16.05.1941
Sameinað þing: 18. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í D-deild Alþingistíðinda. (3530)

154. mál, sjálfstæðismálið

*Héðinn Valdimarsson:

Það sé fjarri mér að gera lítið úr tillögum ríkisstj. Ég álít, að þetta sé stærsta skrefið, sem ennþá hefur verið stigið í sjálfstæðisbaráttu okkar. Þar með er ekki sagt, að ekki mætti fylgja málinu fastar eftir og ganga lengra en ríkisstj. hefur enn lagt til.

Svo lengi sem ég man, hef ég verið skilnaðarmaður og lýðveldismaður. Síðan í æsku hef ég fylgt þeim hugsjónum eindregið. Ég hafði orð fyrir flokki mínum á Alþingi, þegar hann lýsti yfir einhuga vilja sínum til þess, að við yrðum óháð lýðveldi, meðan aðrir flokkar treystu sér ekki til að taka neina opinbera afstöðu til þeirra mála. Því er það ekki óeðlilegt, að ég tek sömu afstöðu nú.

Ég hef ekki haft aðgang að þeim umr., sem fram hafa farið um málið innan stjórnarflokkanna, en í þrjú skipti hef ég fengið að sjá þessar tillögur í svip, meðan þær voru í smíðum. Mér er það ljóst, að hér í þinginu eru margir menn, sem vilja stíga sjálfstæðissporið fullt þegar í stað. Yfirleitt hefur sá skilningur glæðzt, að við verðum að hrökkva eða stökkva, og þegar atkvæði voru greidd um kosningafrestunina fyrir nokkrum dögum, fannst öllum, að málum væri svo komið, að Alþingi yrði að taka á sig ábyrgð á stjórn fullvalda ríkis, hvað sem ýmsum lagabókstöfum líður. Nú kemst Alþingi ekki framhjá ábyrgðinni á því að telja sambandssáttmálann ógildan. Hví þá ekki að stíga sporið fullt og telja hann úr sögunni með öllu?

Ég lít svo á, að með samþykkt tillagna ríkisstj. mundi að vísu ekki fást bezta lausn málsins, en þó viðunandi og vonandi ekki hættuleg. Hv. 1. landsk. talaði um till. um ríkisstjóra sem afar skaðsamlega tillögu, en þar lít ég þveröfugt á. Einmitt nú, þegar kosningum er frestað, er þörfin mest á því að leggja þýðingarmikla þætti hins æðsta valds í hendur sjálfstæðum manni, sem stendur utan við pólitísku flokkana, manni, sem fyrst og fremst ætti að sjá um, að stjórnarskránni sé fylgt.

En þá kemur til álita, að hve miklu leyti hægt er að gera till., sem fram hafa komið, ákveðnar í en þær eru. Ég hefði ekki komið auga á, hve tvíræðar þær eru og hve hugsanlegt er, að eftir sem áður mætti tvístíga í sjálfstæðismálinu og fara uppsagnarleið sáttmálans frá 1918, ef hæstv. forsrh. hefði ekki túlkað þær á þennan tvíræða hátt í ræðu sinni. Hann taldi líka mjög varhugavert að koma með brtt. við tillögurnar, því að það gæti raskað sambandinu milli þeirra. — Séu þær svo tvíræðar sem hann lætur, mættu þær verða ljósar orðaðar. Og ég get lýst yfir því, að þær brtt., sem ég ber fram, raska engu , sambandi, aðeins gera það ljóst, að farin verður önnur leiðin, sem hæstv. forsrh. talaði um, en ekki báðar, eins og hann virtist vilja fara. Það voru aðallega tvö atriði, sem hæstv. ráðh. fetti fingur út í, þegar hann minntist á brtt. mínar. Honum fannst ekki rökrétt að kjósa ríkisstjóra til bráðabirgða, eftir að sambandinu væri að fullu slitið. Það skil ég ekki. Það skiptir ekki máli, hvort maðurinn heitir ríkisstjóri, forseti eða lögsögumaður, kosinn af Alþingi eða þjóðfundi, til eins árs eins og í Sviss eða til lengri tíma, — því að hlutverk hans er hið sama, hvernig sem þessar till. eru orðaðar. — Hitt atriðið var það, að við þyrftum viðurkenning annarra ríkja á þessum sambandsslitum. Ég get ekki viðurkennt, að sú ástæða vegi þyngra nú en 1918. Þá var það tilkynnt ýmsum ríkjum, að Ísland væri fullvalda ríki, og síðan höfum við farið okkar fram, hvað sem formlegri viðurkenningu stórþjóðanna líður. Líkt hlyti það að verða nú. Á styrjaldartímum er ekki hægt að gera ráð fyrir, að einstök ríki færu að gefa sig við slíku, nema þau sæju sér, hag í því. Það er nógur tíminn til að leita formlegrar viðurkenningar á eftir. Hvort sem er, mundi það ætíð taka 1–2 ár, töf, sem ekki er heppilegt að taka á sig fyrirfram að þarflitlu.

Þá segir hæstv. ráðh., að ekki sé hægt að slíta sambandinu án þess að ganga fyrst frá ýmsum málum, er snerta báðar þjóðirnar. Ég held það yrði ekki miklu meiri vandi en síðastliðið vor, þegar sambandið rofnaði raunverulega, og hefur gengið slysalaust. Það er að vísu rétt, að ýmis atriði eru eftir, sem við þurfum lausn á upp úr sambandsslitum, t. d. jafnréttisákvæðið og borgararéttur búsettra aðkomumanna frá sambandsþjóðinni í hvoru landinu um sig. En um þetta geta ríkisstjórnir nar samið. Ég held danska stjórnin færi enga breyting að gera á réttindum Íslendinga í Danmörku, nema hún yrði til þess kvödd af yfirvöldum hers þess, sem ræður þar nú.

Ég fer ekki fleiri orðum um aths. hæstv. ráðh. um brtt. mínar. Ég hygg, að í þeim fáu orðum, sem ég mælti fyrir þeim, hafi komið glöggt í ljós, að sambandinu er að fullu slitið, þótt eftir sé að ganga formlega frá því. Í 3. till. ríkisstj. er gert ráð fyrir, að Alþingi lýsi yfir þeim vilja sínum, að lýðveldi verði stofnað í Íslandi, jafnskjótt og sambandinu við Danmörku verður formlega slitið. Mér virðist rökréttara að telja lýðveldið í raun og veru stofnað nú, þar sem konungssambandinu er í rauninni lokið, en formlega miðist stofnun lýðveldisins við það eitt, hvenær unnt verður að ganga frá endanlegri stjórnskipun ríkisins. Á þessa leið er brtt. mín á þskj. 554, við till. um stjórnskipulagið, og samkv. brtt. minni á þskj. 553, við till. um sjálfstæðismálið, er það gert ljóst, að sambandinu sé þegar slitið. Ég lít svo á, að það sé ákaflega æskilegt, að allir geti orðið sammála um þál. þær, sem samþ. verða að lokum. En fyrst vil ég vita, hvort ekki er raunverulegur vilji til þess í þinginu að stíga sporið fullt í þá átt, sem við viljum komast, í stað þess að krækja þangað eftir hinum troðnu leiðum, sem mundu a. m. k. tefja málið um 1–2 ár.