16.05.1941
Sameinað þing: 18. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í D-deild Alþingistíðinda. (3522)

154. mál, sjálfstæðismálið

*Jónas Jónsson:

Ég get verið hæstv. forsrh. sammála um það, að rétt hafi verið að hafa ekki lokaumr. um þetta mál fyrr en nú. Hins vegar er ég ekki sammála honum um það, að undirbúningi þessa máls hafi verið sinnt sem skyldi, — þó mun ég ekki um það ræða. — Ég tel rangt, þegar hv. þm. V.-Sk. skrifaði ríkisstj. síðastl. sumar, að málinu væri ekki sinnt. Í málinu var alltaf undirbúningur, og það var rætt í lýðræðisflokkunum. — Samkv. ályktun Alþingis 1937 var ætlazt til, að utanríkismálan. væri ríkisstj. til aðstoðar við undirbúning málsins, en hæstv. ríkisstj. hefur ekki kvatt nefndina á sinn fund nema einu sinni.

Ég hefði vel getað sætt mig við till. hv. þm. V.-Sk. Utanríkismálan. er ekkert betur fallin til undirbúnings málsins en aðrir hv. þm. Annars er það til hróss fyrir hæstv. ríkisstj., hvernig málið er komið, en þetta hér að framan var aðeins viðvíkjandi vinnubrögðum. Ég tel umr. málsins koma á heppilegum tíma, því hjól viðhurðanna hefur snúizt þannig, að málið liggur gleggra fyrir öllum en áður.

Hins vegar er vitað, að forsætisráðherra Dana hefur orðið að tala þannig, að auðséð er, að Danmörk er einnig í þjóðskipulagsmálum háð Þýzkalandi. Sömuleiðis skiptir það miklu máli, að utanríkismálaráðherra Dana er svo að segja skipaður af Þjóðverjum, enda hefur þessi maður á áberandi hátt undir strikað ánægju sína yfir sambandi Danmerkur og Þýzkalands.

Þegar svo þar við bætist, að Þjóðverjar kölluðu Ísland „danska eyju“, þá er það stór sönnun móti rökum manna, að Ísland sé frjálst og fullvalda. Þegar voldugasta þjóð meginlands Evrópu kallar Ísland danska eyju, þá skyldu menn ætla, að nokkur vafi léki á stjórnfrelsi okkar í augum annarra þjóða. Einnig í brezkum blöðum og tímaritum má sjá talað um Ísland sem danska eyju. Þetta sýnir, að nauðsynlegt er, að við sofnum ekki í sjálfstæðismálinu. — Nú þegar við ætlum að stíga þetta spor hér í kvöld, þá eru ýmsir hv. þingmenn, eins og t. d. hv. þm. Borgf., sem telja æskilegt, að ennþá stærra spor verði stigið en hér er gert ráð fyrir. Í þessi 20 ár síðan 1918 hefur Ísland í rauninni verið miklu frjálsara en aðrar þjóðir álíta, og árið 1918 fannst ekki alllitlum hluta þjóðarinnar hér gengið að góðum kjörum. Merkir menn innan ýmissa flokka töluðu þá um það sem sjálfsagt mál, að á árunum 1941–43 yrðu sambandslögin endurskoðuð og endurnýjuð og við yrðum áfram í konungssambandi við Danmörku, en áttuðu sig ekki á, hvað konungssambandið er mikill hlekkur fyrir okkur. Þetta er eðlilegt, því engir árekstrar voru þá, en hitaveitulánið er yfirleitt í anda þess versta, sem við þekkjum af Dönum. — En þetta var neyðarúrræði og var notað, af því í önnur hús var ekki að venda, en það sýndi, að Danir höfðu ekkert lært og engu gleymt. Á sama tíma segir Stauning, að varla nokkur Íslendingur vilji slíta sambandinu við Danmörku. Þessi mikli valdamaður, sem var vinveittur Íslandi, stóð á þessu danska sjónarmiði gagnvart okkur. Ég get nefnt annað dæmi til að sýna, að ekki er tilefnislaust að stíga mikið spor í sjálfstæðismálinu. Frjálslyndur danskur sagnfræðingur, sem var velviljaður Íslandi og Íslendingum, varð mjög særður, þegar Vilh. Finsen var útnefndur sendifulltrúi Íslands í Stokkhólmi, að gengið skyldi vera framhjá sendiherra Dana þar.

Ég hef rakið þessi dæmi, af því að ég vildi ekki fara neitt dult með það í þessu sambandsmáli okkar við Dani, að það var ekki nema einn maður, sem kom fram í því máli eins og við hefðum viljað, að Danir kæmu fram. Það var Christmas Möller. Hann varaði okkur við ákvæðum sambandslagasáttmálans, þar sem gengið væri út frá 2 sinnum 75%, þar sem Stauning hefði tapað við miklu lægri prósenttölu við slíka atkvgr. Allir mestu valdamenn Dana voru á sömu skoðun og Stauning, að reyna að halda í konungasambandið við Íslendinga og reyna í sambandi við það, eins og hin kæna verzlunarþjóð Danir, að halda við möguleikunum til viðskipta við okkur.

Við vitum, að alla tíð frá 1930 hafa hér verið margir menn í landinu, sem álitu, að við ættum að hafa mjög mikið og náið samband við Dani. Það var alltaf talsvert stór flokkur, sem vildi hafa danska fánann, en ekki íslenzka. Þegar við fengum íslenzka fánann, vildu þeir halda tákninu úr danska fánanum, en ekki útrýma alveg rauða litnum úr honum, til þess að ekki væri alveg slitið sambandið við það, sem hafði verið.

Þegar þessir tveir straumar mættust, þessi skipulagða, kæna og vel undirbúna tilraun af hálfu Dana til þess, gegnum konungsvaldið, að reyna að viðhalda sambandinu, og hins vegar ekki veigalítil löngun íslenzku þjóðarinnar til þess að mæta þessu á miðri leið, þá verður skiljanlegt, að nokkrir menn hér á þingi, hv. þm. Borgf. og ég og nokkrir aðrir, óskuðum 2 síðasta sumri og vetri, að framkvæmdur yrði hreinn skilnaður við Dani á þessu þingi. Ég hef lýst yfir, að eðlilegt væri, að þetta hefði mætt mótstöðu. Svo eru margar aðrar ástæður, sem ég fer ekki út í hér. En það eru, sem ég svo kalla, þrjár varnarlínur í þessu máli.

Fyrsta varnarlínan er sú, sem hv. þm. Borgf. hefur lýst hér í kvöld, að Alþingi skuli lýsa yfir því, að það undirbúi fullan skilnað og lýðveldisstofnun. Ég játa, að það kom tiltölulega fljótt. í ljós, að það hafði ekki meirihlutafylgi á Alþ., og í ríkisstj. Þó hygg ég, að meðal kjósenda hafi verið meira fylgi fyrir þeirri stefnu heldur en hjá ríkisstj. og Alþ. Aftur er það ástæðan til þess, að ég og aðrir, sem líta svona á málið, komu ekki með neinar till. í þessa átt, að ég vissi, að slíkar till. mundu ekki verða samþ., og að bera þær fram væri til þess að veikja þá samheldni, sem kann að vera um aðrar till., sem hafa meira fylgi.

Þá er önnur varnarlínan, sem ég kalla svo, sem ég heyrði fyrst nefnda frá einum hv. sjálf stæðismanni hér á þingi, öðrum en hv. þm. Borgf og nú hefur verið tekin upp hér og borin fram á þingi í kvöld af hv. 3. þm. Reykv. og er í brtt.-formi, að því sé lýst yfir nú, að Ísland sé skilið frá Danmörku, en hins vegar beygt sig fyrir kringumstæðunum um að láta vera millibilsástand með ríkisstjóra o. s. frv., þangað til hægt er að koma við formlegum sambandsslitum. Þessi leið var að minni hyggju það ýtrasta, sem ég um tíma vonaði, að Alþ. gæti sameinazt um. Ég vissi, að ekki var hægt að fá hreina skilnaðarleið, en þá vonaði ég, að þessi leið, sem brtt. hv. 3. þm. Reykv. er um, mundi fær. En það verður nú ekki, eða ég býst ekki við því, þó að hún liggi fyrir til atkvgr. í kvöld.

Þá er þriðja leiðin, sem ríkisstj. hefur lagt til, að lýsa yfir því, að við höfum rétt til sambandsslita við Dani, þegar við viljum, en hins vegar að fresta því að framkvæma sambandsslitin. Ég ætla ekki að ræða um það, að hve miklu leyti þessi leið er öðruvísi en hinar leiðirnar. Samkvæmt henni er sambandinu ekki slitið. Sambandið helzt enn um stund. Og ég býst við, að þeir, sem gengið hafa frá þessari till., telji sig hafa margar ástæður fyrir því að hafa ekki stigið sporið lengra fram en þetta.

Í sambandi við þessar till, vil ég taka það fram, að þetta er einn af okkar sigrum, sem unnizt hafa á undanförnum vetri við erfiðleika þjóðarinnar. Við þær heldur fábreyttu umr. um þetta mál opinberlega í vetur kom í ljós allmikill skoðanamunur um það, hvernig væri hægt að slíta sambandinu við Dani. Það var annars vegar sá skoðunarháttur, sem viðurkenndur er í þessari till. á þskj. 547, að við gætum, hvort sem væri nú eða seinna, slitið sambandinu við Dani vegna vanefnda þeirra, sem orðið hafa á sambandssamningnum við þá. Ég hygg, að þessi skoðunarháttur hafi fyrst undir núverandi kringumstæðum verið skýrt formaður af próf. Bjarna Benediktssyni. Hann skýrði þessa leið mjög greinilega í Andvara í sumar sem leið, sem hafði mikil áhrif á menn um allt land, með því að þarna voru skýrt og skilmerkilega færð rök fyrir því, að samningurinn væri fallinn úr gildi við þessar stórkostlegu vanefndir, sem hefðu orðið við það, að Danir gætu ekkert, að því er horfir út á við, að halda samninga. Margir menn litu svo á, að þetta væri sumpart rangt og sumpart vafasamt. En aðrir héldu því fram, að við hefðum nokkurn vanefndarétt, en jafnframt hefðum við annan rétt, — að segja upp samningnum og biðja um endurskoðun á honum með þriggja ára fyrirvara. Það virtist svo, sem þessar tvær leiðir hefðu fylgi að hafa þær saman. En ég hef litið svo á, að ef byrjað væri á því að segja upp samningnum við Dani, væri sambandinu við þá þar með slitið eða fallið úr gildi, og þykir mér þá furðulegt, ef — við ættum svo að taka sambandslagasáttmálann frá 1918 og biðja um endurskoðun á honum, sem menn vissu að hlaut að leiða. til þess, að við hefðum ekki verið lausir við hann fyrr en eftir þrjú ár. Svo komi atkvgr., þar sem 2 sinnum yrði að vera 75% meiri hluti.

Samt sem áður var konungsvaldið eftir, sem hinn kæni Stauning ætlaði að hafa sem tjóður á okkur Íslendinga, eins og kom fram í ræðu sem mér fannst síðasta leiðin, að gefa það með annarri hendinni, sem áunnið hafði verið með hinni.

Ég hygg, að greindir og dugandi menn hafi séð, að þó að Danir hafi kannske verið lélegir samningsaðilar, meðan þeir voru sjálfráðir gerða sinna, þá séu þeir enn lélegri samningsaðilar eins og högum þeirra er nú háttað.

Ég tel, að það sé töluvert happ að fá lokaumr. um þetta svona seint, af því að ég skil, að nú muni þeir, sem hafa e. t. v. talið það æskilega leið að óska eftir endurskoðun, hafa fallið frá því og sameinazt í því að treysta eingöngu á vanefndaréttinn. Í honum liggur svo það, að ef við samþ. þetta í kvöld, gætum við á morgun samþ., að á vanefndaréttinum byggðum við það, að við vildum skilja að fullu. En þó að framkvæmd þessarar þáltill. gengi sæmilega, þá verður ekki næsta spor stigið fyrr en friður er saminn, hvenær sem það verður. Ég er forsjóninni þakklátur fyrir það að forða okkur frá því að ræða það á Alþ., hvort við ættum að gefa með vinstri hendinni það, sem við vinnum á með hinni hægri.

Ég ætla að greiða atkv. með till. á þskj. 547, af því að hún er það mesta, sem fáanlegt er hér í þessu efni, þó að ég hafi skýrt, hvað ég álít, að við séum linir í okkar þjóðmálum.

Undanhaldið var ákveðið, þegar við treystum okkur ekki til að stíga hreint og skarpt spor í fyrra eftir sambandslagasamningnum, slíta sambandinu og stofna lýðveldi strax. Ég segi ekki, að undanhaldið hafi verið nauðsynlegt. En undanhaldið hefur verið gert, og við förum nú alveg á mis við þá þjóðarvakningu, sem við hefðum getað haft, ef við hefðum getað framkvæmt fullkominn skilnað strax.

Ég álít, að norska þjóðin hafi alla síðustu öld verið að uppskera af því, sem hún afrekaði á Eiðsvelli 1814, þegar hún bjargaði sínu frelsi. Utan um það, sem við erum að gera, held ég, að sé enginn ljómi. Það getur verið gott og gagnlegt, en þið hitar engum, og það verður aldrei sambærilegt við það, sem gert var á Eiðsvelli fyrir Norðmenn.

Ég álít, að í till. á þskj. 547 sé það nokkur bót, sem stendur í niðurlagsorðum síðari liðs, að Alþ. hafi samþ. og bundizt heitum um það að slíta sambandinu að fullu og öllu, ekki síðar en í styrjaldarlok. Með því er svarað af okkar hálfu þeim kröfum, sem við vitum, að danska Þjóðin mundi gera um konungdóminn, þ. e. að hann væri í fullu gildi. Þeir vilja hafa danska konunginn yfir okkur að eilífu. Framkoma konungs hefur að vísu verið stjórnskipulega rétt frá byrjun. Og við höfum ekkert að ákæra konunginn fyrir. En hann er danskur maður, en við erum ekki danskir menn. Þess vegna er honum ekki hægt að vera sá umboðsmaður, sem við viljum, af því að hann er í raun og veru umboðsmaður sinnar eigin þjóðar. Og engum er kærara en mér að viðurkenna það, að konungurinn er fyrir þjóð sína allt, sem konungur getur verið. En það er allt annað land og önnur þjóð en Ísland og Íslendingar.

Þáltill. á þskj. 548 finnst mér vera sjálfsögð. En þeir menn eru til sem álíta að við yrðum að breyta stjórnarskránni til þess, og það sé því ekki hægt, eins og nú stendur á. En ég álít, að allra hluta vegna sé nauðsynlegt, að við nú setjum á stofn ríkisstjóraembætti, ekki af því, að núverandi ráðh. hafi ekki að öllu leyti farið vel með það, vald í eitt ár, heldur aðeins af því, að það er ekki eðlilegt að fela þeim mönnum þetta vald, sem sitja í ríkisstj. Og þar að auki er það eitt, sem er lýðræðinu sérstaklega nátengt, að eftir að við í 700 ár höfum verið neyddir til þess að hafa æðsta manninn erlendis, þá sé það okkar gæfa, ef okkur auðnaðist nú að hafa okkar æðsta mann innanlands. Og þó að við getum ekki sett á stofn lýðveldi nú, þá venur það þjóð okkar á að hugsa um, að við höfum ekki þörf fyrir konung, og ríkisstjórinn venur íslenzku þjóðina á að sjá, að við þurfum ekki að sækja okkar æðstu stjórn til annarra landa.

Mér er kunnugt, að frá 1918 og þangað til 1939 voru menn fylgjandi því að halda við konungdómi og hans valdi, vegna þess að menn héldu, að deilur mundu rísa, ef hætt væri við konungdóminn. Þess vegna hef ég alltaf haldið fram, að það yrði að hafa utan um ríkisstjórann, og síðar forsetaembættið, eins miklar friðarumbúðir og hægt væri, af því okkur er, af mörgum ástæðum, bæði vegna fámennis og vegna okkar öra pólitíska skaplyndis, hætt við því að láta það koma fram, sem þessir menn óttuðust, að deilur mundu verða um stöðuna.

Ég vildi taka það fram út af þessu, en ég ætla ekki að fjölyrða um það hér, en ég býst við að hreyfa því í fjvn. og við umr. um fjárl., að ég álít, að nú komi ekki til mála annað en að um leið og við höfum kosið ríkisstjóra, þá gegni hann í raun og veru störfum konungs, og það fé, sem ætlað er til konungs, renni til ríkisstjórans, til kostnaðar við hans embætti.

Það mundi áreiðanlega þykja slæm ráðstöfun, ef við, eftir þær samþ., sem hér munu verða gerðar, færum að borga Danakonungi kaup, þó að hann sé að vísu mjög góður konungur í því landi, sem hann er. En hann starfar ekki lengur fyrir okkur.

Um síðustu þáltill. vil ég ekki segja annað en það, að ég er henni samþ., að Alþ. lýsi yfir þeim vilja sínum, að lýðveldi verði stofnað. Og eftir því, sem tilgreint er í niðurlagsorðum þáltill. á þskj. 549, þá er talað um það, að að okkur sjálfráðum verði lýðveldi komið á ekki síðar en í styrjaldarlok. En við verðum eins og í kosningarfrestunarmálinu að gera ráð fyrir; að ríkisstj. sé á verði um það, á meðan á styrjöldinni stendur, að fyrir geti komið þeir atburðir, að við verðum að lýsa yfir því, að sambandinu sé slitið. Ég þykist vita, að hæstv. ríkisstj. muni hvenær sem er hafa augun opin fyrir þessu. Og mér finnst þær till., sem hv. 3. þm. Reykv. kom fram með, vera á rökum byggðar, og ég vildi óska, að þær kæmust fram. Mér virðist þær brtt. til bóta á þáltill. ríkisstj., og ég mun fylgja þeim, ef ekki koma rök fram, sem sannfæri mig, að sú leið sé ekki fær.