25.04.1941
Neðri deild: 44. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í D-deild Alþingistíðinda. (3584)

118. mál, síldarmjölsbirgðir til fóðurtryggingar

Pétur Ottesen:

Ég vil gera þá fyrirspurn til háttv. flm. þessarar þáltill., hvort þeir hefðu ekki kynnt sér það, hvað ríkisstj. hygðist að aðhafast í þessu máli. Ég þykist hafa fullkomlega ábyggilega vissu fyrir mér um það, að ríkisstj. sé einmitt nú að athuga möguleika fyrir því að geta komizt að samningum við Breta, sem eiga allmikið af síldarmjölinu í landinu, um það að tryggja landbúnaðinum næsta vetur, ef svo tækist til, að ekki yrðu síldveiðar stundaðar hér á komandi sumri, not af þessu síldarmjöli. Ég veit ekki betur en að ríkisstj. sé að vinna að þessu. Og mér finnst, að við stuðningsmenn ríkisstj. eigum svo innangengt hjá henni, að við getum vel fylgzt með því, hvað hún hyggst fyrir um þetta og annað. Þetta er vitanlega nauðsynjamál, að einhvers öryggis sé gætt í því efni, að landbúnaðurinn geti átt aðgang að nægilega miklu síldarmjöli til fóðurs. En auk síldarmjöls er mikið til í landinu af beinamjöli, sem er fullkomlega athyglisvert, hvort ekki ætti að tryggja, að ekki yrði allt flutt út úr landinu, fyrr en þá vissa væri fengin fyrir því, að annars slíks fóðurbætis eða hliðstæðs væri hægt að afla á komandi sumri.

Að mínu áliti er sjálfsagt að vísa þessu máli til n. til frekari athugunar, því að efni till. er óneitanlega athyglisvert.