15.04.1941
Efri deild: 35. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í C-deild Alþingistíðinda. (3353)

86. mál, jarðræktarlög

Flm. (Brynjólfur Bjarnason) :

Herra forseti! Aðalefni þessa frv. hef ég flutt áður í þessari hv. deild.

Nýmæli þessa frv., sem ég flyt nú, eru í stuttu máli þau, að jarðræktarstyrkur til býla, sem hafa minna en 8 ha. véltæk tún, tvöfaldast, en styrkur til býla, sem hafa meira en 10 ha. véltæk tún, fellur niður.

Þetta aðalefni frv. stefnir að því að útrýma kotabúskapnum, og er því gert ráð fyrir nokkuð ríflegri styrkveitingu til smábýla, en hinsvegar kippt að sér hendinni um styrk til þeirra býla, sem hafa að mestu leyti kapítalistískan rekstur. Ég þarf ekki að fara nánar út í þau atriði hér. Það hef ég gert allrækilega áður hér í .þessari hv. d. En skal aðeins leyfa mér að útskýra stuttlega það, sem við er bætt fyrri tillögur mínar um þetta efni.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því, að styrkur til húsabóta sé miðaður við ásigkomulag býlis á sama hátt og jarðræktarstyrkurinn. Annars er rétt að taka það fram hér, að við prentun frv. hefur fallið úr smávegis, þar sem um þetta ræðir í 2. gr. frv. Þar stendur í niðurlagi 5. mgr.: „greiðist enginn styrkur samkv. 9. gr.“ í þskj., en á að vera : samkv. 9. gr. l. og V. — Þetta ætti tæplega að geta valdið misskilningi, en má þó misskilja það, ef vilji væri til þess, og því þótti mér rétt að benda á það hér, enda þótt ég geri ráð fyrir, að þetta verði leiðrétt í Skjalapartinum.

Í öðru lagi er hér sleppt ákvæðinu um 5 þús. kr. peningahámarkið. Þetta er langveigamesta atriðið, sem bætt er við frv. mitt frá 1939, því hér er eingöngu miðað við þörf og ásigkomulag hvers býlis, en ekki hitt, hversu mikill styrkur kunni áður að hafa verið veittur. Það er gert ráð fyrir því í brtt. við 11. gr. núgildandi l., að styrkur til húsabóta á þeim býlum, sem samtals hafa fengið minna en 2000 kr., verði greiddur með 30% álagi á það, sem tiltekið er í 9. gr. I. og V. Þá eru einnig ný ákvæði um upphæð þeirrar fjárhæðar, sem greidd skuli hafa verið í styrk, áður en styrkurinn skuli aftur lækka.

Þessar fjárhæðir, er takmarka nú styrkinn til hvers býlis, eru nokkuð hækkaðar, og er gert ráð fyrir því í frv., að á styrkinn sé greidd ful1 verðlagsuppbót og að sú uppbót teljist ekki með sem veittur styrkur. Enn fremur er gert ráð fyrir því, að Búnaðarfélag Íslands ákveði hámarksupphæð styrksins ár hvert fyrir hvert býli.

Loks er í þriðja lagi breyt. á 9. gr. l., sem 1. gr. þessa frv. fjallar um. Þessar breyt. eru teknar óbreyttar eftir till. búnaðarþings. Þótti mér rétt að miða þær ekki við núgildandi l., heldur við vilja og till. búnaðarþings. Tók ég þær hér upp í frv., af því að ég var þeim algerlega sammála, þótt gera megi ráð fyrir, að þær verði e. t. v. fluttar hér í þinginu af einhverjum öðrum.

Að lokum legg ég til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn. Á öðru er ekki völ, enda þótt ég búist ekki við góðu frá n. þessarar hv. d., þegar um er að ræða afgreiðslu þeirra tillagna, sem bornar eru fram af mínum flokki.