25.03.1941
Sameinað þing: 6. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í D-deild Alþingistíðinda. (3459)

59. mál, efni til skipasmíða og smíðastöð

*Einar Olgeirsson:

Út af því, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði, vil ég taka það fram, að vitanlega er í till. aðeins gert ráð fyrir því, að ríkisstj. sjái um, að á þessu verði, byrjað. Að sjálfsögðu er það tilgangur till., að ríkisstj. sjái um, að þessi innflutningur og síðan smíði á skipum verði í höndum þeirra manna, sem reka þessa hluti hér á landi. En auðvitað gæti svo farið, að enginn fengist til þess að verða innflytjandi að þessu efni né eigandi, þó ólíklegt megi teljast, og ræki þá að því, að ríkisstj. sjálf flytti efni til landsins. En ég held, að ekki þurfi að gera ráð fyrir því, að ekki mundu fást menn til þess að kaupa efni til þessara hluta, ef til kemur. Ég tel, að ríkið þyrfti þess vegna sjálft að koma sér upp skipasmíðastöð og byggja skip. Það, virðist ekki vera það almennt nú hér á landi, að það vanti kaupendur að vörum, sem fluttar eru inn. Það er a. m. k. áreiðanlegt, að þeir menn, sem hafa gert það að atvinnu sinni að byggja skip, mundu ekki kjósa, að ríkið setti upp skipasmíðastöð og færi að smíða skip. Ég held þess vegna, að það verði að vera á valdi ríkisstj. og undir hennar forsjá, hvernig hún kemur þessu fyrir, hvort hún reynir fyrst þá leið, að fá einstaklinga til þess að gera kaup á þessu efni og byggja þar af leiðandi skipin. En því aðeins mun hún fara að setja upp skipasmíðastöð, að engir fáist til þess aðrir. En ég vil endurtaka það, að ég sé ekki, að það þýði að knýja á aðrar dyr en ríkisins til þess að koma þessu í framkvæmd. Það er ofviða fyrir einstaklinga að gera þetta í einu lagi, og það er líka mikill styrkur að mínu áliti, að ríkisstj. sé þar aðili heldur en að láta einstaklinga brjótast í því.