16.05.1941
Sameinað þing: 18. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í D-deild Alþingistíðinda. (3529)

154. mál, sjálfstæðismálið

Finnur Jónsson:

Ég geri ráð fyrir, að við séum í raun og veru sammála um það, að það hafi varla verið í einu stigið stærra spor í sjálfstæðismáli okkar Íslendinga heldur en gert er í þeim þáltill., sem hér liggja fyrir. Þrátt fyrir það er það rétt, sem hv. þm. S.-Þ. sagði, að yfir þessum yfirlýsingum sé enginn sérstakur glans. Ekki er það þó af því, að þessi mál séu ekki mikils virði, heldur vegna þeirrar miklu óvissu, sem ríkir hér í álfu.

Við segjum okkar vilja í þessu máli, en við vitum í raun og veru ekkert um, hvert þessi vilji leiðir okkur. Við vitum ekkert um, hvað verður í okkar valdi að framkvæma af því, sem við hér ályktum, og það veldur því vitanlega, að ekki er eins mikill glans yfir þessum yfirlýsingum eins og annars mundi verið hafa, sem og hitt, að sambandsþjóð okkar er nú í miklum vanda stödd.

Sami hv. þm. minntist nokkuð á sambandslagasáttmálann frá 1918 og taldi, að það, sem nú er fram komið, að það hefði verið talað um Ísland af öðrum hernaðaraðila sem danska eyju, væri nokkur sönnun þess, að með sáttmálanum hefði okkar þjóðfrelsi ekki verið grunnmúrað. Það er ekki ástæða til að ræða sambandslagasáttmálann frá 1918. En ég vil benda á, að ummælin um „dönsku eyjuna“ standa ekki í neinu sambandi við sambandslagasáttmálann frá 1918, heldur allt annað atriði. Það er alkunnugt, að meðan við vorum að berjast fyrir sjálfstæði okkar fyrir 1918, þá voru í hópi Þjóðverja ágætir fræðimenn, sem lögðu okkur bezt lið allra manna í sjálfstæðisbaráttu okkar. Og allt fram á síðustu ár munum við hafa átt þar ágæta forsvarsmenn. En fyrir nokkrum árum breyttist þetta á þann hátt, að farið var að tala um það, ekki eingöngu viðkomandi okkur Íslendingum, heldur smáþjóðum yfirleitt, að smáríki ættu ekki rétt á sér. Og ummælin um „dönsku eyjuna“ eru ekki neitt einstök fyrir okkur Íslendinga, heldur stafa þau af þeirri stefnubreytingu, sem varð í Þýzkalandi, að álitið var hagkvæmara fyrir viðgang þess ríkis að halda fram, að smáríkin ættu sér yfirleitt ekki tilverurétt. Nú minnist ég þess, að í sambandi við hernámið 10. maí í fyrra kom sama álit fram í þýzkum blöðum. Ég sá þá, að í þýzkum blöðum stóð í orðréttri þýðingu þannig : Að Bretland mundi ætla sér að „halda þessum hluta Danmerkur, þangað til stríðinu væri lokið“. Á þeim tíma þótti nú ekki ástæða til að mótmæla þessari skoðun Þjóðverja, enda veit ég ekki, hvort þessi blaðaummæli hafa borizt hingað til landsins. En það er greinilegt, að það er stefnubreytingin í Þýzkalandi gagnvart smáþjóðunum, sem gerir það að verkum, að nú er af Þjóðverjum talað um Ísland sem hluta af Danmörku, en ekki hitt, að Þjóðverjum sé ekki fullkunnugt um sambandslagasáttmálann frá 1918, eins og hann var, þegar hann gekk í gildi.

Nú er það svo, að það er í sjálfu sér ekkert nýtt fyrir okkur Íslendinga, þó að við gerum samþykktir um okkar sjálfstæði, sem við viljum, að grunnmúri okkar þjóðfrelsi. Annað mál er, að ástandið í heiminum er þannig, að við vitum ekkert um, hvert þær samþykktir bera okkur. Það er algerlega undir því komið, hvor öflin verða ofan á í stríðinu, — þau, sem telja sér hag í að halda uppi rétti smáþjóðanna, eða hin, sem viðurkenna ekki rétt smáþjóða. Ef hið síðara yrði ofan á, væru samþykktir okkar gagnslausar. Ég er ekki að segja, að við ættum ekki að hafa gert þær samt sem áður, aðeins vildi ég skýra, hvers vegna minni glans er yfir þessum ályktunum en ætla mætti eftir mikilvægi þeirra.

Ég hef ekki orðið var við þá, lævísi, sem hv. þm. S.-Þ. taldi hafa komið fram hjá Dönum í sjálfstæðismáli okkar. Ég tel það ekki lævísi, þótt þeir greiddu eftir getu fyrir Sogsvirkjuninni og hitaveitunni og reyndu eins lengi og þeir gátu að veita okkur vinsamlega aðstoð, hvenær sem þess var leitað og það stóð í þeirra valdi. Bróðurþel sambandsþjóðar okkar er ekki lævísi. Ég segi þetta, af því að ég mun síðastur þeirra manna, er hér sitja, hafa rætt við ýmsa þá áhrifamenn í Danmörku, sem hv. þm. S.-Þ. var að dylgja um. Það var nokkru eftir hernámið þar, og þeir báru af eðlilegum ástæðum nokkurn ugg um framtíð Danmerkur og frændþjóða sinna. Hins vegar varð ég ekki var við neinar lævísar tilraunir til að hefta frelsi Íslendinga, eins og hv. þm. talaði um. Það, sem okkur getur reynzt hættulegt, eru allt önnur öfl. Ég skil þessa tillögu svo, að við með henni lýsum yfir, að við höfum öðlazt fullan rétt til sambandsslita við Dani, en munum vilja á sínum tíma semja vinsamlega um það við sambandsþjóð vora, hvernig sambandsslitin fari fram að formi til. Ég vona, að þá verði þau öfl orðin ofan á, sem mest bar á í stjórnarfari Dana fyrir hernámið og hafa aldrei sýnt okkur annað en fullkomna vinsemd og skilning.