15.05.1941
Sameinað þing: 16. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í D-deild Alþingistíðinda. (3500)

153. mál, frestun alþingiskosninga

Brynjólfur Bjarnason:

Ég þarf ekki mikið að svara því, sem hér hefur komið fram. — Hæstv. forsrh. sagði í ræðu þeirri, er hann var að ljúka við að halda, að við þingmenn hefðum ekki verið feimnir við að brjóta stjórnarskrána, þegar konungsvaldið var flutt inn í landið. — Ég er alls ekki viss um, að stjórnarskráin hafi verið brotin með því. — Okkar grundvallarlög gera ráð fyrir því, að það ástand geti skapazt, að konungur geti ekki gegnt störfum sínum hér, en ég er ekki maður til að dæma um, hvort í þessu tilfelli hefur verið farin fullkomlega rétt leið að lögum. — En það er öllum ljóst, að þarna var ekki hægt að framkvæma stjórnarskrána. — Kristjáni konungi X. var ekki fært að gegna störfum sínum hér. Þetta var því brýn nauðsyn.

Ef ég t. d. ynni eið að því að fara í mikilsvarðandi erindum upp í stjórnarráð og vera kominn aftur á ákveðnum tíma og það liði yfir mig á leiðinni, — er hægt að halda því fram, að ég hafi rofið eið? Hér er um algerlega ósambærilega hluti að ræða, þar sem þessi þáltill. er, því að hér er ekki um neina brýna nauðsyn að ræða. Það er hægt að hafa kosningar. Það eru engin frambærileg rök fyrir því, að það sé ekki hægt.

Hæstv. forsrh. sagði, að það væri undir öllum kringumstæðum algerlega rangt að kalla þetta valdarán, að Alþingi samþ. svona till. um það að framlengja kjörtímabil núverandi þm. um allt að fjögur ár. Þ. e. a. s., að þeir þm., sem hér sitja, ákveði að gegna þingmannsstörfum sem fulltrúar fyrir þjóðina enn í fjögur ár, án þess að hafa umboð til þess frá þjóðinni. Hæstv. forsrh. sagði, að það væri ekki hægt að kalla þetta valdarán, vegna þess að það væri vitað, að ef kosningar færu fram, mundu þeir flokkar, sem nú standa að ríkisstj., verða í miklum meiri hluta á Alþ. eftir kosningar. Þá er fyrst því til að svara, að hæstv. forsrh. getur ekkert um þetta fullyrt. En enda þótt flokkur manna rændi völdum og fengi síðan með kosningum, sem færu fram löngu síðar, meiri hluta, þá eru þeir valdránsmenn á meðan þeir hafa ekki fengið þá þjóðlegu staðfestingu, sem atkvgr. er. Svo er annað, — það er ekkert fyrir fram vitað fyrir víst, hvort nást mundi þingmeirihluti fyrir þá flokka, sem nú standa að hæstv. ríkisstj., eða ekki; en enda þótt þeir næðu meiri hluta, þá geta kosningar haft úrslitaáhrif engu að síður. Kosningar, sem mundu þýða stóran ósigur fyrir núverandi stjfl., mundu vera svo mikill hnekkir fyrir þjóðstj., á eins völtum fótum og hún stendur, að það mundi ríða henni að fullu. Sem sagt, valdahlutföllin í landinu mundu áreiðanlega breytast, ef kosningar færu fram, en hvað mikið, er ekki gott að segja, það getur enginn okkar fullyrt um.

Það er misskilningur hjá hæstv. forsrh., er ég held að komi til af því, að hann hefur hlustað betur á ræðu hv. þm. Ísaf. heldur en mína, að ég hafi dróttað því að hæstv. ríkisstj., að hún hefði komið því til leiðar, að lagðar voru hendur á þrjá íslenzka ríkisborgara og þeir fluttir úr landi. Ég tók það fram, að ég dróttaði þessu ekki að hæstv. ríkisstj. Hv. þm. Ísaf. sneri út úr þessu í sinni ræðu, enda var ræða hans mest útúrsnúningur og rökleysa, sem ekki er svaravert. Ég sagði, að ég vildi ekki drótta neinu að hæstv. ríkisstj. í þessu efni. En ég sagði, að uppi væru mjög ákveðnar grunsemdir meðal manna, að öfl, sem að ríkisstj. standa, hafi átt mjög ríkan þátt í þessum atburðum. Og ég sagði, að framkoma ríkisstj. gagnvart Sósíalistafl., t. d. að meina honum málfrelsi í útvarpi; væru. stoðir, sem rynnu undir þessar grunsemdir. Það er líka algerlega rangt, að ég hafi talað um það, að fundafrelsi mundi ekki verða neitt við þessar kosningar eða fundafrelsi afnumið. Það sagði ég ekki, en það var hv. þm. Ísaf., sem sagði það, svo það ber að sama brunni fyrir hæstv. forsrh., að hann hefur hlustað meira á ræðu hv. þm. Ísaf. En ég sagði, að það hefði verið um það talað, að ekki mundi fullt málfrelsi leyft í útvarpi, ræður manna mundu verða ritskoðaðar. En ég veit ekki um sönnur á því, hvort þetta er rétt. Og ég sagði, að ég vissi ekki, hvor ætti sök á þessu, brezka herstjórnin eða íslenzka ríkisstj. E. t. v. getur hæstv. ráðh. eða kannske hv. þm. Ísaf., sem virðist vita ákaflega mikið í þessum efnum, upplýst mig um það. En hvað fundafrelsi snertir, sem ég ekki minntist á, þá hef ég þar ekki annað fyrir mér en orð hæstv. forsrh. sjálfs í útvarpsræðu þeirri, er hann hélt á skírdag.

Í þeirri ræðu sagði hæstv. forsrh., að sér fyndist rétt, og mér skildist hann tala það í nafni ríkisstj. og þeirra fl., sem að henni standa, að ef kosningar yrðu, sem hann dró ekki í efa, að mundu verða, vegna þess að það væri stjórnar skrárbrot, sem ekki kæmi til mála, ef kosningar færu ekki fram, að þá mundu engir venjulegir framboðsfundir verða, og hæstv. ráðh. lýsti því, hvernig kosningar mundu fara fram öðruvísi en venjulega þannig, að fundahöld mundu vera mjög takmörkuð. Og mér skildist, að þessi takmörkun mundi vera runnin undan rifjum hæstv. ríkisstj. sjálfrar.

Ég sagði, að ég færi ekki að svara hv. þm. Ísaf., það þýðir náttúrlega ekki neitt, þegar menn koma með svona nart og nag og útúrsnúning og rökleysur, sem náttúrlega enginn tekur mark á. T. d. að fara að svara því, að það væri ómögulegt, að Sósíalistafl. bæri fyrir brjósti málstað Íslendinga, vegna þess að hann hefði ekki tekið afstöðu með finnsku hvítliðunum gegn rússnesku verkalýðsstj. Ég veit ekki, hvernig á að svara svona löguðu. Svo sagði þessi hv. þm., að Sósíalistafl. hefði haft útlent fé til þess að vinna fyrir. Svona beinar álygar hélt ég, að ættu ekki beint við hér á þessari hv. samkundu. Hins vegar eru það engar aðdróttanir, að Alþfl. hafi fengið útlent fé til starfsemi sinnar. Það er opinbert mál, sem Alþfl. heldur ekki neitar. Þá var hv. þm. Ísaf. enn fremur að tala um það, að ég hefði haldið því fram, að Sósíalistafl. mundi vinna á við þessar kosningar, og þótti honum það skrýtið, þar sem ritfrelsi hans er afnumið, þá skyldi hann geta unnið á. Af þessu dró hv. þm. þá ályktun, að ef flokkurinn fengi ritfrelsi, mundi það skaða flokkinn. Ég hélt því ekki fram, heldur benti á, að þrátt fyrir það, þótt honum sé bæði bannað ritfrelsi og málfrelsi skert, eins og raun er á, hefur hann stórum aukið fylgi sitt frá því um síðustu kosningar. Þetta nefni ég aðeins sem dæmi upp á rökleysur hv. þm. Ísaf.

Ég held svo, að ég hafi svarað því, sem fram hefur. komið í þessu máli. Það hafa sem sagt engin rök komið fram fyrir þessari þáltill. önnur heldur en þau, sem eru í þáltill. sjálfri, sem ég hef mjög ýtarlega sýnt fram á, að ekki eru rök og ekki standast neina gagnrýni.