09.05.1941
Sameinað þing: 14. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í D-deild Alþingistíðinda. (3572)

82. mál, lagasafn

Flm. (Bergur Jónsson) :

Eins og menn sjá af þessari till., er hún aðeins endurnýjun á þáltill., sem borin var fram á Alþ. 1937 af hv. þm. S.-Þ. og hæstv. núverandi félagsmrh. Við flm. höfum látið prenta í grg. þál., eins og hún var samþ. þá, ásamt grg. þeirri, er fylgdi henni. Við getum tekið undir það, sem sagt er í þeirri grg. En þar sem fallizt var á það þá, að þar væri rétt grein gerð fyrir málinu, ætti sú grg. ekki síður að vera í gildi nú, þar sem liðinn er langur tími og þörfin á nýrri útgáfu lagasafns því orðin enn þá brýnni en þá var. Það er nú orðið því nær ógerningur, jafnvel fyrir lögfróða menn, að fá að vita, hvað eru l. í landinu, og er því afleitt, að þessi vinsæla útgáfa skuli ekki vera endurnýjuð. Er þessi þörf sérstaklega brýn vegna þeirra mörgu manna, sem hafa ekki tíma til að skoða stjórnartíðindi og bera saman breytingar, sem gerðar hafa verið á l. eftir 1931. Tel ég þetta svo sjálfsagt mál, að ekki sé þörf á að ræða það frekar.