17.04.1941
Neðri deild: 37. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í D-deild Alþingistíðinda. (3440)

97. mál, mannanöfn o. fl.

Gísli Guðmundsson:

Það er rétt hjá hæstv. forsrh., að þáltill., ef samþ. verður, ætti að fela í sér áskorun um framkvæmd 1. í heild sinni. Ég var búinn að orða skrifl. brtt. um að færa orðalag þáltill. til samræmis við þennan tilgang. En mér finnst heppilegra að fresta umr. og hv. n. breyti þessu sjálf í það horf.

Annars efast ég um, ef eitthvað á að gera til að útrýma ónefnum og ættarnöfnum, að það sé endilega það, sem ráð er fyrir gert í 1. 1925.

Ég vík að því enn, sem ég rétt drap á í fyrri ræðu minni, hvort ekki muni betra að gefa út skrá um íslenzk mannanöfn. Heimspekideild háskólans mundi láta semja þessa skrá, en stjórnarráðið löggilda hana. Á þessa skrá yrði svo bætt nýjum nöfnum íslenzkum, sem upp verða tekin. Auk þess, sem bannskrá sú, sem gefa á út samkv. 1. 1925, mundi lítið gagn gera, er næsta leiðinlegt að semja hana.

Ég held, að þetta ákvæði hafi upphaflega verið sett í lögin í fljótræði og ekki hafi verið athugað, hvað verið var að gera eða hvort það mundi að gagni koma.

Viðvíkjandi ættarnöfnunum hef ég litlu við að bæta það, sem ég sagði áðan og hv. frsm. tók fram. En ég tel engan vafa á því, að fjöldi manna notar nú ættarnöfn, sem ekki voru til fyrir 1925.

Ég tel þetta mjög illa farið og vinna beri gegn því af alefli. Í 1. lagi er það lögbrot, í 2. lagi er það mjög óviðfelldið og í 3. lagi gæti það valdið óþægindum juridiskt séð, ef menn nota óheimil nöfn.

Hins vegar ætti að athuga, hvort ekki beri nauðsyn til að endurskoða lögin frá 1925. —Ég skal þó ekki fara út í það, en leyfi mér að skjóta því til hæstv. forseta, hvort hann vill ekki fresta afgreiðslu till., svo n. geti athugað þau atriði, sem ég drap á.