16.05.1941
Sameinað þing: 18. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í D-deild Alþingistíðinda. (3540)

154. mál, sjálfstæðismálið

*Fjmrh. (Jakob Möller) :

Þar sem hv. 3. þm. Reykv. vísar til ræðu hæstv. forsrh., hefur hann alveg misskilið ummæli hans. Þess vegna hefur sú tilvitnun enga þýðingu í sambandi við það, sem okkur hefur farið á milli. Það er líka misskilningur, að nokkru máli skipti, hvort sagt er: að ganga frá formlegum sambandsslitum — eða: ganga formlega frá sambandsslitum. Í báðum tilfellum er það játað, að sjálf sambandsslitin séu eftir. Það er rétt, að ýmislegt er játað með þessu, að eins og sakir standa sé ekki hægt að ganga frá formlegum sambandsslitum, t. d. hvað snertir sameiginlegan þegnrétt. (HV: Er ekki hægt að skilja þess vegna?). Jú, við erum í raun og veru skildir við Dani. Formið og aðeins formið er eftir. En ef einhver heldur því fram, að þetta sé ekki rétt, að Íslendingar hafi öðlazt rétt til fullra sambandsslita, þá er það svo, að þetta getur gilt sama sem uppsögn eða krafa um endurskoðun sambandslaganna, en það breytir engu um innihald ályktana Alþingis, að Ísland hafi öðlazt þennan rétt. (HV: Hvers vegna má þá ekki segja í till., að sambandinu sé slitið?). Það er leiðinlegt að segja í öðru orðinu: sambandinu er slitið —, en í hinu: sambandinu er ekki slitið.