25.03.1941
Sameinað þing: 6. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í D-deild Alþingistíðinda. (3460)

59. mál, efni til skipasmíða og smíðastöð

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Ég lít þannig á þessa tillögu, að aðalefni hennar sé að skora á ríkisstj. að greiða fyrir því, að mönnum gefist kostur á að flytja inn vörur þær, sem till. fjallar um, þar eð eftirspurn eftir þeim sé mikil, og hins vegar sé engan veginn útilokað, að ef einstaklingar ekki kaupi, þá gangi ríkið þar á milli. Þetta atriði álít ég rétt að athuga sérstaklega í þeirri nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar. Ég geri ráð fyrir, að ríkisstj. hafi engu minni áhuga en hv. flm. till. fyrir því, að fluttar verði inn í landið vörur þær, sem till. greinir, ef eftirspurn er eftir þeim. Hitt er annað mál, eins og ég hef áður komið inn á, að á þessu geta verið miklir erfiðleikar og ef til vill óyfirstíganlegir. Ef þessar vörur fást ekki í Englandi, sem er meira en vafamál, þá verður það í fyrsta lagi undir samningum við Breta komið, hvort unnt verður að fá frjálsan gjaldeyri frá Bretlandi, sem þarf til þess að greiða vörur þessar með, og það skal náttúrlega engu spáð um það, hvernig það mundi takast, en það getur orðið miklum erfiðleikum bundið. Þá vil ég vekja athygli á öðru, sem sé því, að jafnvel þótt sá gjaldeyrir fengist, þá eru erfiðleikar á að fá flutt til landsins, og gæti þá farið svo, að engin leið væri að leysa það atriði málsins. Í því sambandi vil ég sérstaklega benda á það hér, að frá því að styrjöldin hófst hefur það verið fyrirætlun ríkisstj. og ýmissa innflytjenda að reyna að koma okkur upp birgðum af þungavöru, og hafa talsverðar tilraunir verið gerðar í þá átt. Að vísu eru til meiri birgðir af þeim en venjulega er, og má því segja, að þetta hafi að nokkru leyti tekizt. Að ekki hefur tekizt að safna þeim birgðum, sem ríkisstj. eða innflytjendur væru ánægðir með, er ekki vegna gjaldeyrisskorts til að greiða vöruna með, heldur eru það erfiðleikarnir á að flytja vöruna, sem eru þess valdandi. Auk þess hafa verið gerðar tilraunir til þess að fá leigð aukaskip til flutninga, en það hefur ekki tekizt nema endrum og eins. Og ástandið er þannig, að núna liggja vörur, sem búið er að festa kaup á bæði vestur í Ameríku og í Bretlandi og bíða eftir heimflutningi, og hefur þá orðið að raða niður í skipin í samráði við stj. og taka það, sem mest á liggur. Á þessu má sjá, að miklir erfiðleikar eru í sambandi við þetta mál, — þó ber ekki að skilja, að ég telji ekki fulla ástæðu til að athuga þetta mál. Og mætti gefa nefndinni fyllri upplýsingar en gefnar eru á þessu stigi málsins. Að lokum vil ég gera þá brtt. við till. hv. flm. og vona, að hann geti fallizt á hana, að þessu máli verði vísað til allshn., en ekki fjvn., því ég skil hana ekki sem fjárveitingu úr ríkissjóði, og væri rétt samkv. eðli málsins, að hún færi til allshn. Auk þess hefur fjvn. miklum störfum að gegna, en allshn. ekki svo miklum, að hún geti ekki sinnt þessu máli.