16.05.1941
Sameinað þing: 18. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í D-deild Alþingistíðinda. (3515)

154. mál, sjálfstæðismálið

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Ef til vill hafa ýmsir hv. þm. vænzt þess, að þetta stórmál, sem nú liggur hér fyrir, yrði borið fram fyrr hér á Alþ. Það var að nokkru leyti ráð fyrir því gert, að ríkisstj. undirritaði þetta mál, og jafnvel í ríkisstj. var það skoðun, að eðlilegt væri að leggja málið fram og afgreiða það á fyrri hluta þingsins. En þegar ríkisstj. hóf umr. um þetta mál, þá kom það í ljós sem eðlilegt er, að þetta stórmál þurfti mikillar yfirvegunar við til þess að fá sem réttasta og heppilegasta afgreiðslu, þá afgreiðslu, að skýr vilji Alþingis lægi fyrir og hann væri sem mestur eða alveg einróma. En til þess að slíkur vilji geti legið fyrir, er eðlilegt, að málið þurfi mikillar athugunar og það þurfi að ræða það og rannsaka til þrautar. Þess vegna var valin sú leið, að þetta stórmál var ekki lagt fram snemma á þessu þingi, heldur hefur verið unnið að málinu þannig, sem mér þykir rétt að komi hér fram, að það var tekið til meðferðar í þingflokkunum undireins og hv. þm. komu hingað til bæjarins, en þá hafði málið einnig verið rætt verulega í blöðum og á mannfundum. Jafnframt því sem ríkisstj. undirbjó málið, hélt hún fundi með hv. þm. og miðstjórnum sinna flokka, til þess að ræða um málið, og leitaði eftir því, hver væri hinn almenni vilji og sameiginlagi vilji um lausn þess. Þess vegna hefur þeim tíma, sem af er þessu þingi, eða a. m. k. fyrstu mánuðunum, verið varið til þess að undirbúa þetta mál og rökræða það og finna hina sameiginlegu lausn og vilja alls þingsins. Ég hygg, eða ríkisstj. gerir sér vonir um það, að í þessum till., sem hér liggja fyrir, sé hinn sameiginlegi vilji Alþingis eða a. m. k. hinn sameiginlegasti vilji Alþingis.

Ég mun nota mér leyfi hæstv. forseta til þess að ræða þær till., sem hér liggja fyrir, allar í einu. Ríkisstj. vonar, að þessar till., sem hér liggja fyrir, séu svo skýrt orðaðar, að þær þurfi ekki mikilla skýringa við. Það er mikið vafamál, hvort það er eðlilegt að hafa um þær langar umr., því þær skýra sig í raun og veru bezt sjálfar án þess að þeim fylgi skýringar. Ég vil þó fara um þessar till. nokkrum orðum.

Eins og fyrsta till., um sjálfstæðismálið, ber með sér, er sú skoðun þar fram sett, að Ísland hafi öðlazt rétt til fullra sambandslita við Danmörku, og rökin, sem eru borin fram, rökin, sem ríkisstj. álítur, að séu til staðar fyrir því. að svo sé, eru þau, að Ísland hefur þegar orðið að taka í sínar hendur meðferð allra sinna mála, enda hefur Danmörk ekki getað farið með þau mál, sem hún tók að sér að fara með í umboði Íslands með sambandssamningi Íslands og Danmerkur frá 1918. Í síðari hluta till, er það þá jafnframt tekið fram, að af Íslands hálfu verði ekki um að ræða endurnýjun á sambandslagasáttmálanum við Danmörku. Þetta þykir ekki að svo stöddu tímabært, vegna þess hvernig ástandið er, að ganga frá formlegum sambandsslitum og endanlegri stjórnarskipun ríkisins, en jafnframt segir, að því verði ekki lengur frestað en til styrjaldarloka. Ég ætla, að þessi till. sé svo skýr og ákveðin, að hún þurfi ekki frekari skýringa við.

Þá er það till. til þál. um æðsta vald í málefnum ríkisins. Þegar Alþingi hinn 10. apríl 1940 flutti það vald, sem konungur hefur farið með, í hendur ráðuneytis Íslands, þá var það vitað mál, að það var ekki til þess ætlazt, að það væri ráðstöfun til frambúðar eða ráðstöfun, sem ætti að standa um langt skeið. Það er ekki hægt að neita því, þó að meðferð þessa valds hafi farið eðlilega úr hendi, að það sé heldur óeðlilegt, að ríkisstj. fari einnig með konungsvaldið. Þessi ráðstöfun mundi ekki hafa verið gerð, ef við hefðum haft, eins og ýmsar aðrar þjóðir hafa, lög um það, hvaða ráðstafanir skuli gera, ef konungur forfallast, en í þeim lögum er venjulega svo fyrir mælt, að ríkisstjóri, sem kjörinn er eftir þeim reglum, sem þar eru til teknar, fari með konungsvald. Þessi lög voru og eru ekki fyrir hendi, og ég hygg, að það hafi ekki sízt valdið því, að gerð var þessi skipun á málinu, sem gerð var, en auðsætt var, að gæti ekki staðið til lengdar. Það er sér staklega eitt, sem ég álít að mæli með því, að við gerum þessa ráðstöfun nú. Það er eðlileg og sjálfsögð undirstrikuð og árétting á þeim ráðstöfunum, sem við gerum í sjálfstæðismálinu sjálfu. Ástæðan fyrir þessu er sú, að við höfum frestað kosningum, og þess vegna er eðlilegt og rétt, að við höfum stjórnskipulag okkar allt í sem föstustum skorðum, eftir því sem við verður ráðið á þeim tímum, sem nú eru. Ef stjórnarskipti þurfa að fara fram, þá er ekki heldur hægt að neita því, að það virðist talsvert eðlilegt, að leitað sé til ríkisstjóra á sama hátt og áður til konungs um það, að ráðuneyti sé skipað, heldur en að láta það ráðuneyti, sem fer frá völdum, ganga frá löggildingu hins nýja ráðuneytis, sem nú þyrfti að vera, ef núverandi skipun væri haldið. Ríkisstjórnin væntir þess, að Alþingi geti fallizt á að samþ. þessa till., sem hér liggur fyrir, um æðsta vald í málefnum ríkisins, þar sem gert er ráð fyrir, að það vald, sem afhent var ráðuneyti Íslands hinn 10. apríl 1940, verði afhent ríkisstjóra, sem kosinn verði af Alþingi til eins árs í senn.

Þriðja till. til þál., um stjórnskipulag Íslands, er á þann veg, eins og till. ber með sér, að Alþingi ályktar að lýsa yfir þeim vilja sínum, að lýðveldi verði stofnað á Íslandi jafnskjótt og sambandinu við Dani verður formlega slitið. Við álítum það rétt, að afstaða okkar Íslendinga í sjálfstæðismálinu sé mörkuð yfirleitt, og teljum, að það væri ekki gert, ef þessi till. fylgdi ekki einnig með till, um sjálfstæði Íslands. Ég hygg það, og um það er ríkisstj. öll á einu máli, að þessi yfirlýsti vilji, sem hér er lagður fram á Alþingi til samþykktar, sé í samræmi við vilja flestra eða allra alþm. og einnig í fullu samræmi við vilja þjóðarinnar yfirleitt. Þess vegna verður að telja eðlilegt og rétt, að línurnar á þessu sviði séu einnig skýrt markaðar um leið og þær eru greinilega markaðar í till. um sjálfstæðismálið, sem hér liggur fyrir.

Ríkisstj. væntir þess af þeim ástæðum, sem ég hef rakið, vegna þess hvernig málið er undirbúið og hve rækilega það hefur verið rætt, að henni hafi tekizt að bera fram till., sem séu í samræmi við vilja meginþorra Alþingis.