25.04.1941
Neðri deild: 44. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í D-deild Alþingistíðinda. (3578)

118. mál, síldarmjölsbirgðir til fóðurtryggingar

*Bergur Jónsson:

Það var til þess ætlazt, að hv. 1. flm. hefði framsögu að þessu máli, en fyrst hann er fjarverandi, vil ég ekki skorast undan því.

Till. ásamt grg. skýrir sig sjálf. Það, sem sérstaklega er um að ræða hér, er það, að gert verði allt, sem unnt er, til þess að tryggja, að til verði í landinu nægilegt síldarmjöl til skepnufóðurs á næsta vetri. Ég hygg, að það sé alveg rétt greint, sem stendur í grg., að svo nærri hefur verið gengið síldarmjölsbirgðum verksmiðjanna, að bændur hafa alls ekki getað fengið keypt fyrsta flokks síldarmjöl. Auk þess er óvissa um, hvernig verður um síldarútgerð og útflutning á næsta sumri, og hins vegar er, eins og menn vita, mjög óvíst, hvernig muni ganga með heyskap á komandi sumri, ekki sízt vegna þess, hversu vinnukrafturinn hefur verið tekinn til annar s en til framleiðslunnar nú um nokkurt skeið, og má búast við, að slíku haldi áfram, og má því búast við, að jafnvel þótt. sumarið reynist nokkuð gott til heyskapar, þá verði nokkrir erfiðleikar á að starfa að honum eins og nauðsyn krefur, til þess að ekki þurfi að skipa að skera niður bústofn landsmanna og loku verði skotið fyrir þá hættu, sem yfir landbúnaðinum vofir, ef siglingahættan verður áfram eða jafnvel eykst, svo að þjóðin verði að búa sem mest að sínu.

Ég held, að ekki sé ástæða til að vísa þessari till. til n. Ég mun ekki setja mig á móti því, en geri ekki till. um það, þar sem nú er áliðið þingtímans og till. er svo sjálfsögð að mínu áliti.