15.05.1941
Sameinað þing: 16. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í D-deild Alþingistíðinda. (3495)

153. mál, frestun alþingiskosninga

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti! Hv. þm. munu hafa veitt því athygli, að við þm. Sósíalistafl. greiddum atkvæði gegn því, að afbrigði yrðu veitt fyrir þessu máli. Það er alveg óvenjulegt, að neitað sé um afbrigði, og verð ég því að skýra það nokkru nánar. Ástæðan fyrir neitun okkar þm. Sósíalistafl. er sú, að við álítum, að ekki sé heimilt að bera þá þáltill., sem hér liggur fyrir, fram fyrir háttvirt Alþingi. — Ég man ekki betur en að þegar við komum hér fyrir fjórum árum, værum við látnir vinna eið að stjórnarskránni. Ég vil nú minna hæstv. forseta á þennan eið. Ef hann vill halda þennan eið, hefur hann engan rétt til að taka þetta mál fyrir, því að Alþ. getur ekki undir neinum kringumstæðum tekið fyrir eða greitt atkv. um þáltill., sem brýtur í bág við það, sem er þungamiðja stjórnarskrár Íslands, og að þessi þáltill. brjóti í bág við stjórnarskrána, er viðurkennt af öllum.

Það er að vísu rétt, sem hæstv. forsrh. sagði áðan, að nauðsyn brýtur lög, og aðra frambærilega ástæðu fyrir slíkum aðgerðum sem þeim að bera fram þáltill., er afnemur grundvallaratriði stjórnarskrárinnar, er ekki hægt að finna, en þá verður líka að finna þeim orðum stað, að slík nauðsyn sé fyrir hendi. Það verður með öðrum orðum að færa sönnur á, að ekki sé unnt að framkvæma stjórnarskrána.

Í þessari þáltill. og í ræðu hæstv. forsrh. eru talin nokkur atriði sem rök fyrir þáltill., svo sem að það sé siglingahætta á leið til Englands, að það sé loftárásahætta og framtíðin í fullkominni óvissu: — Slík rök er ekki hægt að taka til greina, — þetta eru engin rök. — Siglingahættan til Englands getur ekki hindrað okkur í að hafa kosningar. Á meðan loftárásahættan er ekki meiri en svo, að leyfðar séu opinberar skemmtanir, geta það ekki talizt rök fyrir frestun almennra kosninga. Óviss framtíð getur ekki talizt rök fyrir því, að ekki beri að hafa kosningar, eða er nokkuð auðveldara fyrir þá stjórn, er nú situr að völdum í landinu, að stjórna í framtíðinni undir slíkum kringumstæðum en aðra stjórn, sem er löglega kosin eftir réttum reglum stjórnarskrárinnar?

Það er margsinnis viðurkennt af öllum flokkum, að frestun kosninga væri hreint stjórnlagabrot, hreint valdarán. Það hefur heldur enginn borið brigður á, að ef ekki fari fram kosningar á löglegum tíma, verði ekkert löglegt þing og engin lögleg stjórn í þessu landi eftir 29. júní n. k. — Allt, sem slíkt þing samþykkti, er lögleysa og markleysa ein og að engu hafandi, og stjórn, sem styðst við slíkt draugaþing, er ekkert annað en flokkur valdaránsmanna, sem þegnarnir hafa engar skyldur við. Verði þingkosningum frestað, gilda hvorki lög né réttur í landinu, hnefarétturinn verður einn í gildi, þar til löglegar kosningar hafa farið fram. Allir viðurkenna þetta í meginatriðum, málið er svo augljóst. — Og þó virðist meiri hluti hv. þm. vera því fylgjandi að afnema þingræðið og hrifsa völdin til sín á þann hátt, sem hér er farið fram á, og munu þó fáir þingmenn um víða veröld hafa gasprað meira um þingræði og lýðræði en þeir, sem sitja hér á hv. Alþingi. — Í orði kveðnu hafa allir viðurkennt hingað til, að ekki komi til mála að grípa til slíkra ráðstafana sem þeirra, er farið er fram á í þáltill., nema því aðeins, að landsmenn séu beinlínis hindraðir í að láta kosningar fara fram.

Þá er að athuga: Er ástandið virkilega þannig, að landsmenn geti ekki kosið? Við skulum nú athuga það nokkru nánar.

Það er satt, að við þær kosningar, sem nú mundu fram fara, yrði ekki um viðunandi lýðræði að ræða, Þar sem Sósíalistaflokkurinn hefur verið sviptur ritfrelsi og blað hans bannað. Og málfrelsi verður áreiðanlega mjög takmarkað. — Það er jafnvel talað um, að ekki muni leyft að tala í útvarpið, nema ræður manna verði ritskoðaðar. — Að hve miklu leyti brezka herstjórnin á sök á þessum takmörkunum og að hve miklu leyti það er sök ríkisstj. Íslands, er ekki unnt að segja, svo náið er sambandið þar á milli.

En hafa þá þær kosningar, sem fram hafa farið í þessu landi, verið svo sérstaklega lýðræðislegar? Þegar nánar er að gætt, er heldur mjótt á mununum um þær kosningar og kosningar, sem fara mundu fram undir núverandi skilyrðum. — Það væri auðvelt fyrir Sósíalistaflokkinn að vinna á skömmum tíma mikinn hluta þjóðarinnar til fylgis við sig, ef hann hefði hundruðum þúsunda eða milljónum króna yfir að ráða eins og hinir flokkarnir. Við hverjar kosningar henda yfirstéttaflokkarnir hundruðum þúsunda króna í áróður. Kynstur af blöðum og ritlingum eru send á hvert einasta heimili í landinu. Í Þúsundatali hafa þessir flokkar menn á launum til þess að hafa vörð um svo að segja hverja einustu sál. Yfirráð atvinnutækjanna eru notuð til þess að byggja upp svo fullkomið mútukerfi, að það er hrein völundarsmíð. — Þar hafa Íslendingar komizt lengst í skipulagningu. Á undanförnum árum hafa þúsundum íslenzkra verkamanna verið settir tveir kostir: Að hætta að hugsa eða að hætta að borða, það er: Þeim hefur verið gert að fylgja matgjafa sínum að málum eða standa ella uppi allslausir með sitt skyldulið. Þetta eru staðreyndir, sem allir þm. vita.

Hins vegar hafa áróðurstæki verkalýðsflokksins verið af svo skornum skammti, að það var fyrst við síðustu kosningar sem Kommúnistafl. hafði yfir litlu, fátæklegu dagblaði að ráða. Foringjar hans hafa verið hundeltir bæði atvinnulega og stundum líka af dómstólunum. Aðeins örfáum mönnum innan Sósíalistaflokksins hefur verið gert kleift fyrir fórnfúsan styrk félaganna að beita sér að nokkru ráði fyrir flokk sinn og stefnu. — Um verulegan kosningaundirbúning af hálfu verkalýðsflokksins hefur ekki verið að ræða í mörgum kjördæmum, — flokkurinn og frambjóðendur hans hafa ekki verið svo stæðir, að tök væru á því.

Nú eru sumir andstæðingar okkar allt í einu búnir að uppgötva, að lýðræðislegar kosningar geti ekki farið fram, þar sem Sósíalistaflokkurinn hafi verið sviptur málgagni sínu. — Þetta er gleðilegt, og ég efast ekki um, að réttlát gremja yfir aðförum brezku herstjórnarinnar gegn íslenzkum þegnum hafi opnað augu manna fyrir ýmsu ranglæti, sem þeir hafa ekki áður veitt athygli. Það er rétt að minna á, að það hafa farið fram kosningar, sem t. d. Kommúnistaflokkurinn tók þátt í, án þess að hafa annað Málgagn en eitt örlítið vikublað, og þessir menn ættu að minnast þess, að síðan íslenzk stjórnmál urðu fyrst og fremst barátta milli stétta, hafa aldrei farið fram kosningar, sem voru lýðræðislegar í þeim skilningi, að báðir aðilar stæðu jafnt að vígi. Á Íslandi hefur ríkt og ríkir enn stéttareinræði, hvað sem öllum sýndarformum lýðræðisins líður.

Nú er það svo, að Sósíalistafl. þarf allra flokka sízt að óttast kosningar núna, enda þótt hann hafi ekkert málgagn. Hann á það víst að koma út úr kosningum, sem haldnar yrðu á venjulegum tíma,. sem margfalt stærri og sterkari flokkur en áður. Þegar á þetta er litið, er það því ærið afkáralegt að ætla að bæta Sósíalistafl. blaðmissinn með því að svipta hann rétti til þess að bæta við sig þingmönnum fyrir næsta kjörtímabil.

Það er kunnugt, að Alþfl. og sá hluti Framsfl., sem næst stendur formanni þess flokks og ræður yfir Tímanum, hefur krafizt þess, að Sósíalistafl. og blað hans, Þjóðviljinn, yrði bannað. Nú vil ég spyrja: Var þessi krafa borin fram í þeim tilgangi, að bannið mætti síðar nota sem röksemd fyrir því að fresta kosningunum? Var hún um leið krafa um, að þingræðið skyldi afnumið?

Ég get ekki skilið, að þessir menn geti notað bannið á Þjóðviljanum sem röksemd fyrir frestun kosninga, — og þeir munu heldur ekki gera það. En hvaða rök hafa þeir þá? — Hvaða rök? Ég álít, að þau rök, sem hér hafa verið borin fram, séu engin rök, eins og ég hef leitazt við að sýna fram á. Þessir menn hafa leitað að rökum í margar vikur, — en þeir hafa engin fundið, því að það tekur enginn mark á slíkum slagorðum sem þeim, að við séum í hernumdu landi, tímarnir séu breytilegir, allt á hverfanda hveli o. s. frv. — Eins og það sé ekki því meiri nauðsyn á því, að fólkið fái að kjósa og hafa almennilegt þing og stjórn, því breytilegri og erfiðari sem tímarnir eru! — Það liggur í augum uppi!

Loks héldu þeir lokaðan þingmannafund með hinum ábyrgu og létu berast út af þeim fundi, að þar hefðu komið fram svo mikilvæg rök fyrir nauðsyn þess að fresta kosningum, að tekið hefði af öll tvímæli, svo að þeir, sem áður voru á móti kosningafrestuninni, hefðu snúizt fyrir þunga þeirra raka. En þessi rök mátti bara enginn heyra, nema þeir ábyrgu, og rökin eru ekki komin fram enn. Þetta var þrautalendingin, en það dugði skammt. — Á Alþ. spurðist einn þm. fyrir um, hver þessi rök væru, og fékk þau svör, að ég hygg hjá hæstv. utanríkismrh., að engin ný rök hefðu komið fram á þessum fundi.

Nú mætti ætla, að þeir þm., sem mest hneyksluðust yfir atferli brezku herstjórnarinnar gagnvart Sósíalistaflokknum, vildu nú stuðla að því, að flokkurinn fengi sem rýmst málfrelsi. En hvað skeður þá? Flokkurinn fór fram á, að útvarpsumræður yrðu hafðar um fjárl., eins og lög standa til, en því var synjað. Og bréfi til ríkisstj., þar sem þess er æskt, að hún grennslist eftir því, á hvaða grundvelli flokkurinn geti gefið út málgagn, hefur ekki verið svarað. — Það er sem sé eins og hæstv. ríkisstj. þætti ekki nóg, að flokkurinn væri sviptur málgagni sínu, heldur þyrfti einnig að svipta hann því málfrelsi, sem hann á heimtingu á samkv. þingsköpum Alþingis. Það er fjarri því, að ég vilji drótta neinu að hæstv. ríkisstj., en svona framkoma verður óneitanlega til þess að styrkja þær grunsemdir manna, sem vissulega eru til, að ríkisstj. sé ofbeldi Breta gagnvart Sósíalistaflokknum ekki eins leitt og hún lætur og þyki gott að hafa strákinn í ferðinni.

Enn æskilegra væri það fyrir ríkisstj. að geta notað Breta til þess að skjóta sér undan því að hafa kosningar, því að rök fyrir frestuninni hafa enn ekki komið fram. Þau rök, sem í raun og veru liggja fyrir því, að ríkisstj. ber slíka þáltill. fram, eru þess eðlis, að ekki er hægt að skýra almenningi frá þeim. En það er hægt að renna grun í þau.

Öll pólitík þjóðstjórnarinnar hefur frá upphafi verið í beinni andstöðu við hagsmuni meiri. hluta þjóðarinnar. Auk þess virðist ríkisstj. una vel því hlutskipti að vera leppstjórn hins erlenda innrásarhers, en þjóðin vill stjórn, sem getur verið fulltrúi hennar gagnvart hinu erlenda valdi. Þjóðstjórnin veit því, að hún hefur stórtapað fylgi. Einnig er vitanlegt, að Sósíalistaflokkurinn hefur mjög aukið fylgi sitt. Enginn efast um fylgishrun Alþfl. Það má vel búast við því, að hann fengi engan þm. kosinn, ef kosningar færu fram. Í sínum eigin flokki standa formenn allra stjórnarflokkanna, allir. 3 formennirnir, sem eru uppistaðan í þjóðstjórninni, mjög völtum fótum. Pólitískt rót eins og kosningar mundi þess vegna vera mjög hættulegt fyrir þá spilaborg, sem þeir hafa hrófað upp. Í kosningahitanum gætu vel komið fram uppljóstranir, sem yrðu þannig vaxnar, að kosningarnar riðu þjóðstjórnarsamvinnunni að fullu eða a. m. k. torvelduðu hana mjög. Þá má líka geta þess, að á þessum viðsjárverðu tímum, sem við lifum á, þá tekur yfirleitt enginn mark á gullnum kosningaloforðum. Þess vegna er það alveg satt frá sjónarmiði þessarar hæstv. stjórnar, að það er ekki gott að hafa kosningar, þegar enginn veit, hvað í vændum er. En án kosningaloforða, sem hægt er að svíkja, geta þjóðstjórnarfl. ekki hugsað sér neinar kosningar. Ég vil ekki skella neinni ábyrgð á Bretana í þessu sambandi, en hitt þykir mér þó líklegt, að brezka setuliðið vilji ekki eiga neitt á hættu í kosningum, sem gætu veikt þessa leppstjórn þeirra, sem er þeim eins þægur ljár í þúfu og nokkur stjórn getur verið. Niðurstaðan verður því þessi: Sósíalistaflokkurinn álítur, að það mundi ekki koma verulega að sök, þó að kosningum yrði t. d. frestað til haustsins, ef það þætti betra. Að vísu er hæpið, að slíkt sé heimilt samkvæmt bókstaf gildandi laga, en mundi engu breyta, því að stjórnin situr hvort eð er þangað til, og vitaskuld væri ekki rétt að gera það nema mjög gildar ástæður lægju fyrir, en verði kosningum frestað um óákveðinn tíma, eins og hér er farið fram á, þá mundi Sósíalistaflokkurinn ekki viðurkenna, að til séu neinir löglegir þm. né stjórn í landinu eftir 29. júní. Núverandi hv. þm. hafa þá ekki meiri rétt til þess að gegna fulltrúastörfum fyrir þjóðina eða samþ. lög heldur en hverjir aðrir Íslendingar, og núverandi hæstv. ráðh. hafa ekki meiri rétt til þess að fara með stjórn landsins heldur en Pétur eða Páll. Allt, sem þeir gera eftir 29. júní, verður á þeirra persónulegu ábyrgð, umboðslaust frá þjóðinni.