16.05.1941
Sameinað þing: 18. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í D-deild Alþingistíðinda. (3537)

154. mál, sjálfstæðismálið

*Fjmrh. (Jakob Möller):

Ég geri undantekningu frá reglunni og verð að láta í ljós undrun mína yfir þeim þembingi, sem kom fram hjá hv. þm., sem síðast talaði, að hann skyldi leyfa sér að tala eins og sá, sem valdið hefði, eða a. m. k. áður en langir tímar liðu mundi hafa öll völd í hendi sér. Ég veit ekki betur en það hafi sýnt sig fyrir skömmu síðan við atkvgr. hér í Rvík. hversu mikil völd þessi hv. þm. hefur í þeim hópi, sem maður skyldi ætla, að hann hefði einhver áhrif. Ég veit, að allir munu þess fullvissir, að þess verður lengi að bíða, að nokkrar líkur verði til þess, að við eigum eftir að upplifa völd á einhverju sviði hjá slíkum manni.

Úr því að ég stóð upp, get ég hins vegar ekki látið hjá líða að lýsa yfir því, að mér þótti leitt, að inn í þessar umr. skyldi þurfa að blandast ónot til okkur svo vinveittrar og skyldrar þjóðar, sem við höfum nú um langt skeið haft góða sambúð við. Ég verð að segja, að mér þykir leitt, að hér er verið að búa til ágreining um þetta mál, sem er í rauninni alls ekki til, og ég vil eindregið mælast til þess við hv. 3. þm. Reykv., að hann taki aftur þessa till., sem hann ber fram, um breyt. á till. ríkisstj., því að hans till. eru á hreinasta misskilningi byggðar, eins og líka þau ummæli frá öðrum hv. þm., að þessar brtt. gangi nokkuð lengra en till. ríkisstj. Sannleikurinn er, að það er ómögulegt að greiða atkv. með till. hv. 3. þm. Reykv, á þskj. 553, af þeirri einföldu ástæðu, að hún stangast við sjálfa sig. Hann vill láta seinni lið till. hljóða svo: að af Íslands hálfu verði ekki um að ræða endurnýjun á sambandslagasáttmálanum við Danmörku, og sé sambandinu að fullu slitið, þótt ekki þyki að svo stöddu tímabært, vegna ríkjandi ástands, að ganga formlega frá sambandsslitum o. s. frv. Sambandinu er að fullu slitið, en samt er eftir að ganga frá formlegum sambandsslitum, samkv. till, hv. þm. En ef eftir er að ganga frá formlegum sambandsslitum, er sambandinu ekki að fullu slitið. Ef hv. þm. meinar eitthvað annað en í till. stendur, verður hann að orða það betur. Þess vegna er ekki hóti lengra gengið með brtt. hv. 3. þm. Reykv. en með till. ríkisstj. Sambandsslitin sjálf eru eftir, og það er gerð grein fyrir því, hvers vegna þau eru eftir, sem sé vegna ríkjandi ástands. Hvaða vit er þá í því að segja, að sambandinu sé að fullu slitið? Þegar hv. þm. athugar málið, sér hann, að þetta má ekki svo vera.

Annars get ég með tilvísun til þess, sem hv. þm. V.-Sk. sagði, lýst yfir því, að mér virðist engum geta blandazt hugur um, hvað í till. ríkisstj. felst. Samkv. sambandsl. frá 1918 hefðum við nú, að ástandinu óbreyttu, átt á þessu þingi að gera fyrsta skrefið til endanlegra sambandsslita með því að krefjast endurskoðunar á sambandslagasáttmálanum. Þá lá fyrir þessu þingi, og því fyrir öllum flokkum þingsins, að hugsa það mál, og að nokkru leyti er þessi þáltill., sem hér liggur fyrir, lausn á því. Í till. er yfirlýsing um, að frá því er sambandið var sett, sé ástandið svo breytt, að slíta megi sáttmálanum. Sáttmálinn er raunverulega niður fallinn, og endurnýjun kemur ekki til greina. Íslendingar hafa tekið í sínar hendur meðferð allra sinna mála. Það er aðeins formið, sem eftir er að ganga frá. Og það er það sama, sem hv. 3. þm. Reykv. segir. Hvar er þá ágreiningurinn? Hann er enginn. Við erum allir sammála um efni till. Af hverju á þá að láta líta svo út sem um einhvern ágreining sé að ræða?

Ég hef ekki meira um þetta mál að segja. Ég vil beina þeim tilmælum til hv. 3. þm. Reykv., að hann taki aftur till. sína.