16.05.1941
Sameinað þing: 18. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í D-deild Alþingistíðinda. (3541)

154. mál, sjálfstæðismálið

*Bergur Jónsson:

Ég vil ekki taka undir með hæstv. fjmrh., að enginn ágreiningur sé í þessu máli milli hans og hv. 3. þm. Reykv. Það hefur einmitt komið fram í fyrri brtt. hv. þm. beinn ágreiningur. Ég get undirstrikað allt, sem hæstv. fjmrh. sagði um, að það er ekki hægt að setja fyrri brtt. hv. 3. Þm. Reykv. inn í till. á þskj. 547, vegna þess að hún kemur í bága við önnur atriði till. Það er um tvær leiðir að ræða: Í fyrsta lagi, hvort við eigum að láta okkur nægja að lýsa yfir því, að við höfum rétt til sambandsslita, eða hvort við eigum að lýsa yfir, að við notum okkur strax þann rétt. Það er þessi ágreiningur, sem alltaf hefur verið í þessu máli. Ef hv. 3. þm. Reykv. hefði viljað láta Alþingi gera ályktun um það, að Ísland vildi slíta sambandinu við Danmörku á þessu þingi, þá hefði hann orðið að bera fram sjálfstæða till. um það, en ekki reyna að setja slíkt ákvæði inn í till., sem segir, að það eigi að bíða með að nota sér vanefndirnar frá Danmerkur hálfu.

Ég vil segja það um mína afstöðu, að í fyrra skrifaði ég blaðagrein og hélt því fram, að nú hefðum við rétt til að slíta sambandinu, en óskaði, að till. í þessa átt væri samþ. á komandi Alþ., en með því skilyrði, að á bak við þá yfirlýsingu stæði helzt allt þingið og öll þjóðin, líkt og var um yfirlýsingar Alþ. 10. apríl 1940. Síðan hafa orðið miklar umr. um þetta mál, og það hefur komið í ljós, að það er fjöldi manna innan þings og utan, sem ekki vill nota sér vanefndirnar til að lýsa sambandinu við Danmörku að fullu slitið. Ég vil þess vegna halda mér við þá sömu afstöðu og ég hafði, er ég ritaði nefnda blaðagrein. Úr því að ekki stendur á bak við ósk mína yfirgnæfandi meiri hl. þings og þjóðar, er ég ánægður með, að því sé slegið föstu hér á Alþ.,Alþ. telji sig hafa fullan rétt til sambandsslita, og sé sá réttur notaður undireins og ástæður eru þannig, að það sé hægt. Tel ég það vel við unandi fyrst um sinn.