15.05.1941
Sameinað þing: 16. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í D-deild Alþingistíðinda. (3493)

153. mál, frestun alþingiskosninga

Forseti (HG) :

Áður en málið er tekið fyrir, vil ég taka þetta fram:

Samkv. 26. gr. stjórnarskrárinnar skulu þingmenn kosnir til 4 ára. Kjörtímabil núverandi þingmanna er útrunnið á þessu sumri, og kosningar nýrra þingmanna eiga fram að fara síðasta sunnudag í júnímánuði næstkomandi samkv. kosningalögum.

Tillaga sú, er hér liggur fyrir, er um frestun almennra alþingiskosninga. og framlengingu núverandi kjörtímabils. Tillagan fer því í bága við nefnd ákvæði stjórnarskrár og kosningalaga. Kemur því til forseta að kveða á um, hvort heimilt sé að taka tillöguna fyrir til afgreiðslu.

Það er viðurkennd réttarregla, að nauðsyn sé lögum ríkari. Kemur því til athugunar, hvort slík nauðsyn sé fyrir hendi að því er snertir frestun kosninga, eða hvort kosningar geti farið fram á lögákveðnum tíma á. venjulegan, eðlilegan hátt og í samræmi við anda og tilgang stjórnarskrár og kosningalaga.

Enginn veit, hvernig hér verður ástatt í lok júnímánaðar næsta. En herlið annars aðila ófriðarins hefur nú setu í landinu, og hinn hefur lýst yfir því, að landið sé á hernaðarsvæðinu og lagt bann við siglingum að því og frá því og hótað að tortíma þeim, er freista að hafa bannið að engu. Og dýrkeypt reynsla sýnir, að ekki hefur verið látið við hótanir einar sitja að því er siglingar snertir.

Veigamikil rök þykja hníga að því, að til alvarlegra hernaðarátaka kunni að draga hér eða í nánd áður en langt um líður. Stjórnarvöld ríkis og bæja hafa þegar, af ótta við slíkar aðgerðir, hafið framkvæmdir til þess að flytja konur og börn burtu úr þeim bæjum, þar sem hættan er talin mest, og sveitir manna eru æfðar til að draga úr tjóni af völdum loftárása og hjúkra særðu fólki.

Allt þetta, sem hér hefur verið talið, ásamt fullkominni óvissu um, hvað framundan er, hlýtur að valda stórfelldri röskun á lífi og háttum þjóðarinnar og torvelda mjög, að kosningar geti orðið undirbúnar og farið fram með eðlilegum hætti og samkvæmt anda og tilgangi stjórnarskrárinnar.

Í stjórnarskrá íslenzka ríkisins eru engin ákvæði um, hversu skuli til haga, ef erlendur her situr í landinu og það er innan yfirlýsts hernaðarsvæðis. Kemur því til Alþingis að ákveða, hvað gera skuli, þegar svo er ástatt sem nú er. Það verður að meta, hvort þær ástæður séu fyrir hendi, að nauðsyn beri til að víkja um stund frá ákvæðum stjórnarskrár og kosningalaga og fresta alþingiskosningum.

Alþingi verður að skera úr um það, hvort nauðsyn sé í þessu efni ríkari en lagafyrirmælin. Verði tillagan samþykkt, ber dómstólum landsins síðar, ef gerðir Alþingis, er situr samkv. tillögunni, eru véfengdar og til dómstólanna er leitað, að leggja dóm á það, hvort lengra sé gengið en heimilt verður að teljast og nauðsyn krefur. En mat Alþingis á nauðsyninni getur aðeins komið fram við atkvæðagreiðslu um tillöguna, og tel ég því rétt að taka hana fyrir til umræðu og afgreiðslu.