15.05.1941
Sameinað þing: 16. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í D-deild Alþingistíðinda. (3501)

153. mál, frestun alþingiskosninga

Finnur Jónsson:

Það þarf ekki að svara hv. 1. landsk. öðru en því, að ég hlustaði mjög rækilega á hans fyrri ræðu, og ég heyrði, að hann sagði, að hans flokksblað hefði verið bannað. Það mundi ekki vera hægt að fara í útvarp nema með ritskoðun og væri vafasamt, hvort hægt væri að halda fundi, og enn fremur, að hann vissi ekki, að hve miklu leyti brezka herstj. eða íslenzka ríkisstj. ættu sök á þessu.

Vilji hv. 1. landsk., eins og mér virtist, taka þetta aftur, þá er ekki nema gott um það að segja, því að ef hann ekki vill kannast við það að hafa sagt þetta rétt í því, sem hann er að sleppa orðinu, þá er það enn betra. Og þar með eru allar hans aðdróttanir um grun á hæstv. ríkisstj. alveg niður fallnar, þegar hann tekur þær aftur sjálfur í heyranda hljóði: Ég verð að segja það, að ef hv. 1. landsk. heldur áfram svona, þá getur vel verið, að það sé nokkur von, að málstaður hans geti orðið þannig, að hann teljist nokkurn veginn hæfur þjóðfélagsþegn.