuði undir slíkum kringumstæðum. Sá, sem fær flest atkv., er þm. hlutaðeigandi kjördæmis, en önnur atkv., er fram koma, eru samkv. l. látin gilda að nokkru leyti, þó að þau séu ekki algerlega látin jafngilda þessum atkvæðatölum af ástæðum, sem ekki færi vel á, að farið væri að ræða hér. En svo er annað. Þegar kosið er til Alþ., er úrskurður fólksins hið eina, sem farið er eftir, því að ég býst ekki við, að Magnús Jónsson prófessor mundi nokkru sinni fela t. d. mér að útnefna menn til þings. Öðru máli gegnir um kosningu presta. Þar er til hið almenna veitingarvald, sem falið er ráðh. En ég býst við, að fæstum þætti eðlilegt, að ráðh. sá, sem væri við völd, gæti veitt mönnum þingsæti. En ráðh. hefur veitingarvald sitt frá þinginu, sem er fulltrúi fólksins, svo að þetta veitingarvald er því alltaf jafnframt vilji fólksins.

Ég held því ekki, að til sé önnur fær leið en sú, sem ég hef nefnt. Ef ekki er horfið að henni held ég, að ekki sé hægt að breyta því skipulagi, sem nú er. Menn segja, að gera megi þessa tilraun, en ég held, að ekki sé rétt að vera að gera tilraunir, sem vakið geta ófrið, þegar tilgangurinn er sá að koma í veg fyrir ófrið.