10.03.1941
Efri deild: 14. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í C-deild Alþingistíðinda. (3350)

43. mál, veiting prestakalla

Flm. (Magnús Jónsson) :

Hæstv. ráðh. sagði, að ef l. væri breytt í þá átt, sem lagt er til í þessu frv., þá væri verið að gera íslenzku kirkjuna að fríkirkju, því að kirkjustjórnin hefði þá ekki annað hlutverk að vinna en skrifa undir veitingarbréf prestanna. Þetta er nærri orðrétt sú mótbára, sem komið var með 1880 eða 1885, þegar l. þau, sem nú gilda, voru sett. Þá var sagt, að verið væri að gera íslenzku kirkjuna að fríkirkju, og er hún þó nefnd þjóðkirkja enn í dag.

Með því skipulagi, sem nú er, getur hver söfnuður sett kirkjustjórnina „út úr spilinu“, þannig, að hún þurfi ekki annað að gera en skrifa undir veitingarbréfið. Ef allar prestskosningar væru lögmætar, og það gætu þær vel orðið um nokkuð langan tíma, þá gerði kirkjustjórnin ekki annað en þetta, enda þótt ríkið hefði eftir sem áður töglin og hagldirnar, Alþingi setti kirkjunni lög o. s. frv. En ég sé ekki betur en kirkjan væri þjóðkirkja eftir sem áður.

Þegar menn hafa haldið því fram við mig, að hæstv. ráðh. hafi framið lýðræðisbrot nýlega í sambandi við veitingu prestsembætta, hef ég svarað því, að það hafi ekki verið ráðh., sem lýðræðisbrotið framdi, heldur l. sjálf, því að núgildandi l. væru sérstaklega ólýðræðisleg.

Það, sem hæstv. ráðh. sagði um alþingiskosningarnar, er ekki rétt. Tilgangurinn með uppbótarþingsætunum er ekki sá, sem hæstv. ráðh. sagði, heldur eiga þau að vera til að bæta það upp, að flokkarnir geta fengið mjög misjafnt þingmannafylgi í hlutfalli við kjósendafylgi sitt, vegna þess, hvernig kjördæmaskipuninni er háttað. Þá sagði hæstv. ráðh., að ekki væri í önnur hús að venda en vilja kjósendanna, þegar um það væri að ræða að veita mönnum þingmennsku, en ég veit ekki betur en það hafi áður tíðkazt, þegar um var að ræða konungkjörna þm. (Forsrh.: Vill hv. þm. taka upp það fyrirkomulag?) Nei, en þetta var gert, og svo er að sjá sem hæstv. ráðh. vilji taka upp þetta fyrirkomulag:

Kosningin hér í Reykjavík og veiting embættanna leiddi sérstaklega vel í ljós hugsunarhátt, sem ríkjandi er í þessum efnum. Það var ómögulegt að koma því inn í menn, að annað væri lýðræði en það, að embættið væri veitt þeim, sem flest fékk atkvæðin, en enginn hafði nokkuð við það að athuga, þó að prestsembættin væru veitt í Nesprestakalli og Laugarnesprestakalli, þó að þar væri ekki um að ræða meiri hl. atkv.

Hæstv. ráðh. sagði, að Alþ. væri ekki til þess að gera tilraunir. Jú, við verðum oft að gera hér tilraunir. Annars er ekki flanað að þessum tilraunum, því að hér er um að ræða skipulag, sem reynt hefur verið lengi í grannlöndunum og gefizt vel. Og ég er sannfærður um, að ef hæstv. ráðh. hugsar málið betur, sér hann ekki aðra leið færa en þessa til að bæta úr því ástandi, sem nú ríkir. Hér þarf að fara þróunarleið. Okkur greinir aðeins á um tvennt. Hæstv. ráðh. krefst tveggja þriðju hluta atkv., en ég aðeins meiri hluta, og hann vill, að veiting skeri úr, ef samkomulag næst ekki, en ég vil, að kosning skeri úr. Mig minnir, að hann hafi nýlega skrifað grein um áhættuleið og áhættulausa leið, eða „hægfara“ aðferð og „hraðfara“. Ég tel, að ég vilji hér velja hina áhættulausu leið. Hins vegar má ræða um það, hvort rýmka skuli kosningal., og er ég fús til allrar samvinnu um þetta.