15.05.1941
Sameinað þing: 16. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í D-deild Alþingistíðinda. (3499)

153. mál, frestun alþingiskosninga

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Það er ekki ætlun mín að svara þeim ræðum, sem hér hafa verið fluttar og eru um kosningasögu síðari ára og annað af því tagi, og þá vil ég því síður svara aðdróttunum þess efnis, að ríkisstj. hafi átt þátt í því, að Þjóðviljinn var bannaður og aðrar ráðstafanir í sambandi við það. — Ég tel slíkar aðdróttanir ekki svara verðar. Þessi þáltill. stendur engan veginn í sambandi við það að bæta Sósíalistafl. upp bannið. — Til þessarar till. liggja allt önnur rök. Ég hefði ekki farið út í að svara þessu neinu, en fyrst ég stend hér upp til að svara tveimur fyrirspurnum frá hv. þm. N.-Þ., þá vil ég einnig minnast á þau atriði, sem ég hef skrifað hér upp og snerta hið efnislega í þessari þál. Ég mun þó ekki endurtaka þau rök, sem ég færði fyrir frestun kosninga.

Það kom fram í ræðu hv. 1. landsk., að sennilega yrði hér bannað bæði ritfrelsi og málfrelsi. (BrB: Ég sagði þetta aldrei.) Ég hef aldrei fært þetta fram sem rök, en þetta eru vissulega rök, ef þau aðeins væru til staðar, því þetta eru grundvallaratriðin í kosningum. En viðvíkjandi því, sem einnig kom fram hjá hv. þm., að hér væri um valdarán að ræða, við vildum sitja sem lengst á þingi og í stjórn og við værum hræddir um lítið fylgi í kjördæmum okkar, þá get ég fullyrt, að meginþorri aðalflokkanna á Alþ. mundi áreiðanlega hafa meiri hluta hér, þó að kosningar fari fram, og valdaástæður mundu því ekki breytast, og þess vegna er orðið valdarán sagt út í bláinn.

Vitanlega er hægt að breyta um stjórn, þó að kosningar fari ekki fram.

Viðvíkjandi því, að hér sé um brot á stjórnarskrá að ræða og þingmenn hafi unnið eið að henni, þá varð að víkja frá henni í fyrra, þegar konungsvaldið var flutt inn í landið og fengið í hendur ríkisstj.Hv. 1. landsk. var til í að brjóta stjórnarskrána dálítið, svo sem eins og til haustsins, eftir því, sem mér skildist.

Önnur fyrirspurn hv. þm. N.-Þ. var um það, hvort ég gæti gefið upplýsingar um, hvort íslenzkir dómstólar og þá sérstaklega hæstiréttur mundu dæma eftir lögum, sem samþ. væru af alþm., sem hefðu umboð án kosninga. — Þessu get ég svarað ákveðið, og álits um þetta hefur þegar verið leitað, og þar kemur einmitt atriði, sem ég minntíst á áðan. Þó að vikið hafi verið frá ákvæðum stjórnarskrárinnar, þegar konungsvaldið var flutt inn í landið og fengið í hendur ríkisstj., þá hafa þau lög, sem ríkisstj. hefur undirritað, ekki verið véfengd, og dæmt hefur verið eftir þeim eins og hæstiréttur benti á, þegar hann var spurður að þessu atriði, og lét hann þá skoðun í ljós, að eins og Alþ. hefði þá vikið frá stjórnarskránni, þá mundi eins núna vera dæmt eftir lögum, sem Alþ. setur, eftir að það hefur farið eftir nauðsyn þessarar þáltill.

Því verður tvímælalaust litið á öll verk Alþ., eftir að þessi þáltill. hefur verið samþ., á sama hátt lögleg og öll lög, sem gefin hafa verið út síðan fyrir ári síðan.

Síðari fyrirspurnin er þess efnis, hvaða ástand þurfi að vera til staðar til þess að þessi till. til þál. geti talizt sem fordæmi síðar. — Þessu er auðvelt að svara, því till. ber það sjálf með sér. — Landið þyrfti að vera hernumið, og það er ekki nóg, heldur hernumið af styrjaldaraðila, og einnig þyrfti það að vera lýst á hernaðarsvæði af hinum aðila. — Þessar ástæður þurfa að vera til staðar, ef þetta yrði notað síðar sem fordæmi. — En ég vona, að til slíks komi ekki, — það er mín heitasta ósk, að við verðum svo lánsamir, að þær ástæður liggi ekki fyrir á næstu árum.