15.05.1941
Sameinað þing: 16. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í D-deild Alþingistíðinda. (3494)

153. mál, frestun alþingiskosninga

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Þessi þáltill. sem hér liggur fyrir, um frestun almennra kosninga, hún ber nú sjálf með sér í aðalatriðum, hvers vegna hún er borin fram, og ég tel það ekki mestu máli skipta, hvorki fyrir nútíð eða framtíð, að fara um þessa frestun mörgum orðum, heldur skipti hitt mestu máli, að hér sé gert rétt. Ísland er hernumið land, og það er hernumið af öðrum styrjaldaraðilanum í hinni ægilegustu styrjöld, sem geisað hefur. Landið hefur af hinum styrjaldaraðilanum. verið lýst á ófriðarsvæði og í siglingabann, og það með þeim afleiðingum, sem við höfum þegar orðið að reyna að nokkru á sorglegan hátt. Við höfum seinustu vikurnar séð það, hvernig hringur ófriðarblikunnar hefur þrengzt um okkar land og það svo að segja dag frá degi. Við vitum það samkvæmt yfirlýsingum beggja styrjaldaraðila, að orustan um Atlantshaf er einn meginþáttur þeirrar styrjaldar, sem nú er háð, og við vitum það jafnframt, að mitt í þessu úthafi liggur sú eyja, sem við byggjum. Það fer heldur ekki fram hjá okkur, og það er ekki leyndarmál fyrir neinum manni, sem byggir þetta land, að undirbúningur þess hers, sem hernumið hefur landið, til hernaðaraðgerða hér verður með vaxandi hraða og í stöðugt stærri stíl. Við vitum það, að í þetta eru lagðir slíkir fjármunir, að það er ekki gert tilgangslaust, enda hefur því beinlínis verið lýst yfir í útvarpi frá öðrum hernaðaraðilanum, þeim, sem hernámið hefur framkvæmt, að áformað sé að flytja hingað meðal annars flugvélar vestan yfir haf og nota þetta eyland sem viðkomustað. Það fer heldur ekki fram hjá okkur, að Bandaríkin hafa sent hingað herskip, og við þykjumst geta ráðið þá gátu og hún sé næsta auðráðin, að það sé einn hlekkur í hinni sömu keðju, að það séu átökin um Atlantshafið, sem því valda, að þessi herskip eru flutt hingað. Ríkisstj. telur, að það muni vera ljóst meginþorra allra Íslendinga, að óvissan um framtíðina, óvissan um næsta dag er svo mikil og geigvænleg, að það sé ekki fært að kasta þjóðinni út í kosningar. En það, að horfurnar virðast ískyggilegri svo að segja með hverjum degi, sem líður, er þó ekki það eina, sem úrslitum veldur um ákvörðun ríkisstj. Hernámið og þær aðstæður, sem það og styrjöldin hafa valdið í landinu nú þegar, er ekki síður ráðandi um þessa ákvörðun. Ég held, að þær þjóðir, sem hernám hafa reynt, geri sér þess ljósari grein en við ef til vill höfum gert í upphafi, hvaða áhrif hernám óumflýjanlega hefur á þjóðlíf þeirrar þjóðar, sem hernumin er. Sumar þjóðir leggja því svo fyrir í sinni stjskr., að kosningar megi ekki fara fram, ef landið er hernumið. Við sjáum það, að áhrif hernámsins á þjóðlíf okkar eru mikil og víðtæk og hafa á marga lund raskað því og gert það óeðlilegt. Það er auðsætt mál, að hernám styrjaldaraðila, hversu nærgætnislega sem það er framkvæmt, hlýtur að hafa þessi áhrif og því meir sem hernaðaraðgerðir frá landinu aukast og hættan á mótaðgerðum vex. Því að til þess að tryggja öryggi sitt og landsmanna, getum við vel sagt, verður herinn að gera auknar öryggisráðstafanir, sem þýðir vaxandi truflun á þjóðlíf hinnar hernumdu þjóðar. Alþ. hefur nýlega mótmælt einni af slíkum ráðstöfunum, en við höfum, án þess að það þýði um það að fást, orðið að una því, að ekki fá, heldur mörg af meginatriðum stjskr. okkar hafa orðið að víkja eða hvílast um stund, hvort sem maður vill heldur segja, fyrir hernaðarlegri nauðsyn hins erlenda hers.

Það má, fljótt á litið, segja, að þetta séu ekki rök fyrir því, að víkja eigi frá fleiri ákvæðum stjórnarskrárinnar með því að fresta kosningum. En þó er þessu þannig háttað vegna þess, að því óeðlilegra, sem ástandið verður í landinu, því fráleitara verður það að ætla sér að láta kosningar fara fram. Kosningar til þess að fullnægja lýðræðinu — og til þess eru þær — geta ekki farið fram undir alveg ólýðræðislegu ástandi í hernumdu landi og á ófriðarsvæði. Slíkar kosningar fullnægja ekki lýðræðinu, heldur formi þess einu. Þær eru hismið, en ekki kjarninn, og geta hæglega orðið eitthvað allt annað en sú mynd af þjóðarviljanum, sem eðlilegar og lýðræðislegar kosningar hefðu sýnt. Og því eru þess, að ég hygg, fá dæmi, ef þau annars eru til, að almennar kosningar hafi farið fram í landi, sem hernumið er af styrjaldaraðila og er á átakasvæði styrjaldarinnar.

Ég hef heyrt suma menn segja sem svo, að það væri alveg sjálfsagt að fresta kosningum, ef stjórnarskrá okkar gerði ráð fyrir því, eins og stjórnarskrár ýmissa ríkja gera. En í stjórnarskrá okkar er ekki ráð fyrir þessu gert. —- Og ég hygg meira að segja, að ekki væri efi hjá neinum, svo sem málum er nú komið, um frestun kosninga, ef stjórnarskráin heimilaði það. En þá skulu menn gæta þess: Ef stjórnarskrárgjafanum, sem er Alþingi, hefur á sínum tíma yfirsézt í því að gera ráð fyrir þessu, sem nú hefur yfir okkur gengið, og þess vegna ekki sett ákvæði í stjórnarskrána, er við eiga, þ. e. a. s. um frestun kosninga, hvers vegna skyldi þá ekki Alþingi, sem nú situr, ákveða að láta hin bundnu fyrirmæli um kosningar á fjögurra ára fresti hvílast eða víkja um stund, þegar það er slík nauðsyn sem nú er, þótt ekki sé unnt að framkvæma þessa ákvörðun í því formi, að samþykktir séu gerðar um hana á tveimur þingum og kosningar fari fram milli þeirra þinga? — Við höfum og jafnframt íhugað það, að það, sem Alþingi gerði með því að samþykkja þessa ályktun um frestun kosninga og framlenging kjörtímabilsins samkvæmt því, skapar fyrir seinni tímann mjög bundið og takmarkað fordæmi. Til þess að seinni tíminn geti notað þessa ákvörðun Alþingis sem fordæmi, þarf að vera fyrir hendi, að landið sé hernumið. Og það er ekki nóg. Það þarf að vera hernumið af styrjaldaraðila, — og það nægir ekki heldur. Það þarf að hafa verið lýst í siglingabann og á ófriðarsvæði. Við vonum það vissulega öll, að þau örlög bíði ekki þjóðarinnar á næstu áratugum. En mér er nær að halda, að þegar við fáum nægilega frjálst svigrúm til þess að setja okkur nýja stjórnarskrá, muni okkur, eins og frændum okkar Norðmönnum, þykja skynsamlegt að hafa ákvæði í stjórnarskránni lík ákvæðum stjórnarskrár þeirra, um að fresta skuli kosningum, þegar og ef slíkt dynur yfir þjóðina sem nú er.

Við viljum öll halda okkar stjórnarskrá í heiðri, og ekki er okkur alþingismönnum það sízt ljóst, sem höfum unnið eið að stjórnarskránni. En ég held þó, að okkur verði aldrei láð Það með réttu, að við fylgdum þeirri reglu, sem alls staðar er viðurkennd, og það er, að brýn nauðsyn víkur lögunum til hliðar um stund.

Samkvæmt 1. gr. stjórnarskrárinnar er það grundvallaratriðið í stjórnarskipun okkar, að hér er þingbundin konungsstjórn. Þingmenn gátu sagt það í fyrra, þegar útlit var fyrir, að konungur gæti ekki eða ætti erfitt með að gegna skyldum sínum sem konungur, að þeir hefðu unnið eið að stjórnarskránni og vildu þess vegna ekki taka á sig þá ábyrgð að taka konungsvaldið og afhenda það ráðherrunum. En þingmenn tóku samt á sig þessa ábyrgð, vegna þess að þeir vissu, að brýn nauðsyn þjóðarinnar var æðri ákvæðum stjórnarskrárinnar, og ég hygg, að flestir kjósendur í landinu séu sammála um réttmæti þessarar ákvörðunar. Konungur kallar ekki saman Alþingi, staðfestir ekki lög, slítur ekki Alþingi o. s. frv., þótt svo sé fyrir mælt í stjórnarskrá landsins. Ég held, að fáir séu í vafa um, að þingmenn gerðu rétt, er þeir vikust ekki undan þessari ábyrgð.

Við höfum gert milliríkjasamning, sambandssáttmálann, við Danmörku. Samkvæmt þessum samningi, sem jafnframt er lög, samþykkt á Alþingi, fara Danir með utanríkismál okkar. Við hikuðum ekki við það á Alþingi fyrir rúmu ári síðan að víkja þessum lögum til hliðar fyrir brýnni nauðsyn. Þessi lög hafa ekki verið formlega úr gildi felld, — en það hefur verið gengið fram hjá þeim, vegna þess að það var nauðsynlegt, og ég hygg, að sérhver Íslendingur telji það rétt að láta ekki aðrar þjóðir fara með utanríkismál okkar á þessum tímum, þótt um það séu ákvæði í lögum, og við höfum ekki einu sinni léð því hugsun, svo löglegar og eðlilegar höfum við talið og teljum þessar samþykktir Alþingis, að dómstólarnir dæmdu ekki samkvæmt þeim lögum, sem eru staðfest af ráðuneyti Íslands, en ekki af konungi, svo sem stjórnarskráin ákveður, og við erum ekki í vafa um, að það Alþingi sé löglegt og þau lög fullgild, sem það afgreiðir, þótt það sé ekki kallað saman af konungi, svo sem stjórnarskráin einnig kveður á um. Og það hefur verið dæmt eftir þessum lögum sem jafngildum öðrum lögum landsins. Það orkar ekki tvímælis, að þær ráðstafanir, sem utanríkisráðherrann gerir, eru löglegar og bindandi, þótt það standi enn í lögum frá Alþingi, að aðrir séu þar réttir aðilar. Nákvæmlega á sama hátt og af sömu forsendum verða þau lög jafngild öðrum lögum, sem Alþingi setur eftir 29. júní n. k. og ráðuneyti Íslands eða ríkisstjóri Íslands staðfestir.

Ríkisstjórnin veit, að þannig hefur verið og er litið á málið af dómstólunum. Það er samkvæmt venju, sem alls staðar gildir, að nauðsyn víkur lagabókstaf til hliðar. Og ég fullyrði það, að nauðsynin til þess að fresta kosningum nú, eins og högum er háttað, sé ekki síður brýn en þegar við tókum konungsvaldið og utanríkismálin í okkar hendur, — enda er það Alþingis að meta þá nauðsyn.

Vitanlega var það í bráðina þægilegra og ábyrgðarminna fyrir alþingismenn, hefðu þeir sagt sem svo: Við víkjum þessum vanda frá okkur til þjóðarinnar og efnum til kosninga, til hvers, sem það annars kann að leiða. Fyrir þingmenn var líka mannlegt að hafa það í huga, að flokkur þeirra kynni að hafa góða kosningaaðstöðu. Fyrir þá var auðveldast að hugsa sem svo: Við viljum ekki láta kjósendur geta sagt, að við höfum svipt þá kosningarréttinum, þótt ekki sé nema um stund. — Við viljum ekki láta þá, sem kynnu að vera óánægðir eða vilja nota aðstæðurnar, geta alið á því, að þingmennirnir hafi kjörið sig sjálfir og hafi ekkert umboð frá þjóðinni, og geta svo vænzt þess, að eftir eitt ár eða svo yrðu þessar ákvarðanir notaðar gegn þeim í harðsnúinni kosningabaráttu. Við erum vissulega flestir svo vanir kosningabaráttu, að okkur er það fyrirfram fullljóst, að á þessu er auðvelt að ala: Öll rök mæla með því frá persónulegu sjónarmiði alþingismanna að láta kosningar fara fram. En þingmenn hafa þrátt fyrir það flestallir ekki hikað við að taka á sig ábyrgðina og þá skyldu að láta brýna nauðsyn sitja í fyrirrúmi fyrir öðrum tillitum. Og það gera þeir í trausti þess, að velflestir kjósendur

meti rétt þörf þessarar ráðstöfunar og séu eða verði henni samþykkir.

Við horfumst í augu við þá staðreynd, og við skiljum hana, að lífið sjálft tekur ekki alltaf tillit til lagasetningar, heldur setur sín eigin lög, — og það hefur sett slík lög um líf þessarar þjóðar um skeið.

Þegar svo er komið, er réttara og farsælla fyrir þjóðina að hlýða þeim lögum, jafnvel þótt ákvæði stjórnarskrárinnar verði að hvíla sig um stund. Fyrir því hefur ríkisstj. borið fram þessa till. til þál., sem ég vænti, að hv. Alþ. fallist á.