21.05.1941
Neðri deild: 64. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í D-deild Alþingistíðinda. (3563)

152. mál, kirkjubyggingar í Skálholti og á Þingvöllum

*Gísli Guðmundsson:

Ég varð fyrir vonbrigðum, hvernig hv. 1. þm. Rang. tók í till. mína um, að í till. til þál. um kirkjubyggingu yrði bætt áskorun til ríkisstj. um að flytja aðsetursstað biskups til Skálholts. Mér virðist liggja beint við, að þetta tvennt sé athugað í einu, en hv. þm. segir, að andstaða sé gegn því, að biskup verði fluttur. Ég hef ekki orðið var við neina andstöðu, en þó má vel vera, að svo sé. Það eru raddir um, að nú beri að stefna að því að efla Þjóðleg verðmæti, og þetta, sem ég er hér með, er í fullu samræmi við það. Hins vegar er vitanlegt, að alltaf er við ramman reip að draga, ef stungið er upp á, að einhverjir embættismenn séu fluttir úr Reykjavík. En það verður aldrei gert neitt í að flytja þetta mál, ef einhver byrjar ekki á því, og það eiga þeir að gera, sem eru fulltrúar sveitanna. Ég vænti þess, að hv. flm. fallist á, að till. verði vísað til n., þar sem þetta yrði athugað.