15.04.1941
Efri deild: 35. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í C-deild Alþingistíðinda. (3360)

88. mál, sala Hvanneyrar í Siglufirði

Flm. (Bernharð Stefánsson) :

Eins og tekið er fram í grg. frv., er það flutt samkvæmt tilmælum bæjarstjórnar Siglufjarðar, en efni þess er það að veita ríkisstj. heimild til að selja Siglufjarðarkaupstað kirkjujörðina Hvanneyri, en eins og flestum hv. þm. er kunnugt, stendur mestur hluti Siglufjarðarkaupstaðar á landi þessarar jarðar. Kaupstaðurinn á nær ekkert af því landi, er hann stendur á, og er auðsætt, að þetta er að ýmsu leyti bagalegt fyrir kaupstaðinn, sem verður þá að kaupa sér land til ýmissa nota. Hins vegar eiga flestir aðrir bæir hér á landi mestallt það land, er þeir standa á. Virðist ekkert vera að athuga við það, að þessi sala fari fram, annað en það, að ríkið á sjálft ýmissa hagsmuna að gæta þarna, sérstaklega að því er snertir síldarverksmiðjurnar og annan atvinnurekstur, er ríkið hefur með höndum á Siglufirði, og ég tek það fram fyrir hönd okkar flm., að við mundum ekkert hafa á móti því, að í frv. væru settar takmarkanir, sem áskildu ríkinu allan rétt í þeim efnum, og hygg ég, að stj. Siglufjarðarkaupstaðar mundi ekki heldur leggjast á móti því.

Vænti ég þess, að málinu verði vel tekið í hv. d. og legg til, að því verði vísað til allshn.