01.04.1941
Neðri deild: 28. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1 í D-deild Alþingistíðinda. (3424)

67. mál, uppeldisstofnun fyrir vangæf börn og unglinga

Flm. (Gísli Sveinsson) :

Herra forset! Ég tel nægja að vísa til þess rökstuðnings fyrir þessari till., sem felst í grg. hennar. Þeir hv. þm., sem bera fram þessa till. ásamt mér, eru þeir, sem skipa menntmn. þessarar hv. d., og hafa þeir komið sér saman um að bera fram þessa till., sem er áskorun til ríkisstj. um að undirbúa löggjöf um uppeldisstofnun fyrir vangæf börn og unglinga.

Að vísu mætti segja, að bera hefði mátt fram frv. um að koma slíkri stofnun á fót. Það hefur verið gert í hv. Ed. oftar en einu sinni. En við, sem að þessari till. stöndum, töldum réttara að bera fram þál. um þetta mál í því trausti, að hæstv. ríkisstj. léti ekki hjá líða að undirbúa slíka löggjöf, þegar á hana yrði skorað. Ég tel það að öllu leyti eðlilegustu og vænlegustu leiðina, til þess að slík stofnun komist á fót, ekki aðeins einhvern tíma, heldur þegar í stað, þegar málið hefur verið athugað, flutt og samþ. hér á Alþ.

Þetta mál hefur komið fram oftar en einu sinni í hv. Ed., og ég tel víst, að allir þm., sem hér eiga sæti í hv. Nd., hafi kynnt sér það. Málið er í sjálfu sér þannig vaxið, að ég tel, að mönnum ætti að vera ljóst, hvernig það horfir við nú. Hafi þörfin á slíkri uppeldisstofnun verið brýn áður, þá er hún enn brýnni nú. Ég býst við, að þm, hér í d. verði á einu máli um það, að þótt framkvæmdir í þessum málum hafi dregizt úr hömlu hingað til, þá megi það ekki ganga svo lengur. Ég vil mælast til, að þessi þál. verði samþ., svo að hæstv. ríkisstj. fái málið til meðferðar og athugunar.

*) Stjarna (*) framan við nafn ræðumanns táknar, að ræðan sé prentuð eftir handriti innanþingsskrifara, óyfirlesin af ræðumanni.