14.05.1941
Neðri deild: 59. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í D-deild Alþingistíðinda. (3476)

125. mál, vegavinna

*Flm. (Gísli Guðmundsson) :

Við hv. þm. Barð. höfum leyft okkur að flytja till. til þál. á þskj. 258. Áður en ég fer út í efni hennar, vil ég skjóta því til hæstv. forseta, að vegna þess, hve langt er síðan till. var lögð fram, geri ég ráð fyrir, að þurfi að breyta fyrirsögn hennar að einu leyti, þannig að í stað orðanna „næsta sumar“ komi: í sumar.

Það er nú svo, að víðsvegar um landið hefur Það oft komið sér nokkuð illa, að unnið hefur verið í vegum. Þeir, sem heima eiga í sveitunum, eiga oft erfitt með að stunda vegavinnu á þessum tíma. Þess vegna hafa það verið almennar óskir manna í sveitunum, að þessari vinnu sé komið þannig fyrir, eftir því sem hægt er, að ekki sé unnið að henni yfir sumarið, heldur vor og haust. Nú skal ég ekki gera það hér að almennu umræðuefni, hvernig þessari vinnu hefur verið fyrir komið, en hún mun aðallega hafa verið stunduð á sumrin upp á síðkastið. Nú er það kunnugt, að yfir sumartímann hefur mjög skort vinnuafl í sveitunum, og hefur ýmis undirbúningur og ráðstafanir verið gerðar til þess að bæta úr þessum erfiðleikum bænda. En okkur flm. þessarar till. sýnist, að hæstv. ríkisstjórn beri að sjá svo um, að sú vinna, sem undir hana heyrir, sé framkvæmd á þeim tíma, sem minnstar líkur eru til, að hún dragi vinnuaflið úr sveitunum. Þess vegna er þessi þáltill. fram komin. Ég tel ekki þörf lengri framsögu fyrir málinu og vænti þess, að hv. d. samþ. till.