25.03.1941
Sameinað þing: 6. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í D-deild Alþingistíðinda. (3457)

59. mál, efni til skipasmíða og smíðastöð

*Flm. (Sigurður Kristjánsson) :

Ég hef litlu við að bæta það, sem segir í grg. fyrir þessari till. Það er öllum háttv. þm. kunnugt, að skipastóllinn íslenzki hefur yfirleitt verið byggður erlendis, og er þess vegna lítið um tæki hér á landi til slíkra smíða. Nú er svo komið, að þau lönd, sem skip okkar hafa aðallega verið byggð í, nefnilega Norðurlönd, eru okkur lokuð, þannig að nýbyggingar skipa þurfa að geta farið fram í landinu sjálfu. En ástæður eru þær, að efni er hér mjög af skornum skammti til viðgerða á þeim skipum, sem laskast, og ekkert til nýbygginga. Vandræðin í þessu efni hafa aukizt mjög síðustu mánuðina vegna óvenju mikilla skipaskaða, bæði á þeim hluta flotans, sem siglir á milli landa, og eins á smærri skipum. Í óveðrinu síðasta fórust margir bátar, en tugir báta löskuðust. Ég veit, að þeir menn, sem þá misstu skip sín, eiga mjög erfitt að fá skip í staðinn, og hefur af þeim orsökum myndazt keppni um það að komast yfir öll þau skip, sem kunna að vera föl, en enginn kostur er að bæta strax í skörðin. Við vitum, að framhald muni verða á því, að fiskiflotinn gangi úr sér, þó að við vonum, að það verði ekki í jafnstórum stíl og orðið er. Af því leiðir, að við verðum að gera sérstakar og óvenjulegar ráðstafanir til þess að hægt sé að halda í horfinu um skipaflotann. En það er ekki eins á færi einstakra manna og áður. var, vegna innflutningsörðugleika og skorts á þeim gjaldeyri, sem til greina þyrfti að koma. Það mun ekki unnt að fá það efni, sem þarf, nema í Ameríku, og dollaravandræðin eru svo mikil, að engar líkur eru til, að einstakir menn fái bætt úr þeirri þörf, sem fyrir hendi er. Við eigum þetta mál auðvitað undir samningum við Breta, og hafa þeir að sönnu heitið því, að við — skyldum fá hagkvæm verzlunarkjör, og er ekki ástæða til annars en að ætla, að þeir muni efna það, ef ríkisstj. tekur að sér málið. Íslendingar eiga nú svo mikið inni í Bretlandi, að ef brezka stjórnin uppfyllir loforð sín um að greiða fyrir viðskiptum Íslendinga, ætti að mega vona, að hægt verði að sigrast á gjaldeyrisvandræðunum.

Það kann að þykja djúpt tekið í árinni að ætlast til, að flutt verði inn efni á sama ári bæði í skipasmíðastöð og 40–50 báta úr eik og nokkra togara. En það veit enginn, hve langvinn styrjöldin verður, og í annan stað er það líklegt, að að stríðinu loknu verði efni í skip óskaplega dýrt og flutningur á milli landa kostnaðarsamur. Loks eru engar líkur til þess, að hægt verði að fá skip smíðuð erlendis með bærilegum kjörum eftir stríðið. Þá verða þjóðirnar önnum kafnar að bæta upp það, sem þær hafa misst í stríðinu. Ég held því, að ekki sé djúpt tekið í árinni, þó að farið sé fram á innflutning á efni í skipasmíðastöð og 40–50 fiskiskip.

Það er tekið fram í seinni málsgr. till., að skipaverkfræðingur skuli sendur til Ameríku til þess að sjá um efniskaupin. Þetta tók ég í till., af því að mér er sagt af kunnugum mönnum, að efni í skip sé svo mismunandi að gæðum, að það sé miklum örðugleikum bundið að panta það, án þess að sérstakur trúnaðar- og kunnáttumaður sé fenginn til að velja það. Það kvað og vera miklum vandkvæðum bundið að búa efnið rétt í hendur skipasmiðanna. Á Norðurlöndum er gömul og mikil þekking á þessum efnum. Þar eru felld skógartré og höggvin eftir tillögum skipasmíðanna, og efniviðurinn hagnýttur sem allra bezt. En annars staðar er algengt, þegar efni er fellt til skipasmíða, að mikið af því fari til spillis og verði því dýrara en ef það er sagað niður eftir fyrirsögn skipasmiðsins. Það er tiltölulega ekki mikill kostnaðarauki, þegar um svo mörg skip og mikinn efnivið er að ræða, þó að einn maður sé sendur til Ameríku.

Ég er enginn kunnáttumaður, og till. er því ekki flutt af mér sem kunnáttumanni, en mér er ljóst, að skipastóllinn íslenzki er undirstaðan að bjargráðum þjóðarinnar, og að hann er að ganga út sér og mun gera það, svo að til vandræða horfir, ef ekkert verður aðhafzt.

Hæstv. forseti hefur ákveðið tvær umr. um þetta mál svo sem rétt er, því að það hefur í för með sér fjárútlát. Mér finnst því eðlilegast, að till. fari til n., og þá helzt fjvn.