20.05.1941
Neðri deild: 63. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í C-deild Alþingistíðinda. (3379)

88. mál, sala Hvanneyrar í Siglufirði

*Pétur Ottesen:

Út af því, sem hv. þm. sagði, að honum væri ekki kunnugt um, að farið hefði verið fram á kaup á lóðum ríkisins í Vestmannaeyjum um nokkurra ára bil, þá er það alveg rétt hjá honum, og hafa ekki verið bornar fram óskir um þetta í 10–20 ár. Ég ætla, að það byggist á því, að sú stefna hefur verið uppi á Alþ. að vilja ekki selja kaupstaðarlóðir, sem ríkið á, hvorki á Siglufirði né í Vestmannaeyjum. Er ekkert óeðlilegt, þó að óskir komi fram í þessa átt nú af hálfu Vestmannaeyjakaupstaðar, þegar greinilega hefur orðið stefnubreyting í þessum málum á Alþ. Hefur hér á þinginu verið tekið vel og einróma undir óskir Siglfirðinga í þessu máli, og þess vegna er eðlilegt, að aðrir beri fram óskir í þessa átt, sem líkt er ástatt um. Ástæðan fyrir því, hversu seint málið er borið fram, er sú, að hið breytta viðhorf Alþ. kom ekki í ljós, fyrr en mjög var liðið á þingtímann, og áður var álitið þýðingarlaust að fara fram á þessa heimild. Hv. 2. þm. Skagf. andmælti brtt. meðal annars af því, að honum fannst, að hér væri um svo stóran hlut að ræða. Hann andmælti henni líka af þeirri ástæðu, sem kom einnig fram hjá hv. 4. landsk. þm., að í þessu efni væri mikill munur á Siglufirði og Vestmannaeyjum. Það var ekki rétt hjá hv. 2. þm. Skagf., að með þeirri sölu, sem hér er heimiluð á Siglufirði, sé fylgt þeirri sömu stefnu eins og áður á Alþ., þegar kaupstaðirnir fengu keyptar jarðir, sem ríkið átti. Hingað til hefur þeirri stefnu verið fylgt hér á Alþ., að helztu kaupstaðir landsins, seni eru vel fallnir til ræktunar, hafa fengið lóðir til afnota og eignar, og þannig hefur verið uppfyllt eðlileg þörf kaupstaðanna. Hér er um að ræða að selja Siglufirði lóðir, sem kaupstaðurinn er byggður upp á, og allur hinn mikli atvinnurekstur bæjarins fer þar fram og er tengdur þar við. Hefur þingið því tekið hér algera stefnubreytingu frá því, sem áður hefur verið. Ég sé ekki, að hér sé um mikinn mun að ræða hvað Vestmannaeyjar snertir, og því hljóti það sama að ganga yfir báða þessa staði. Hv. 2. þm. Skagf. sagði, að hér væri farið fram á að selja heila sýslu, og það er alveg rétt. En í hinum staðnum er um að ræða sölu á heilum kaupstað, og sýsla og kaupstaður er bæði stjórnarfarslega og formlega hliðstætt í meðvitund manna hér á landi. Það er rétt, að um töluvert meira land er að ræða í Vestmannaeyjum en það, sem kaupstaðurinn stendur á. En mikið af þessu landi er tengt við kaupstaðinn. Þar eru fiskreitir og annað slíkt, sem er óaðskiljanlegur hlutur við útgerðina, en hún er rekin þar í stórum stíl. Auk þess eru þetta túnblettir og garðar og nokkur lítil býli. Ég sé ekki, að neitt mæli móti því, að þingið verði við ósk kaupstaðarins í þessu efni. Á Siglufirði er líka um mikið land að ræða, þar sem er hin forna prestssetursjörð, Hvanneyri, þó það sé talsvert minna land heldur en í Vestmannaeyjum. Ég býst ekki við, þar sem tíminn er svo naumur, að hægt sé að leita álits ábúendanna um, hvort þeir vilji heldur vera leiguliðar kaupstaðarins eða ríkisins, enda tel ég sennilegast, að þeir láti sig það litlu skipta. Á flestum jörðunum búa ábúendurnir við gamla leigumála, sem þeir njóta til æviloka og þeirra afkomendur, samkv. löggjöf vorri um það efni. Þeirra aðstaða verður því sú sama eftir sem áður. Mér þykir líklegt, að með þeim hreyfi sér sú hugsun, að þeir óski sér í víðtækri merkingu að verða sjálfstæðir og vilji stuðla að því, að Vestmannaeyjakaupstaður geti eignazt það land, þar sem þeir standa undir hita og þunga dagsins. Ég skal fyrir mitt leyti ekki hafa móti því og tel það að mörgu leyti eðlilegt, að þetta mál verði tekið út af dagskrá nú með ósk um það, að hv. allshn. taki það aftur til athugunar eftir að þessi brtt. er fram komin, og ég treysti henni til að afgreiða málið eins fljótt og hægt er. Ég vildi þess vegna fara fram á það við hæstv. forseta, að hann taki málið út af dagskrá og beri fram ósk til hv. allshn. um að taka málið að nýju til athugunar í tilefni af þeirri brtt., sem borin er fram við frv.