20.05.1941
Neðri deild: 63. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í C-deild Alþingistíðinda. (3378)

88. mál, sala Hvanneyrar í Siglufirði

*Steingrímur Steinþórsson:

Ég verð að segja, eins og umskiptingurinn forðum, að ég hef aldrei séð svo langan gaur í svo lítilli grýtu. Þetta frv., sem búið er að fara gegnum þrjár umr. í hv. Ed. og er hér við 3. umr. í hv. Nd., er um það að selja Siglufjarðarkaupstað jörðina Hvanneyri í Siglufirði, þar sem um eitt einasta býli er að ræða, sem kaupstaðurinn að miklu leyti stendur á og kaupstaðurinn mun þurfa að nota til sinna eigin þarfa. Og er þetta frv. í fullu samræmi við það, sem borið hefur verið áður fram hér á hæstv. Alþ., um að selja kaupstöðum eða sérstaklega kauptúnum þær jarðir, sem ríkið hefur átt og þessir staðir hafa séð sér fært að kaupa. Ég er þessari stefnu almennt hlynntur, að komið sé á móti óskum slíkra staða um, að þeir geti sjálfir eignazt það land, sem þeir þurfa, á þennan hátt. En vitanlega verður þess að vera gætt um leið, að ekkert það verði gert í þessum efnum, sem orðið geti þess valdandi, að slíkar jarðir komist í brask, nefnilega, að einstakir menn eignist ekkert af slíkum jörðum.

En mér virðist, að hér sé nokkuð öðru máli að gegna um það að selja Vestmannaeyjum þessar lóðir og lendur, svona að óathuguðu máli, skella því inn við 3. umr. málsins í síðari d., að með einni brtt. verði ríkisstj. heimilað að selja Vestmannaeyjákaupstað það land, sem ríkið á í Vestmannaeyjum. Það er ekkert sambærileg sala við það, sem í frv. er gert ráð fyrir um Hvanneyri. Vestmannaeyjar eru heil sýsla. Ef t. d. ætti að selja alla Borgarfjarðarsýslu í heilum slump, veit ég ekki, hvernig hv., þm. Borgf. og öðrum þætti það. Þessi sala í Vestmannaeyjum lítur allt öðruvísi út en sala Hvanneyrar í Siglufirði, og má í því sambandi benda á, að Vestmannaeyjar eru sérstakt kjördæmi, þær eru og sérstakur kaupstaður. Og einnig er þar sérstök sveit, því að ég veit ekki betur en að milli 10 og 20 lögbýli séu í Vestmannaeyjum, þannig að ef þetta ætti að vera hliðstætt við Siglufjörð, þá þyrfti að selja bænum ekki aðeins Hvanneyri, heldur líka svo og svo mikið af Fljótunum, eða því um líkt. Hér er því ekki verið í frv. að fara fram á að selja örlítinn landskika til brýnustu þarfa fyrir Vestmannaeyjakaupstað, eins og mér virðist stefnt að með sölu Hvanneyrar í Siglufirði.

Ég vil leyfa mér að spyrja hv. flm. brtt. að því, hvort leitað hafi verið umsagnar ábúenda þeirra jarða í Vestmannaeyjum, sem á þessu landi búa, og hvort þeir þá væru því hlynntir, að þessi sala fari fram. Af því að Búnaðarfélag Íslands hefur mikið með að gera ýmis ræktunarmál í Vestmannaeyjum, tel ég skyldu mína að fara fram á, að leitað verði álits þeirra um þetta atriði, en ekki eingöngu farið eftir einu einföldu símskeyti frá bæjarstj. í Vestmannaeyjum, sem nú er sent til hæstv. Alþ., þegar málið er komið til 3. umr. í síðari d. Mér finnst undirbúningur þessa máls svo lítill af hálfu Vestmannaeyjakaupstaðar nú, að það geti ekki komið til mála, að þessi Vestmannaeyjatill. verði samþ., eins og málið horfir nú við.

Ég vil taka með mikilli ánægju undir þau, sem hv. þm. Borgf. sagði um Vestmannaeyjar og fólkið, sem þar býr. Við vitum, hve mikla þýðingu þær hafa sem sjávarútvegspláss. En Vestmannaeyingar eru líka til fyrirmyndar hvað jarðrækt snertir. Þeir hafa byggt þrær fyrir fiskúrgang o. fl. og hafa verið brautryðjendur í því efni, og við hv. þm. Borgf. erum sammála um það, að þeir eiga miklar þakkir skilið. Og það er sjálfsagt að taka tillit til sanngjarnra óska frá Vestmannaeyingum um efni svipað þessu, sem í brtt. felst. En hitt finnst mér ekki geta komið til mála, að við förum að selja heila sýslu í landinu, þar sem ekki er aðeins um að ræða land kaupstaðarins, heldur einnig mörg býli, sem þar eru, með því að gefa heimild til þess svona með einni meinleysislegri brtt., sem borin er fram við þetta frv. við 3. umr. þess í síðari deild.

Ég verð því fyrir mitt leyti að leggja til, að þessi brtt. hv. þm. Borgf. verði felld. Ég álít, að þetta mál eigi að taka til alvarlegrar athugunar og meðferðar og verði að fá meiri undirbúning heldur en nú er. Þó að það hafi verið lagt fyrir þingið fyrir löngu, tel ég, að taka þurfi málið upp að nýju.