30.04.1941
Sameinað þing: 11. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1260 í B-deild Alþingistíðinda. (35)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Bergur Jónsson:

Það er réttilega tekið fram af hæstv. félmrh., að ég hef gert fyrirspurn út af mótmælum gegn hafnbannsyfirlýsingu Þjóðverja þ. 25. marz s.l. á fundi 27. marz s.l. Og sömuleiðis flutti ég þáltill. síðar, þegar ekki hafði komið nein vitneskja til Alþ. né heldur almennt um það, hvort gert hefði verið nokkuð í málinu.

Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir þær upplýsingar, sem hann nú hefur gefið Alþ. um aðgerðir ríkisstj. í þessu máli, og vil taka það fram út af þáltill. þeirri, sem ég bar fram hér á þskj. 176, — ég man ekki, hvaða dag, — að ég mun vitanlega ekki halda henni til streitu hér í þinginu á þann hátt, sem hún liggur fyrir.

Ég vil taka það fram út af því, sem komið hefur fram í ræðu hæstv. ráðh., að ég sá mér ekki fært, þegar ég leitaðist við að skilgreina þau atriði, sem rétt væri að mótmæla gagnvart þeim ófriðaraðila, sem hér er um að ræða, og því ranglæti, sem ég tel hann hafa beitt Ísland, þá taldi ég mér ekki fært að minnast á þær árásir, sem gerðar hafa verið á íslenzk skip, vegna þess, að ég taldi mér ekki fært að sanna, hver það hefði gert, þótt ég hins vegar teldi það alllíklegt, að það sé rétt að draga það af hafnbannsyfirlýsingu Þjóðverja, að varla sé um aðra að ræða, sem að þessu hafa staðið, þar sem mér er sagt, að auk þess hafi komið fram yfirlýsing í þýzka útvarpinu um, að aðgerðir Þjóðverja hafi orðið til þess að stöðva siglingar milli Englands og Íslands.

Hæstv. ráðh. hefur upplýst það, og auðvitað vil ég í eitt skipti fyrir öll lýsa yfir, að ég ber engar brigður á neitt í þessu efni, sem hann heldur hér fram, að þegar þ. 27. marz hafi verið sett fram mótmæli út af þeim árásum, sem gerðar voru á „Fróða“ og „Reykjaborgina“, og sömuleiðis hafi með símskeyti 27. marz verið send mótmæli gegn hafnbannsyfirlýsingunni til fulltrúa Íslands í Danmörku, og þess hafi verið getið við fulltrúa Svía hér, sem jafnframt hefur tekið að sér umboðsmennsku fyrir Þjóðverja hér á landi.

Ég hef í sjálfu sér ekkert við þetta að athuga að því leyti, að ég álít, að ríkisstj. hafi þar fullkomlega gætt skyldu sinnar út á við að því er aths. gagnvart Þjóðverjum og aðgerðum þeirra snertir. Hins vegar er hér um eitt atriði að ræða, sem ég minntist á í framsöguræðu minni fyrir þáltill., sem ég bar fram, og einnig kemur fram í lok grg. fyrir þáltill. Ég álít, að það sé mjög vafasamt, á þeim tímum, sem nú eru, að halda sér fast við gamlar þjóðréttarreglur um það að bíða eftir því, að vitneskja komi frá ríki, sem mótmæli eru send til, — þó að rétt sé að fara þær diplomatísku leiðir, sem fyrir hendi eru —, að bíða eftir vitneskju fyrir því, að mótmælin hafi komizt í hendur stj. viðkomandi þjóðar, áður en mótmælin eru birt. Eftir því, sem ég hef orðið áskynja gegnum útvarpsfréttir um framkomu erlendra ríkja, sem hafa orðið fyrir slíkum hlutum, sem þau hafa talið sér rétt að mótmæla, held ég, að það sé ekki núna álitin rétt þjóðréttarleg regla að bíða eftir slíkum upplýsingum, heldur sé það talið fullkomlega heimilt fyrir það land, sem telur sér þörf á að mótmæla einhverju ranglæti í einhverri mynd, sem það kann að verða fyrir, eða einhverju því, sem það álítur, að það þurfi að mótmæla, að láta þegar í stað vita um það, bæði innanlands og utan, að það hafi látið mótmæli frá sér fara. Þetta er auðvitað bara persónuleg skoðun mín. En ég hygg nú, að við nánari rannsókn mundi koma í ljós, að hér sé ekki farið mjög langt frá því rétta.

Eftir að það er nú vitað, að mótmæli þessi, sem um hefur verið rætt, hafa komizt til sendiherra Svía í Berlín þ. 24., apríl, þá legg ég ríka áherzlu. á það, að nú sé ekki lengur eftir neinu að bíða með að gera ráðstafanir til þess að geta efnis þeirra mótmæla, sem hér hafa átt sér stað. En auðvitað vil ég ekki láta ætla mig það barn að ég búist við, að mótmæli gegn yfirlýsingu Þjóðverja hafi nokkuð að segja til lagfæringar ranglætinu, sem í henni felst, þar sem Þjóðverjar lýsa landið ófriðarsvæði, sem að mínu áliti er sama sem að segja, að Íslendingar skuli vera réttdræpir í landi sínu og við siglingar meðfram ströndum þess, m. ö. o. það má segja, að Þjóðverjar hafi kveðið upp sams konar dóm yfir þjóð vorri eins og fornmenn kváðu upp yfir skógarmönnum sínum, að þeir væru óalandi, óferjandi og óráðandi öllum bjargráðum.

Þó að þessi mótmæli breyti sennilega engu um framkomu þess aðila, sem þeim er beint til, þá er þó eitt atriði í mótmælunum, sem hæstv. ráðh. upplýsti, að hefðu verið sett fram, og einnig var getið í minni till., sem er mótmæli gegn því, að Ísland sé kallað „dönsk eyja“. Ég veit ekki betur en að það sé yfirleitt vilji Íslendinga að halda a. m. k. fast á því, að íslenzka ríkið hafi ekki misst sjálfstæði sitt, það sjálfstæði, sem viðurkennt var með sambandsl. 1918, hvað sem segja má um frekari aðgerðir viðvíkjandi sambandi voru við sambandsþjóðina. Árið 1918 er Ísland viðurkennt sem algerlega fullvalda ríki í sambandi við Danmörk um einn og sama konung, alveg jafnrétthár aðili eins og danska ríkið sjálft. Við Íslendingar höfum alltaf lagt mikið upp úr því, hvort erlendir menn litu svo á, að við værum hjálenda annarrar þjóðar eða ekki. Þjóðverjarnir hafa nú með þessari yfirlýsingu gefið sérstakt tilefni til þess, að við birtum ákveðin mótmæli, með því að þeir hafa látið það berast um víða veröld, hvaða álit þeir telji sig hafa á okkar réttarstöðu.

Ég ætla ekki að gefa yfirlýsingu nú um það, að ég taki aftur þáltill. mína að svo stöddu, en veit, að hún á ekki við eins og hún er orðuð nú. En ég áskil mér rétt til þess að athuga, hvort ekki sé rétt að breyta henni að einhverju leyti í það horf, sem á við nú, t. d. að þáltill. verði staðfesting Alþ. á þeim gerðum ríkisstj., sem hæstv. ráðh. hefur nú lýst yfir, að stj. hafi haft í frammi, og í öðru lagi, að í till. sé lögð áherzla á, að þegar búið er að birta það nú fyrir þingheimi, að mótmælt hafi verið, þá verði gerðar ráðstafanir til þess að reyna að láta það berast út um veröldina á þann hátt, sem unnt er, vegna þess að eitt atriði a. m. k. af því, sem

mótmælt hefur verið, hefur virkilega þýðingu um réttarstöðu okkar eða álit annarra þjóða á réttarstöðu okkar.

Að öðru leyti þakka ég hæstv. ráðh. fyrir hans greinagóðu upplýsingar og get ekki séð í fljótu bragði, að ég hafi nokkuð við að athuga gerðir ríkisstj. í þessu máli annað en það, sem ég sem þm. tel réttara að fylgja, að hæstv. Alþ. sé haft að einhverju leyti í ráðum, áður en ráðist er í svona framkvæmdir. Skal ég ekki fara meira út í það að sinni.