09.05.1941
Sameinað þing: 14. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í D-deild Alþingistíðinda. (3469)

59. mál, efni til skipasmíða og smíðastöð

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) Ég hef ekkert á móti því, að þáltill. verði samþ. í því formi, sem n. gerir ráð fyrir.

Ég ætla að ræða um horfurnar á því, að framkvæmd geti átt sér stað á því, sem í háltill. greinir, til þess að menn verði ekki fyrir vonbrigðum síðar út af þessum efnum.

Ég vil fyrst taka það fram, að það hefur undanfarið verið reynt að koma því svo fyrir, að til landsins væri jafnan flutt efni til bátasmíði eftir því, sem föng hafa staðið til, til þess að smíða nýja báta og gera við eldri báta og skip. Það hafa verið tveir örðugleikar á þessu. Annar, að samninga hefur þurft við stj. Bretlands um dollaragreiðslu í því sambandi, og hinn örðugleikinn er að fá efni flutt til landsins, en vegna örðugleika á flutningaskipum hefur verið ætlað lítið rúm fyrir þetta efni í þeim, en var flutt svo lengi sem menn töldu þess nokkurn kost. Og ef þess er nokkur kostur, verðum við að halda áfram að flytja inn timbur, eins og við þorum vegna nauðsynlegs flutnings matvæla. Það eru þrír eða fjórir farmar af timbri keyptir vestan hafs, og er ekki hægt að segja um hvenær hægt verður að flytja þá hingað. En hér á landi er mesti timburskortur til almennra þarfa. En ríkisstj. er legið á hálsi fyrir það að láta flytja hingað timbur á meðan ekki er meira til af matvælum í landinu en nú hefur verið. Þó að við gætum fengið gjaldeyri til þess að kaupa þetta efni, eru litlar líkur til þess að hægt verði að flytja það til landsins. Ég hef ekkert á móti því, að Alþ. láti í ljós vilja sinn til ríkisstj. um að hún geri það, sem í hennar valdi stendur, til þess að kaupa timbur og flytja inn, ef ástæður verða fyrir hendi.